Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Jarðskjálftinn undir Ingólfsfjalli 29. maí 2008

Þegar jarðskjálftinn reið yfir var ég að labba út úr FSu að fara heim í kaffi og var staddur við útidyrnar kennaramegin. Þá byrjaði húsið að titra með miklum hamagangi og hávaða. Ég beið á meðan þetta reið yfir og reyndi að hafa vara gegn fallandi hlutum sem voru þó engir. Þetta er þriðji jarðskjálftinn sem ég upplifi í þessari byggingu og alltaf finnst mér eins og húsið sé eins og skip í sjó. Í þetta skiptið var eins og húsið ruggaði til hliðanna. Það er mikið járnabundið og ruggaði í heilu lagi eins og skip sem fékk á sig hliðaröldu. Fyrir utan dyrnar voru málarar að störfum sem flýttu sér niður úr stigum sínum. Við litum til Ingólfsfjalls og þá sá ég sjón sem mig langar ekki að sjá aftur. Allt fjallið var þakið skriðum frá toppi og niðurúr og það mátti greina mikinn fjölda hnullunga og bjarga á hraðferð niður. Af þessu steig mikill reykur upp og drunur. Myndirnar sem voru sýndar í sjónvarpinu sýndu aðeins reykinn sem lá í loftinu eftir að ósköpin gengu yfir.  Það hefði verið mjög óspennandi að vera staddur uppi í Ingólfsfjalli þessar mínútur og ég vona sannarlega að enginn hafi verið þar.

Árið 2000 urðu skjálftarnir í miklu meiri fjarlægð hér fyrir austan og höggið af þeim var ekki eins mikið og höggið af þessum. Á undan þeim skjálfta heyrði ég þó hvin en á undan þessum heyrði ég ekkert, líklega af því hversu nálægt hann var.


Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss

Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.

Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.

Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.

Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.

Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.


Lúðvík Bergvinsson og ríkislögreglustjóraembættið

Nýlegt innlegg Lúðvíks Bergvinssonar í umræðu á Alþingi þess efnis að hann vilji að embætti ríkislögreglustjóra verði lagt niður í núverandi mynd er erfitt að skilja. Ég skil umræðuna um sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli en tel reyndar að hávær afskipti nokkurra þingmanna af því máli orki tvímælis og hyggilegra væri að láta af harðskeyttri gagnrýni og leyfa ráðuneytisfólki að leysa þetta deilumál í friði í samvinnu við embættið á Suðurnesjum. Innlegg Lúðvíks um ríkislögreglustjóraembættið kemur inn í þessa umræðu en erfitt er að sjá hvernig það tengist umræðunni efnislega. Þessi tvö embætti tengjast ekki sérstaklega umfram önnur og það flækir frekar málin fremur en hitt að blanda þessu saman. Málflutningurinn ber frekar vott um pólitísk átök og svo virðist sem Lúðvík sé kominn í stjórnarandstöðu.

Forsendur Lúðvíks um að efla þurfi grenndarlöggæslu eru góðar og gildar eins og t.d. ályktun Lögreglufélags Árnessýslu frá í nóvember sýnir en aftur er erfitt að sjá hvernig þær forsendur eiga að leiða af sér að ríkislögreglustjóraembættið verði lagt niður í núverandi mynd.

Nýleg frétt Fréttablaðsins frá því í fyrradag staðfestir þrálátan grun síðustu missera um að erlendir glæpahópar hafi náð fótfestu hér á landi og þeim sé stjórnað erlendis frá, árásin í Keilufelli í Breiðholti sem og árás á lögreglumenn að störfum, Fáskrúðsfjarðarmálið og fleiri atburðir ættu að nægja til að sannfæra flesta um að þörf er á miðlægu lögregluembætti og að það þarf að vera nægilega öflugt til að takast á við þessi verkefni.

Ekki trúi ég að Lúðvík vilji láta þessar samfélagsvarnir niður falla þó hann vilji ríkislögreglustjóraembættið feigt, en telur hann í alvöru enga hættu á að hann stofni vinnu undangenginna missera og ára sem lögð hefur verið í uppbyggingu embættisins í hættu með svona málflutningi?

Lætur Lúðvík málefnalegan ágreining sinn við Björn Bjarnason hlaupa með sig  í gönur í þessu máli eða vill hann ríkisstjórnina einfaldlega feiga? Fær hann málefnum sínum ekki framgengt í ríkisstjórnarsamstarfinu? Svo virðist vera því einbeittur og harðskeyttur málflutningur hans sem er síendurtekinn í málefnum dómsmála bendir til þess. En ef baráttumálin eru á þessa leið, þ.e. að leggja beri heilu embættin niður í núverandi mynd þá er nú skiljanlegt að lítið sé gert.


Hinn umhverfissinnaði ökumaður

Á netinu má finna ýmis ráð fyrir umhverfissinnaða ökumenn og sjálfsagt sum hver hin ágætustu. Til dæmis það að aka ekki yfir hámarkshraða. Margir ökumenn virðast stóla á að aka á 80 þar sem 70 er hámarkshraði eða 100 þar sem 90 er hámarkið. Af hverju ætli það sé? Það er bæði mun dýrara heldur en að halda sig innan ramma laganna og svo mengar það meira. Getur verið að slæm skipulagning orsaki þetta tímaleysi og þennan hraða?

Nú hef ég heyrt það sjónarmið að tímasparnaður í umferðinni skili sér í aukinni hagsæld, en skyldi ekki góð skipulagning gera það miklu fremur? Hvað ef t.d. tveir eða þrír deila bíl saman frá Reykjavík til Akureyrar og halda sig á eða við hámarkshaða heldur en ef þrír bílar færu sömu leið og væru eins nálægt hundraðinu og Blönduóslöggan leyfði? Sparnaðurinn er strax augljós ef fleiri en einn eru í bílnum og sparnaður er nákvæmlega það sama og minni mengun.

Eitt ráðið sem ég sá var á þá leið að það ætti að létta bílinn eins og kostur er, ekki geyma hluti í bílnum til að rúnta með því öll þynging kallar á aukna eldsneytisnotkun. Einn vildi ganga svo langt að gera aldrei meira en að hálffylla tankinn til að létta bílinn en það er kannski frekar fyrir þá sem hafa tíma til að stoppa oftar á bensínstöðvum.

 


Af hverju hugnast mér ekki ESB?

Af hverju hugnast mér ekki ESB? Ég gæti nefnt þrjár ástæður:

1. Hömlur á verslunarfrelsi. Hér er ein lítil saga um þetta. Ég er áhugamaður um fjarskipti með talstöðvum og mig langaði í fyrra að kaupa CB- talstöð í Bandaríkjunum og flytja inn. Mér var tjáð af starfsmanni Póst- og símamálastofnunar að það væri óheimilt að flytja inn talstöðvar nema þær hefðu CE merkingu. Nýjar CB talstöðvar framleiddar fyrir Bandaríkjamarkað eru vel nothæfar hérlendis og eru í fáu ef nokkru frábrugðnar sömu vöru sem framleidd er fyrir ESB nema að þær eru ekki með CE merkinu. Flestar eru þessar stöðvar t.d. með 4 Watta sendistyrk. Stöðvarnar var samt hægt að fá á mun hagstæðara verði í Bandarikjunum síðasta ár. Starfsmaðurinn tjáði mér að ef ég flytti inn svona stöð sem ekki væri með CE merkingu þá yrði hún gerð upptæk í tollinum! Kurteist en afdráttarlaust svar. Ég segi nei takk! Ekkert staðlað ESB helsi fyrir mig. Verslunarfrelsi er dýrmætt frelsi og uppspretta hagsældar og það ætti ekki að taka hugsunarlaust af fólki.

2. Mismunun gagnvart skyldfólki og ættingjum búsettum utan ESB. Konan mín er frá Filippseyjum og hana langaði til að útvega frænku sinni sem þar er búsett vinnu hérlendis því það vantaði starfsfólk á vinnustað hennar. Farið var í langt umsóknarferli og ítrekað auglýst og óskað eftir fólki hérlendis sem ekkert fannst. Eftir næstum árs þóf við kerfið kom loksins afdráttarlaust svar: Ákveðin synjun og vinnustaðnum bent á að snúa sér til Evrópskrar vinnumiðlunar til að afla sér starfsfólks.

3. Breytt sjálfsmynd þjóðarinnar. Ef fólk gengst inn á reglur af þessu tagi sem hér er nefnt að framan og finnur til vanmáttar síns gagnvart því að þeim sé breytt þá lamast bæði frelsishugsunin og sú hugsun að í þessu landi búi frjálsborin þjóð sem einhverju fái breytt með eigin ákvörðunum.  Ef vitringar, sérfræðingar og stjórnlyndir forræðishyggjumenn úti í löndum fá að fara sínu fram hérlendis hvað sem hver tautar og raular hérlendis (eins og til dæmis hvíldartímákvæði vörubílstjóra) þá er erfitt að ætla annað en þessi frelsissjálfsmynd skaðist.


Hinar mörgu hliðar umhverfisstefnunnar - kjörorðin eiga að vera „snjallt“ og „endingargott“ en ekki „nýtt“

Þetta með að offita stuðli á aukinn þátt í loftslagsbreytingum þarf ekki að koma á óvart því allt sem gert er hefur áhrif. Það er ekki nóg að flokka úrgang og skila. Ef við viljum taka betur á þá hreyfum við líka einkabílinn sem minnst og sláum fjórar flugur í einu höggi; fáum hreyfingu og brennum minna af kolefnaeldsneyti auk þess að spara bæði kostnað við líkamsrækt og bensín.

En þannig mætti líka lengi telja. Hversu mikil þörf er ekki á því að hægja á lífsþægindagræðgi nútímans og taka upp siði sem voru aflagðir hér fyrir svo sem hálfri öld eða svo. Þá voru allir hlutir gernýttir og engu hent sem hægt var að endurnýta. Snærisspottar voru geymdir og splæstir saman, allt timbur nýtt til hins ítrasta, gamlar mublur gengu kaupum og sölum þangað til þær liðuðust í sundur. Bílar voru lagaðir og lagaðir og jafnvel handsmíðaðir í þá hlutir.  Þá voru ferðalög ekki svo algeng því þau voru firnadýr og líkur eru á að svo verði í framtíðinni. Fólk, jafnvel ókunnugir sameinuðust um bílferðir. Pælið í því! Þetta var nægjusamara þjóðfélag en það sem við búum í í dag en það var líka umhverfisvænt á sinn hátt þó svo orðið hafi ekki verið til þá.

Með því að kaupa eitthvað, hvort sem það er ferðalag eða hlutur erum við að stuðla að mengun og óþrifnaði í kringum okkur og því meira sem við kaupum því meira sóðum við út. Við sjáum kannski ekki óþverrann, hann getur sem hægast verið að safnast upp hinum megin á jörðinni, en hann er býsna örugglega þarna einhversstaðar.  Hversu mikið er ekki búið að henda af stóru túpusjónvörpunum sem voru vinsæl rétt áður en flatskjáirnir komu? Það eru trúlega einhver ósköp. Í þessu tilliti þarf hver og einn að skoða sitt hugskot og velta orðinu 'nýtt' af stallinum og setja þar frekar eitthvað á borð við 'snjallt' eða 'endingargott'.


mbl.is Offita stuðlar að loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um örnefnið „Almannagjá“ og kenningar um staðsetningu almennings á Alþingi hinu forna

Sumrin 1984-1986 var ég sumarstarfsmaður í Þjóðgarðinum á Þingvöllum og vann þar ýmis störf svo sem að tína rusl í Almannagjá og nágrenni. Þá fór ég að velta fyrir mér kenningum sem hingað til hafa verið viðteknar um að lögsögumaðurinn á Alþingi hinu forna hafi staðið á Lögbergi og talað til mannfjölda sem á að hafa staðið niðri í hlíðinni austan megin við gjána, dreifður um þar fyrir neðan og allt niður að Öxará. Balarnir þar stóðu hærra á miðöldum því land seig á Þingvöllum eins og kunnugt er í jarðskjálftunum miklu undir lok 18. aldar.  Þessar kenningar rifjuðust upp í fyrrakvöld þegar ég sá Sigurð Líndal í sjónvarpinu reifa þetta við danska kóngafólkið og þar minntist hann líka á þá kenningu sína að lögsögumaðurinn hafi snúið baki í fólkið í hlíðinni og talað í áttina að gjárveggnum til að nýta hljómburðinn í hinum háa vestari bakka gjárinnar.

Nú er það svo að sá sem leggur leið sína um Almannagjá og Lögberg og grenndina þar fyrir neðan, og fer þarna um í alls konar veðri veitir því auðveldlega athygli að það sem sagt er í gjánni berst sérlega vel eftir henni endilangri nema veðurhljóð sé þeim mun meira. En reyndar er það svo að ef hvasst er þarna þá er besti og skjólsælasti staðurinn bæði fyrir rigningu og roki niðri í gjánni, þ.e. niðri í Almannagjá.  Þetta geta menn sem best prófað sjálfir því umferð gangandi vegfarenda er umtalsverð og tal fólksins heyrist best niðri í gjánni sjálfri og berst vel. Við góðar aðstæður gerist það jafnvel að það sem sagt er stundarhátt niðrundir Haki heyrist alla leið að beygjunni sem verður á gjánni skömmu áður en komið er að Öxará og það án þess að menn ætli að reyna mikið á röddina.

Þessar voru hugleiðingar mínar þegar ég dundaði við ruslatínsluna og í framhaldi af því fór ég að velta fyrir mér örnefninu 'Almannagjá' og hvað það segði. Ég velti því fyrir mér spurningunni: Hver er í Almannagjá ef ekki almenningur? En eins og kunnugt er þá er talið að talsverður fjöldi fólks hafi verið á þinginu að hlýða á lögin og dómana eins og sjá má hér:

Alþingi Íslendinga er í senn elsta stofnun þjóðarinnar og sú æðsta. Það er talið stofnað á Þingvöllum árið 930, og markar sá atburður upphaf þjóðríkis á Íslandi. Í upphafi var Alþingi allsherjarþing þar sem æðstu höfðingjar komu saman til löggjafarstarfa og til að kveða upp dóma. Auk þess var öllum frjálsum mönnum og ósekum heimilt að koma áþingið, og þangað sóttu auk goða bændur, málsaðilar, kaupmenn, iðnaðarmenn, sagnaþulir og ferðalangar. Oft hefur því verið fjölmennt á Alþingi.Þeir sem sóttu Alþingi dvöldust í búðum á Þingvöllum um þingtímann. Innan þinghelgiskyldu allir njóta griða og frelsis til að hlýða á það sem fram fór.Miðstöð þinghaldsins var Lögberg. Þar átti lögsögumaðurinn fast sæti, en hann var æðsti maður þingsins. Hlutverk hans var meðal annars að fara upphátt með gildandi lög Íslendinga, þriðjung þeirra ár hvert. Lögin um þinghaldið, þingsköpin, fór hann með fyrir þingheim árlega. [Leturbr. RGB] [1]

Vegna þessara hugleiðinga minna við ruslatínsluna forðum hef ég alltaf fundið til efa þegar ég hef heyrt hinar viðteknu kenningar um að almenningur hafi staðið niðri í hlíðinni og á bölunum við Öxará og hef með sjálfum mér ekki trúað þeim. Ég leyfi mér þvert á móti að halda fram að fólkið - almenningur hafi miklu fremur staðið niðri í Almannagjá eins og nafnið bendir til því þar er bæði skjólsælast og hljóðbærast  og að Lögberg hafi verið á gjárbarminum, kannski skammt frá þeim stað þar sem talið er núna að það sé en mér finnst líklegt að það hafi verið heldur ofar og nánast á brúninni því ef maður stendur á austari og lægri brúninni þá nýtur hann góðs hljómburðar til jafns við þá sem eru niðri í gjánni en því fjær sem maður fer frá brúninni og niður í hlíðina þá dregur úr hljómburðinum. Vera má líka að fólk hafi verið dreift úti um allt eins og gengur og gerist þar sem mannfjöldi kemur saman, kannski slangur af fólki í hlíðinni og jafnvel niðri við Öxará en fleiri niðri í Almannagjá sjálfri, og þegar veðrið versnaði er líklegt að flestir hafi safnast upp í gjána til að hlýða á lögsögumanninn á meðan enn var fært að þinga vegna veðurs.

[1] Sjá: http://www.althingi.is/pdf/isl.pdf


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband