Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Óðurinn til lífsins og vináttunnar

Flestir þekkja hið geysivinsæla lag 'Wonderful world' sem Louis Armstrong gerði heimsfrægt. Hægt er að sjá óborganlegan og einstæðan flutning hans á því á eftirfarandi YouTube myndskeiði sem nú þegar hefur fengið yfir 3 milljónir heimsókna:

Texti þess er í stuttu máli óður til lífsins, vináttunnar og æskunnar og var hugsunin á bakvið hann sú að auka bjartsýni fólks í Bandaríkjunum árið 1967 þegar lagið var gefið út. Þetta var á tímum kynþáttatogstreitu og Víetnamstríðs. Lífsgleðin og vináttan getur sameinað alla, bæði unga og gamla, fólk af ólíkum þjóðum, litarhætti og trú, karla og konur. Í tilefni af því langaði mig að gera tilraun að texta við þetta lag sem gæti komist eitthvað nálægt því að ná þeim hughrifum sem enski textinn kemur svo vel til skila. Hvort það hefur tekist verða aðrir að dæma um. Ég lýk því þessari síðustu bloggfærslu ársins með því að birta textann hér fyrir neðan og þakka ykkur lesendur góðir samfylgdina á árinu. Megið þið njóta blessunar, lífsgleði og friðar á árinu sem nú gengur í garð.

Vinarþel 

Ég sé laufguð tré  - [og] rauðrósa beð,
í blóma þær  -  lífg' okkar geð.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

Himinbláminn skær - og skýjabær
dagur mér kær - [og] nóttin svo vær.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

Í litum regnboganna - mér birtist hljómur skýr
í andlitunum ljómar - þá vonarlogi nýr.
Vinir heilast hlýtt segja; blessun sé þín
úr augum þeirra - ánægjan skín.

Barnahlátur tær - [mér] hjarta er nær
blessun sá fær - er eyra þeim ljær.
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel.

(tónlist)

Í litum regnboganna - mér birtist hljómur skýr
í andlitunum ljómar - þá vonarlogi nýr.
Vinir heilast hlýtt segja; blessun sé þín
úr augum þeirra - ánægjan skín.

Barnahlátur tær - [mér] hjarta er nær
blessun sá fær - er eyra þeim ljær
[Já] ég heillatákn tel - okkar vinarþel. 

Ath. [] merktan texta er hægt að fella niður ef það fer betur í söngnum.

Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/What_a_Wonderful_World


Getur EFTA gengið í endurnýjun lífdaga?

Tillaga Björgólfs Thors í Kastljósinu á dögunum um að taka gengisáhættu út úr rekstri fyrirtækja hér á landi með því að skipta um gjaldmiðil er allrar athygli verð. Hann lagði m.a. til að taka upp svissneska frankann. Viðskiptaráðherra var fljótur til svars og taldi tormerki á því að það væri hægt því til þess þyrfti að koma á myntbandalagi við Sviss.

Nú spyr ég því í framhaldinu: Hvers vegna er ekki hægt að koma á myntbandalagi við Sviss? Hér er þegar fyrir hefð fyrir löngu samstarfi við Sviss í gegnum EFTA fríverslunarbandalag Evrópu sem segja má að sé ekki síðri hugmynd að samstarfi Evrópuríkja en EES þó svo síðarnefnda bandalagið hafi vaxið mun meira á síðustu áratugum. Sú viðleitni EES að koma á Bandaríkjum Evrópu er trúlega óraunhæf. Þó svo stofnun Bandaríkja Norður- Ameríku hafi tekist þrátt fyrir eitt frelsisstríð og eina borgarastyrjöld þá er ekki tryggt að sama gangi í Evrópu. Þar voru menn að stofna nýtt þjóðríki en hér er verið að sameina ríki þar sem hefðir og venjur eru fastar í sessi - sem og þjóðtungur og þjóðarsérkenni sem fólki eru kær.  Í Bandaríkjunum fórnuðu menn sínum þjóðlegu sérkennum af því þeir voru komnir í nýtt land. Hér í Evrópu er ekkert slíkt að gerast.

Fríverslunarbandalag Evrópu er aðili að EES samningnum og sá kostur að efla það bandalag og það samstarf er því möguleiki sem ætti að kanna til hlítar og ekki spillir tillaga Björgólfs í þessu sambandi.


Billy Swan: „I can help“

Hver man ekki eftir þessu skemmtilega lagi frá '74? Í athugasemdakerfinu með laginu stendur að Presley hafi flutt það. Aldrei hef ég heyrt kónginn syngja það og hef þó hlustað á margt lagið með honum. Hvað svo sem er satt í því máli þá fer Billy mjúkum höndum um lagið og það er mín trú að flestir sem heyrðu hann flytja það muni betur eftir þeim flutningi. Það var spilað aftur og aftur í útvarpinu árið '74.

René Pape syngur Ó Isis og Ósiris úr Töfraflautunni

Ég fann þetta skemmtilega myndskeið á YouTube af René Pape þar sem hann syngur aríu Sarastrós úr Töfraflautunni eftir Mozart. Njótið vel. Getur nokkur vísað mér á íslenska textann við þessa aríu?

Jólin eru alveg að koma - setjum nú upp skeggið

Jæja núna eru jólin alveg að koma og tími til að fara að setja upp jólasveinaskeggið eins og Bragi á þessu YouTube myndskeiði. Við í Baugstjörn 33 sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár með þökkum fyrir liðið.

 


Höldum vöku okkar - gefum Grýlu og jólakettinum engin færi

Grýla reið fyrir ofan garð
hafði hala fimmtán,
en á hverjum hala
hundrað belgi,
en í hverjum belg
börn tuttugu.
Þar vantar í eitt,
og þar skal far í barnið leitt.

Svona er Grýlu kerlingunni lýst í gömlu kvæði. Grýla er fornu fari talin einhver hinn versti óvættur. Hún er bæði mannæta og leggst á þá sem minnst mega sín og leggur til atlögu þar sem garðurinn er lægstur ásamt annarri óvætt - jólakettinum. Hún er því tákn einhverrar þeirrar mestu ómennsku og illsku sem hægt er að hugsa sér. Þegar koma jólasveinanna sona hennar er skoðuð sést að fyrst koma tiltölulega meinlitlir sveinar, Stekkjastaur sem gerir ekkert annað en reyna að sjúga ærnar, Giljagaur sem reynir að sleikja mjólkurfroðu og Stúfur sem hirðir agnir af pönnu. Síðari sveinarnir eru þeim mun ógurlegri. Skyrjarmur eða Skyrgámur sá áttundi stal skyri, Bjúgnakrækir bjúgum. Ketkrókur sá tólfti stelur aðal matarbirgðunum kjötinu og Kertasníkir sá þrettándi rænir ljósunum sjálfum. Þarna má sjá ákveðna stigmögnun illskunnar og klækjanna eftir því sem nær dregur jólunum. Kertasníkir kemur á aðfangadagskvöld þann 24. desember. Það sem vantar inn í þessa mynd er óvætturin sjálf Grýla hin skelfilega móðir allra hinna, mun hún birtast eða ekki á jóladaginn sjálfan 25. desember? Sú mynd sem þarna er dregin upp er eins og púsluspil þar sem hlustandinn á sjálfur að setja síðasta stykkið og spurning er hvernig stykki það verður. Í frægu jólasveinakveri Jóhannesar úr Kötlum og í fleiri heimildum er Grýla aflögð trúlega vegna þess að sú venja er aflögð að hræða börn til hlýðni og sagt er að Grýla sé dauð. Þetta er merkileg heimild um umskipti og viðhorfsbreytingu menningarinnar gagnvart táknmyndum ómennsku og illsku.

Trúlega hefur fátækt og ýmis óáran fyrri tíma valdið því að skil mennsku og ómennsku hafa verið skarpari en þau eru í dag. Svangt fólk eða sveitarómagar sem veslast upp úr hor eru sem betur fer ekki lengur hluti af raunveruleikanum. Á þeim tíma sem jafnframt er tími fábreyttari uppeldisaðferða hefur kannski þótt nauðsynlegt að draga upp skýrar myndir ómennskunnar til að vekja fólk á öllum aldri til vitundar um náunga sinn og leggja áherslu á ábyrgð hvers og eins.

Ef marka má þann kraft sem settur er í vegsömun mennskunnar og ljóssins í dag hérlendis og í nágrannalöndum okkar um þessar mundir ættum við í engu að þurfa að kvíða né óttast þann raunveruleika sem Grýla táknar - amk. ekki í okkar heimshluta. Það þýðir samt ekki að við megum sofna á verðinum og halda að fyrst Grýla sé dauð þá muni hún alltaf vera það áfram. Þau forréttindi að búa við Grýlulaust land eru hvorki sjálfsögð né sjálfgefin. Þau eru undir því komin að við höfum vara á okkur og veljum gaumgæfilega þau púsl sem við notum til að móta mynd lífsins og samfélagsins.


Hvernig breyttust jólasveinarnir og af hverju?

Oft hef ég hugsað um þá algeru umbreytingu sem varð á gömlu íslensku jólasveinunum, Stúf, Stekkjastaur, Skyrgámi og þeim bræðrum öllum sonum Grýlu og líklega Leppalúða. 

Umbreytingu þessara karla má líkja við algera viðhorfsbyltingu eða umsnúning á lífsgildum. Þeir leggja af tröllskap sinn og fláræði Grýlu kerlingarinnar sem var eitthvert versta tröllaskass sem sögur fara af og verða þess í stað alger andstæða þess sem þeir voru áður. Þeir umbreytast í glaðlega karla sem keppast við að gleðja mann og annan en þó aðallega börnin. Hvað svo sem það var sem gerðist þá má segja að það hljóti að hafa verið eitthvað gott. Fóru þeir kannski í skóla eða var það skóli lífsins sem hafði þessi góðu áhrif? Þeir hafa að sögn verið til í mörg hundruð ár og enginn skyldi vanmeta lífsreynsluna - en það skrýtna er að það er ekki lengra síðan en á fyrri hluta síðustu aldar sem þeim bræðrum var lýst sem sísvöngum matarþjófum og hrekkjakörlum í landsfrægum jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum.

Ég hallast því að því að þeir bræðurnir hafi gengið í skóla eða að minnsta kosti farið á námskeið þar sem markmiðið með náminu hefur verið breytt viðhorf og bætt hegðun. Ef þetta er ekki raunin þá hlýt ég að hyggja að þeir hafi kynnst einhverjum sem hefur haft þessi góðu áhrif á þá.


Enn birtast vankantar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins ohf

Enn eitt dæmið um það hve fyrirkomulag ríkisútvarpsins er óheppilegt er að með hlutafélagsvæðingunni þá flýtur þessi hálf- opinbera stofnun í tómarúmi á milli opinbera geirans og einkageirans. Hvers konar hlutafélag er það sem þarf að standa fjölmiðlum skil á launum starfsfólks síns opinberlega? Þegar laun útvarpsstjórans voru hvað mest í umræðunni á dögunum kom í ljós að samkvæmt upplýsingalögum sem gilda um opinberar stofnanir verður stofnunin/fyrirtækið að upplýsa um launakjör yfirmannsins. Þetta er ótrúlegt en satt og hlýtur að vera sérlega óþægilegt fyrir fyrirtæki sem á að starfa á samkeppnismarkaði - að vísu með veglegum heimanmundi þó. Tími er til að þessu ástandi linni og heppilegra félagsform verði fundið fyrir stofnunina eigi hún að vera áfram undir handarjaðri ríkisins. Hinn kosturinn og hann væri ekki síðri væri að stíga einkavæðingarskrefið til fulls. Þessi hálfkveðna vísa getur trauðla gengið til lengdar.  

Jafnframt þyrfti að koma á fót öflugu hljóðritasafni undir handarjaðri ríkisvaldsins. Hvað afnotagjaldið varðar þá ættu neytendur að fá að kjósa hvert sá styrkur rennur og hann gæti runnið til frjálsra útvarps- og sjónvarpsstöðva í réttu hlutfalli við framboð þeirra af innlendu efni. Sjá t.d. fyrri pistla mína um þetta efni undir efnisflokknum 'Ríkisútvarpið'


Ljómi barnsins - nýr jólatexti við þekkt lag

Flestir muna eftir eða kannast við Procol Harum lagið 'A whiter shade of pale'. Hægt er að skoða það á YouTube hérna. Lagið er bæði dramatískt og hátíðlegt og í því má merkja ákveðið ris sem nær hámarki í sérlega grípandi og fagurri laglínu sem varð heimsfræg 1967 í flutningi hljómsveitarinnar þar sem leikur á Hammond orgel var áberandi. Þannig vildi til að fyrir nokkrum vikum hafði ég veður af því að það vantaði íslenskan texta við lagið og í framhaldi af því bjó ég til texta sem á sunnudagskvöldið var frumfluttur og sunginn á aðventutónleikum í Selfosskirkju af Gunnari Guðna Harðarsyni við undirleik strengjasveitar Tónlistarskóla Árnessýslu og Esterar Ólafsdóttur sem lék á orgel. Stjórnandi var Greta Guðnadóttir. Íslenski textinn er eins og sjá má ekki byggður á enska textanum heldur er hann sjálfstæð smíð við lagið og er byggður í kringum þema sem er heimsókn vitringanna að vöggu Jesúbarnsins.

 Ljómi barnsins

Við ferðuðumst um nætur
í ljóma stjörnunnar
um eyðisand og merkur
í von að fá nú svar
Kynngimagnað næturhúmið
kvað sitt huldudjúpa ljóð
um óræð hinstu örlög manna
-en við misstum ekki móð-

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Í ómi mildrar þagnar
þú færir okkur von
Í stjörnuskini huggar
ung kona lítinn son
gull reykelsi og myrru
við berum þér að gjöf
um jörðina fer gleðistraumur
um hjörtun hlýleg svör

En svo gerðist það - yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd - lítils barns

Og fjárhirðarnir komu
og fluttu þessi boð
Um englaraddir bjartar
vefa gullna orðavoð
Mikinn frið ég ykkur færi
og fögnuð hér í dag
ykkur frelsari er fæddur
syngjum lof- og dýrðarlag


Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi

Í grein 3 í lögum nr. 6 frá 1. febrúar 2007 um Ríkisútvarpið ohf segir um hlutverk almannaútvarps, en það er m.a:

 Að varðveita til frambúðar frumflutt efni, enda sé gengið frá samningum við aðra rétthafa efnis um að slíkt sé heimilt.

Í 4. grein segir svo:

Ríkisútvarpinu ohf. er heimilt að taka saman, gefa út og dreifa hvers konar efni, án endurgjalds eða gegn endurgjaldi, sem stuðlar að því að miðla áður framleiddu efni í eigu félagsins, svo sem rituðu máli, hljómplötum, hljóðsnældum, geisladiskum, myndböndum og margmiðlunarefni.

Í þessum málsgreinum felst enn ein mismununin gagnvart frjálsu útvarpsstöðvunum sem fyrir bera skarðan hlut hvað varðar menningarstyrk frá ríkisvaldinu. Ekki er nóg með að RÚV fái styrk til að varðveita frumflutt efni heldur getur stofnunin líka hagnast á því að gefa það út.  Með ólíkindum er að frjáls og fullvalda þjóð skuli koma menningarmálum sínum fyrir á þennan hátt og láta einn aðila njóta þvílíkra forréttinda. Margþætt hlutverk RÚV hlýtur líka að vera ráðamönnum þar á bæ nokkur vandi. Ekki er nóg með að stofnunin þurfi að sinna umfangsmiklum útvarpsrekstri heldur ber henni að varðveita mestan part af hljóðrituðum menningararfi þjóðarinnar!

Heppilegast væri að koma á fót sjálfstæðu hljóðritasafni eða auka við starfsemi Kvikmyndasafnsins þannig að þessum þætti menningarinnar væri sinnt af sjálfstæðri og óháðri stofnun. Jafnframt þyrfti að gefa öllum jafnan aðgang að þessu efni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband