Rafrænt kosningakerfi gæti auðveldað þjóðaratkvæðagreiðslur til muna

Nýlegir stórviðburðir í stjórnmálaheimi landsins þar sem ríkisstjórn þurfti að víkja í kjölfar mikilla almennra mótmæla sýna svo ekki verður um villst að á einhvern hátt þarf lýðræðið að vera virkara en það er og stjórnvöld að geta endurnýjað umboð sitt til þjóðarinnar á skilvirkari hátt en í núverandi kerfi leiki nokkur vafi á því að það sé til staðar. Rafrænar kosningar gætu leikið þar stórt hlutverk.

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að vegna nútímatækni er auðveldara og raunar auðveldara en nokkru sinni áður að kanna hug þjóðarinnar. Núverandi kerfi sem byggir á handvirkri talningu atkvæðaseðla úr pappír er býsna öruggt, stendur fyrir sínu en er þungt í vöfum og dýrt. Með lítilli fyrirhöfn ætti að vera hægt að koma upp rafrænum kosningastöðvum þar sem kjósandi fær afhentan kóða. Þennan kóða myndi hann stimpla inn á tölvu og þá myndi birtast honum rafrænn atkvæðaseðill sem hann gæti merkt við og skilað.

Með nægilegri fyrirhyggju ætti að vera hægt að búa til bæði einfalt og öruggt kerfi. Að sjálfsögðu þyrfti kerfið síðan að virka þannig að ekki væri hægt að rekja einstök atkvæðaskil til staðar og tíma. Niðurstöðurnar yrðu sendar dulkóðaðar til miðstöðvar landskjörstjórnar. Hægt er að hugsa sér að nýta venjulegar tölvur til framkvæmdarinnar og ættu t.d. tölvur í skólum landsins að geta dugað í flestum tilfellum. Þannig þyrfti þjóðin ekki að leggja út í stórfelldan kostnað við tækjakaup.  

Atkvæðaseðlar á pappír geta síðan verið til staðar á hverjum kjörstað ef alvarlegar tæknibilanir verða svo sem rafmagnsleysi. Rafræna kerfið ætti því að geta tekið við og talið mjög stórt hlutfall atkvæðaseðla og ólíklegt er að hlutfall pappírsseðla yrði yfir 10% af heildarfjölda greiddra atkvæða, trúlega mun lægra. Þetta fyrirkomulag myndi spara kostnað við talningu og niðurstöður gætu legið fyrir mun fyrr en í núverandi kerfi.

Með þessu fyrirkomulagi ættu þjóðaratkvæðagreiðslur að geta verið mun fyrirhafnarminni, ódýrari og því hægt að halda þær oftar en með núverandi fyrirkomulagi. Þessu þyrftu stjórnvöld að huga að.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið við að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur er einungis eitt; að sannfæra yfirvöld og þjóðina sérstaklega, um að það sé góð hugmynd. Það mætti halda þjóðaratkvæðagreiðslur á hverju ári nákvæmlega eins og Alþingiskosningar, og það myndi kosta minna en Listdansflokkur Íslands. Ég er ekkert að spauga með það, ég athugaðu fjárlögin, það kostar sirka 80 milljónir á ári að halda Listdansflokkinn, og sirka 60-70 milljónir að halda Alþingiskosningar.

En hitt er rétt að rafrænar kosningar gætu auðveldað mikið til, fyrir utan auðvitað hvað þær myndu gera upplýsingar aðgengilegar fyrir almenning.

Kíktu á http://beint.lydraedi.is - þar er hægt að kjósa um mál sem Alþingi fjallar um. Þetta er tilraunaverkefni sem nokkrir lýðræðisinnar standa að.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 09:28

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég vil vekja athygli á því að það er starfandi hópur innan samgönguráðuneytisins um rafrænar kosningar.  Hugmyndin er að í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári verði notast við rafrænt kerfi í nokkrum pilot sveitarfélögum.

Einnig vil ég benda á nærri tveggja ára gamla færslu frá mér um þetta efni: Rafrænar kosningar í Eistlandi

Marinó G. Njálsson, 9.2.2009 kl. 10:20

3 identicon

Rótin að vandanum er siðrof.  Rafrænar kosningar koma ekki í veg fyrir spillingu heldur myndu e.t.v. svæfa "skrílinn" í einhver ár í viðbót.  Nóg að skoða Diebold ruglið í Bandaríkjunum til að sjá að spilling getur vel þrifist innan rafrænna kosninga.

Þar að auki dugar sjónvarp og fjölmiðlar ágætlega til að afvegleiða fólk sem ekki er menntað í skólum og ekki nennir að lesa sér til um hvernig vald hinna fáu yfir mörgum er græjað.

Sjáið til dæmis Óbama - er hann frelsari eða hvað? Hip Hop og Óbama

Gullvagninn (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 10:52

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin og athugasemdirnar.

Helgi Hrafn: Þetta er athyglisverð tilraun með skuggaalþingið. Menn ættu auðvitað að geta bloggað og lagt inn athugasemdir og tillögur við frumvörpin og jafnvel taka að sér að fylgjast með málaflokkum.

Marinó: Gott er að frétta af því að rafrænar kosningar séu nú þegar á stefnuskrá stjórnvalda. Þetta þyrfti að verða að veruleika sem fyrst.

Gullvagninn: Já, rétt er það tæknileg útfærsla kemur ekki í veg fyrir spillingu en minni kostnaður við þjóðaratkvæðagreiðslur og auðveldari og greiðari framkvæmd þeirra gerir að verkum að erfiðara verður að tína til rök gegn þeim. Tökum sem dæmi fjölmiðlafrumvarpið 2004 sem vitaskuld hefði átt að leggja í dóm þjóðarinnar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 9.2.2009 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband