Langbylgjustöðin á Eiðum nægir ekki þegar Gufuskálar detta út

Nýlega var tilkynnt á langbylgjustöð RÚV á Gufuskálum að vegna viðhalds og viðgerða ætti að fella niður útsendingar um nokkra stund og á meðan var fólki bent á að stilla á langbylgjustöðina á Eiðum sem sendir út á 207 khz með 100 kw sendistyrk en það er þriðjungur af afli stöðvarinnar á Gufuskálum.  Nú er það svo að langbylgjuútvörp eru misjöfn að gæðum. Ég hef verið að prófa móttökuskilyrði Eiðastöðvarinnar hér á Selfossi og þau eru misjöfn eftir útvarpsviðtækjum. Ég náði Eiðum prýðilega á bílútvarp en á tveimur innitækjum voru móttökuskilyrðin slæm. Þetta sýnir að þessar tvær langbylgjustöðvar eru tæplega nægilegar til að halda uppi öryggisþjónustu til fjarlægra staða landsins. Ekki þarf annað en Gufuskálar detti út og þá er stór hluti af landinu án öruggra útvarpssendinga og þurfa að reiða sig á fjarlæga og skammdræga FM senda eða Eiðastöðina sem er of afllítil til að geta þjónað vesturhluta landsins nægilega vel.

Ég hef haldið því fram í nýlegum pistlum að það þurfi að setja miðbylgjusenda í alla landsfjórðunga. Bæði er það til að ná vel til sem flestra tækja því mörg eru ekki með langbylgju og einnig myndu fjórir sendar tryggja meira öryggi en tveir. Langdrægni miðbylgjunnar er að vísu minni en langbylgjunnar en hún er þó þokkalega góð og fullnægjandi til að þjóna einum landsfjórðungi. Ef sendir dettur út ættu nálægustu sendar líka að geta dekkað það svæði sem dettur út.

Það má samt segja að það sé miður hve mörg útvarpstæki eru án langbylgjunnar því hún hentar trúlega best til langdrægra sendinga sem nýtast vel hérlendis, en þetta er raunveruleikinn og það verður að horfast í augu við hann. Það gæti samt verið hægt að halda langbylgjusendunum við líka þó þessum fjórum miðbylgjusendum yrði bætt við.  Kannski væri  hægt að fjármagna þetta með því að draga úr fjölda FM senda og takmarka þá við þéttbýlissvæðin. Ávinningurinn yrði aukið öryggi og hljómgæðin yrðu viðunandi vegna nálægðar við sendinn þrátt fyrir að um miðbylgjusendingu væri að ræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En hvers vegna er ekki sett upp langbylgjustöð á suðurlandi sem gæti þjónað öllu suðurlandsundirlendinu,,,,,,,,,,,,,,

Res (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 10:53

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Res. Ekki veit ég svarið, en trúlega spilar kostnaður þar inn í. Langbylgjan er og verður "eðalvagn" langdrægra sendinga en því miður er erfitt að verða við áskorun RÚV um að gæta þess að kaupa bara inn tæki með langbylgju. Í seinni tíð hefur flætt inn í landið mikið magn tækja sem eru bara með miðbylgju og FM-bylgju. Sérstaklega á þetta við um stofutækin sem eru þó þau tæki sem gjarnan eru tengd bestu loftnetunum.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 26.10.2008 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband