Fimmtudagur, 21.8.2008
Alexey Stakhanov - fallin goðsögn kommúnismans
Ein af þeim goðsögnum sem haldið var á lofti á síðustu öld af áróðursmönnum Sovétríkjanna og málpípum þeirra í öðrum löndum, misjafnlega nytsamlegum sakleysingjum var sagan af Alexey Stakhanov kolanámumanninum sem að sögn gat unnið á við fimm eða gott betur. Stakhanov varð svo frægur að hann komst á forsíðu tímaritsins Time árið 1936. Hann var lykilmaður í áróðursstríði Stalíns og átti eflaust að sýna hvernig kommúnisminn gat hvatt alþýðuna til dáða. Ég minnist þess að ég hugsaði stundum um þennan mann sem gat hagrætt vinnu sinni og tíma þannig að hann fimmfaldaði afköst sín í kolanámunni og ég hugsaði í framhaldinu sjálfur um hvernig ég gæti hagrætt tíma mínum og afköstum betur. Á menntaskólaárunum undir lok 8. áratugarins voru marxistar - leninistar áberandi og einnig virtist mér sem Mao Zedong væri í talsverðu uppáhaldi hjá sumum. Mér blöskraði samt alltaf einhliða og ótrúverðugur áróður kommúnista og bullið um vondu atvinnurekendurna sem aðrændu góðu verkamennina snerti mig ámóta mikið pólitískt séð og ævintýrið um Hans og Grétu. Marx, Lenín, Mao eða Stalín voru aldrei mínir menn en eftir á að hyggja þá hugsa ég að hafi einhver þessara hetja sósíalismans höfðað til mín þá hafi Stakhanov gert það. Ég viðurkenni að ég trúði sögunni af Stakhanov og ég sá ekki í gegnum hana á þeim árum. Þá geisaði enn kalt stríð og greinar á við Time greinina sem vísað er á hér að ofan voru hiklaust kallaðar moggalygi. Það var erfitt andrúmsloft og það gat verið áhættusamt að viðra pólitískar skoðanir því menn gátu átt á hættu að missa vini eða falla í ónáð á ýmsum stöðum.
Seint á 9. áratugnum byrjaði svo að molna undan orðstír Stakhanovs. Það byrjaði með grein í The New York Times 1985 og síðan fylgdi sjálf Pravda í kjölfarið 1988, en Pravda var málgagn sovéska kommúnistaflokksins. Á þeim árum var Pravda orðin óvægin í endurskoðunarhlutverkinu * og perestrjoka - stefna endurskoðunar- og umbótasinnans Gorbatsjoffs var orðin ofan á. Þessar fregnir nam ég með einum eða öðrum hætti á þessum árum, blessunarlega og því er ég núna laus undan oki Stakhanovs - eða næstum því. Ég stend sjálfan mig þó að því ennþá að reyna að gjörnýta tímann eins og hægt er. Ég opna stundum tvær eða þrjár tölvur og vinn á þeim öllum. Set í gang verkferla á þeim og færi mig síðan á milli og ýti á enter á einni á meðan ferlismælir silast yfir skjáinn á annarri og sú þriðja er í endurræsingarfasa. Þetta er stundum hægt en þó ekki alltaf. Ég afsaka mig gjarnan með því að hérna fari ég líka eftir aðferðafræði örgjörvans sem úthlutar hverju verki tímasneið og heldur mörgum verkferlum í gangi líkt og fjölleikamaður með marga bolta á lofti. Var nokkur að tala um Stakhanov - nei ekki ég.
* Endurskoðunarsinnar var pólitískt hugtak sem kommúnistar notuðu. Það var notað yfir þá sem vildu þróa sósíalismann og horfa á hann með gagnrýnu hugarfari. Þetta hugtak notuðu harðir kommúnistar eins og hvert annað skammaryrði yfir frjálslyndari félaga sína.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:18 | Facebook
Athugasemdir
Ef að eitthvað er öruggt í heimi hér er það að stórir atvinnurekendur reyna ávalt að kroppa eins nærri réttindum starfsfólks og þeir komast upp með á annað borð, svo mikið kenir sagan okkur þó og það mjög skýrt. Hitt eru undantekningarnar sem er nokkuð margar þó.
Bullið um góðu atvinnurekendurna sem eitt,tvö og þrjú hafa velferð starfsmanna og fjölskyldna þeirra fyrir brjósti stent yfirleitt illa skoðun.
Georg P Sveinbjörnsson, 22.8.2008 kl. 15:08
Sæll Georg og takk fyrir innlitið. Punkturinn hjá mér ekki sá að fyrst að ekki væri satt að atvinnurekendur væru vondir og verkamenn góðir þá hlytu atvinnurekendur að vera góðir og verkamenn vondir heldur miklu fremur sá að við búum í svo fjölbreyttum heimi að svarthvítar alhæfingar um stéttir fólks eru hæpnar. Sér í lagi ef þeim er ætlað að breyta heiminum og hafa pólitísk áhrif á fólk. Popúlismi og sökudólgaleit er ætíð nálæg tækifærissinnum sem reyna að virkja óánægju almennings sér til pólitísks framdráttar. Ef gagnrýni er ekki efnisleg og rökstudd þá er hún einskis virði. Sér í lagi ef hún málar upp dökkar myndir af meintum óvinum samfélagsins.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 22.8.2008 kl. 19:11
Þóttist nú vita að þú meintir þetta ekki þannig, vildi bara hnykkja á þessu atriði og er algerlega sammála um að ekkert er svart/hvítt, sérstaklega þegar gróði og harðfengin réttindi verkamanna eru annars vegar.
Mæli sterkt með ÞESSARI bók ef þú þekkir hana ekki fyrir, ansi augnaopnandi og skýrir margt sem hefur ekki passað í jöfnuna sem haædið er að okkur. Ætti raunar að vera skyldu lesefni í öllum betri skólum landsins.
Georg P Sveinbjörnsson, 23.8.2008 kl. 15:05
Afsakið...hér er hlekkurinn http://vald.org/falid_vald/kafli00.htm
Georg P Sveinbjörnsson, 23.8.2008 kl. 15:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.