Kvótakerfið í sjávarútveginum er ekki eitt á ferð - gleymum ekki mjólkurkvótanum!

Ég hlustaði á ádrepu Eiríks Stefánssonar á Útvarpi Sögu núna í morgun eins og oft áður og ég verð að segja að í grundvallaratriðum er ég sammála honum. Líklega myndu fleiri gefa sig fram og segja hið sama ef hann myndi pússa málflutning sinn og slípa ummæli sín um málefnaandstæðinga. En ég er sammála honum í því að kvótakerfið í sjávarútveginum sé mistök frá upphafi en það gleymist gjarnan að það er kvótakerfið í landbúnaðinum líka!  Með þessu er ég ekki að segja að ég vilji ekki vernda fiskistofna - það er annað mál. Mestu mistökin með kvótakerfum þessum voru þau að  sameina í eitt veiðiheimild (framleiðsluheimild hvað mjólkina varðar) og eignarheimild. Með þessum mistökum skapaðist fljótt fámenn stétt auðmanna, kvótaeigendur eða fjármagnseigendur sem eru nokkurs konar nútíma lénsherrar. Kvótakerfin eru því afturhvarf til lénsskipulags fyrri tíma og draga úr sjálfstæði og frumkvæði einstaklinganna og gera þá að leiguliðum. Mér verður oft hugsað til Hólmfasts Guðmundssonar sem var flengdur fyrir að selja nokkra fiska í Hafnarfirði. Hólmfastur þessi er ekki samtímamaður okkar, hann var uppi á tímum einokunarverslunarinnar.

Í sjávarútveginum var það eflaust einlægur tilgangur með kvótanum að vernda fiskistofna en í landbúnaðinum var ekki verið að vernda neitt nema rétt þeirra sem voru búnir að koma sér þægilega fyrir og byggja upp sín bú. Ýmsir í þeim hópi voru þó ekki ánægðir með þann kvóta sem þeir fengu úthlutað því um miðjan 9. áratuginn var þeim tilmælum beint til bænda að þeir drægju úr framleiðslu. Sumir fóru eftir þessum tilmælum en aðrir ekki. Síðar voru þessi ár gerð að viðmiðunarárum um hversu mikinn kvóta bændur fengju úthlutað. Nærri má geta hvílíkri óánægju þetta olli. Þeim sem höfðu sýnt stéttarvitund og dregið úr framleiðslu var þannig refsað fyrir hollustu sína.  Einnig var miðstýring stjórnvalda á kvótanum töluverð og nokkuð var um óánægju vegna þess að einhverjir fengu kvóta en aðrir ekki. Þannig var stéttarvitund og einingarhugur kúabænda í raun stórskaddaður með kvótanum auk þess sem endurnýjun í greininni varð mjög hæg og framleiðslueiningarnar stækkuðu og stækkuðu. Í dag borga neytendur og bændur óþarfan kostnaðinn af mjólkurkvótanum. Bændurnir með lágum launum og neytendur með háu afurðaverði.  Enginn stjórnmálaflokkur mér vitanlega berst fyrir afnámi mjólkurkvótans. Það gerir Framsóknarflokkurinn skiljanlega ekki því það var undir hans stjórn sem bæði þessi illræmdu kvótakerfi urðu að veruleika og var fylgt eftir af fullum þunga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Ég tek undir þetta með þér Ragnar. Það mundi skapa mikið meiri samstöðu um það sem Eiríkur er að segja, ef hann vandaði orðaforða sinn og færi einungis fínlega út á gráu svæði kurteisinnar. Margir eru svolítið hikandi við að lýsa yfir stuðningi við hans málflutning vegna óþarflega harkalegra brígslyðra.

Ég er einnig sammála þér með mjólkurkvótann. Það fyrirkomulag var mistök frá upphafi.

Eins og staðan var í sveitum landsins, þegar kvótinn var settur á, voru nægar fjárfestingar í fjósum og öðrum framleiðslubúnaði, fyrir það framleiðslumagn sem þjóðin þarfnaðist. Flutningur kvóta á milli búa var því bein ávísun á óþarfar fjárfestingar, miðað við framleiðslumagn.

Réttilega bendir þú á blekkingarnar sem viðhafðar voru í upphafi, þegar  viðmiðunarmagnið var ákveðið. Annað í þessu dæmi hefur einnig farið í taugarnar á mér, en það er það að bændur skuli ekki hafa fengið eðlilega greiðslur fyrir þá mjólk sem framleidd var, þó umfram kvóta væri, því öll þessi mjólk var seld fullu verði til neytenda.

Öll þessi vitleysa er búin að fara afar illa með marga bændur. Framhaldið á komandi tímum mun verða það að allar hinar nýju fjárfestingar í ofurfjósum og mjaltabúnaði, mun innan tíðar knýja á um verðhækkanir á mjólk. Lítil hætta er á að þau stjórnmálaöfl sem talið hafa landbúnaðarframleiðslu of dýra, muni beita sér gegn slíkum hækkunum, og þar með sanna að það var ekkert innihald eða viljaþrek að baki tali þeirra um of hátt verð á búvörum.

Stjórnmálamenn okkar virðast hugsa og lifa í afar þröngum sjóndeildarhring. 

Guðbjörn Jónsson, 17.8.2008 kl. 14:11

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Það er reyndar einn munur á kótakerfunum í landbúnaði og sjávarútvegi. Bændum er heimilt að stunda nú sína atvinnugrein, þótt þeir hafi ekki kvóta, sbr Mjólku. Hins vegar var ótrúlega ósanngjarnt að þeir sem höfðu sýnt stéttarvitund og minnkað framleiðslu var refsað fyrir það.

Ástæðan fyrir því að menn hafa ekki fari í heildarendurskoðun á landbúnaðarkerfinu er sú að menn hafa verið að bíða eftir niðurstöðu doha-viðræðnanna, ekki illmennska gagnvart bændum, sem eru sú stétt vinnandi fólks þar sem fátækt er langalgengust. Það er full ástæða til að fara í saumana á kerfinu og skoða hvað sé hægt að gera til að bæta ástandið.

Gestur Guðjónsson, 17.8.2008 kl. 14:50

3 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta er allt rétt hjá þér Gestur. Ég tel líka þörf á að endurskoða "kerfi" landbúnaðarins til aukinnar skilvirkni. Ég hefði viljað sjá þríþætta greiningu á því fjármagni sem sagt er vera kostnaður okkar við eigin landbúnað. - Ég hefði viljað sjá verðmætasköpun og kostnað bændabýla við framleiðsluna. - Ég hefði viljað sjá greiningu á kostnaði og verðmætasköpun slátrunar og vinnsluaðila. - Og ég hefði viljað sjá greiningu á því fjármagni sem fer til heildarsamtakanna, bændaskólanna, í útflutningsbætur og aðra stjórnsýsluþætti.

Tilfinnig mín hefur lengi verið sú að bændur fái óþægilega lítinn hluta af heildarpakkanum sem kenndur er við landbúnaðinn.

Guðbjörn Jónsson, 17.8.2008 kl. 16:34

4 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Þetta er allt rétt hjá þér Gestur. Ég tel líka þörf á að endurskoða "kerfi" landbúnaðarins til aukinnar skilvirkni.  Ég hefði viljað sjá þríþætta greiningu á því fjármagni sem sagt er vera kostnaður okkar við eigin landbúnað. - Ég hefði viljað sjá verðmætasköpun og kostnað bændabýla við framleiðsluna.  - Ég hefði viljað sjá  greiningu á kostnaði og verðmætasköpun  slátrunar og vinnsluaðila.  - Og ég hefði viljað sjá  greiningu á því fjármagni sem fer  til heildarsamtakanna, bændaskólanna,  í útflutningsbætur og aðra  stjórnsýsluþætti.

Tilfinnig mín hefur lengi verið sú að bændur fái óþægilega lítinn hluta af heildarpakkanum sem kenndur er við landbúnaðinn. 

Guðbjörn Jónsson, 17.8.2008 kl. 16:34

5 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitin og góðar athugasemdir Guðbjörn og Gestur.

Ég hef aldrei skilið fyllilega af hverju menn tóku ekki áhættuna og gáfu framleiðslu og dreifingu mjólkurinnar alveg frjálsa í stað þess að fara kvótaleiðina. Hugsanlega hafa menn verið með hinar dreifðu byggðir í huga og miklar vegalengdir sem fara varð til að sækja mjólk til fjarlægra býla og hafa þannig hugsanlega óttast um afkomu fjarlægari sveita. Einnig hafa menn óttast offramleiðslu og verðfall. En það er mín trú að tímabundið verðfall á mjólkurafurðum hefði verið mun útlátaminna en kvótakerfið varð. Þá þegar hefðu myndast vaxtarbroddar nýrrar framleiðslu sprottnir upp úr útsjónasemi og framtakssemi þeirra sem kunna og geta bjargað sér. Hugsanlega hefðu einhverjir sem voru nýbúnir að byggja og fengu lánað með verðtryggðum lánum sem þá voru nýtilkomin orðið illa úti. Þannig mætti halda lengi áfram að velta fyrir sér ástæðum kvótakerfisins. Ég hugsa oft um þetta en hef aldrei komist að þeirri niðurstöðu að kvótakerfið hafi bjargað nokkrum hlut í landbúnaðinum þegar á heildina er litið. Þegar horft er á stöðnun síðustu áratuga í nýliðun og framþróun mjólkurframleiðslunnar, sem og söfnun framleiðslu- og eignarheimilda á fárra hendur þá er erfitt að ímynda sér að erfiðleikar á 8. og 9. áratugnum hefðu mögulega getað valdið meira tjóni en því sem skömmtunarkerfi mjólkurkvótans hefur valdið.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 17.8.2008 kl. 19:08

6 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Sæll Ragnar.  Alveg sammála þér. Held að kvótakerfið í landbúnaði sé misheppnað. Það voru þó ákveðin rök í sjávarútveginum, þ.e. með einhverjum hætti varð að stjórna sókn í þessa takmörkuðu auðlind. Þessi rök eru ekki til staðar varðandi landbúnað. Landbúnaðurinn er að breytast mikið. Stórbændur fjármagnaðir af bönkum og fyrirtæki í eigu fjárfesta eiga sífellt stærri hluta kúabúa. Mér finnst reyndar furðulegt að það skuli ekki vera fjallað um það opinberlega að bankar (óbeint) og auðmenn á höfuðborgarsvæðinu séu í hverjum mánuði að fá tugi eða hundruði milljóna í framlög frá ríkinu í formi beingreiðslna.

Þorsteinn Sverrisson, 21.8.2008 kl. 19:43

7 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Þorsteinn og takk fyrir innlitið. Það þarf engan að undra þó opinber umfjöllun um kvótakerfin sé á lágu nótunum því um þau ríkir þegjandi pólitískt samkomulag. Það er einfaldlega orðið allt of mikið í húfi til að leggja þau niður eða hrófla við þeim svo neinu nemi. Það að komast út úr þeim tekur trúlega alveg jafn langan tíma og það tók að koma þeim á, ég giska á einn áratug til tvo. Hvort sú stefna verður farin er svo spurning um pólitískt þor. Lénsskipulag kvótans festir sig æ meira í sessi eftir því sem tíminn líður. Öflugasti fjölmiðillinn, þ.e. RÚV - Sjónvarp er í eigu stjórnvalda og aðrir fjölmiðlar hafa ekki hjólað í kvótann nema Eiríkur Stefánsson hefur fengið að segja sína skoðun á Útvarpi Sögu. Mér sýnist að það muni lítið gerast í pólitískri vakningu á Íslandi þangað til við eignumst marga frjálsa fjölmiðla sem allir sitja við sama borð hvað fjárveitingar frá ríkinu varðar.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 21.8.2008 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband