Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt

í nýlegum niðurskurðaráætlunum RÚV sést glöggt að RÚV er í kjarnann það sem það hefur alltaf verið og heitið: Útvarp Reykjavík. Ekki er nóg með að nú sé skorið niður á svæðisstöðvunum fyrir vestan, norðan og austan. Hér fyrir sunnan er engin stöð til að loka eða skera niður hjá. Ríkisútvarpið hefur af skiljanlegum ástæðum sinnt nágrenni sínu mest og best í menningarlegu tilliti. Þetta þarf að breytast og það getur breyst því forsendur ljósvakamiðla eru allar aðrar  en þær voru árið 1930 en í grunninn er hugmyndafræðin á bakvið RÚV enn sú sama og þá. Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar mun ekki nást nema landsbyggðin eignist sína eigin fjölmiðla og menningarlegt sjálfstæði er forsenda fyrir öðru sjálfstæði. Þeir sem styðja áframhaldandi stjórnlausan vöxt borgarinnar á suðvesturhorninu geta haldið áfram að styðja RÚV. Þeir sem eru á annarri skoðun ættu að fara fram á það að þeir peningar sem núna renna til RÚV renni til fjölmiðla sem staðsettir eru í þeirra eigin nágrenni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Björnsson

Þetta er vissulega mikið umhugsunarefni. Í svipinn finnst mér Gestur Einar og Margrét Blöndal vera helstu útvarpsmennirnir í dag, enda ekki aðeins þekktir Akureyringar, heldur einfaldlega fólk með tilfinningu fyrir sálinni í þessu landi. Allt of mikið af fólki sem lætur heyrast að það hugsar ekki út fyrir 101.

Kristján Björnsson, 12.7.2008 kl. 12:20

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Kristján. Já RÚV býr við mikinn mannauð og þannig hefur það verið í gegnum árin. Þangað hefur laðast mikið af hæfileikafólki. En nú er svo komið að fleiri þurfa að fá tækifæri heldur en RÚV getur veitt. Ungt fólk úti á landi ætti að fá tækifæri til að njóta eigin menningar á heimaslóðum ef það svo kýs. Ég hugsa að samband óháðra útvarpsstöðva sem þiggja styrki frá hinu opinbera gæti verið farsæl lausn. Þannig myndi efni sem styrkt væri fara í sameiginlegan efnisbanka sem allir gætu sótt í ef þeir svo kysu. Slíkt fyrirkomulag myndi líka skapa óháðum útvarps- og sjónvarpsstöðvum nýjan og öruggari rekstrargrundvöll.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 13.7.2008 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband