Miðvikudagur, 9.7.2008
Hvar eru hrafnarnir á Selfossi?
Mér var nýlega bent á af manni* sem hefur gaman af að fylgjast með hröfnum að hann hefði ekki séð neina hrafna á Selfossi eftir jarðskjálftana. Eru einhverjir Selfyssingar sem lesa þessar línur sem hafa séð hrafna á Selfossi eftir 29. maí síðastliðinn? Eins og menn vita þá hefur hingað til verið talsvert af hröfnum á Selfossi. Þeir halda trúlega til í fjallinu og fljúga niður í byggðina í leit að æti. Oft eru þeir á sveimi yfir háum húsum á svæðinu svo sem Selfosskirkju, húsi Fjölbrautaskólans og Hótelinu en núna er eins og himininn hafi gleypt þá.
--
* Hann heitir Brynjólfur Guðmundsson og var áður bóndi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi).
Meginflokkur: Umhverfismál | Aukaflokkar: Dægurmál, Vísindi og fræði, Þjóðtrúin | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll; Ragnar, og þakka þér allt gamalt og gott !
Jú; þegar þú nefnir það. Var; fyrir skömmu (næst liðinni viku), á einni ferða minna, um Vesturland, og varð ekki var hrafna, fyrr en vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Og er nú Vesturland jarðskjálftafrítt svæði, utan Ásbjarnarstaða mælingastöðvarinnar, hvar mælingar hófust, í Ágúst 1994, í gamla Stafholtstungnahreppi. Hverfandi virkni þar, þó.
Verð; að taka undir með þér, frekar einkennileg hegðun krumma, þetta sumarið, það sem af er.
Með beztu kveðjum, sem jafnan / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 10:49
Er þetta bara ekki"skynsöm"skepna, sem er búinn að fá nóg af þessu allavega í bili?
Eiríkur Harðarson, 9.7.2008 kl. 13:54
Heilir og sælir Óskar og Eiríkur og hafið þakkir fyrir innlitin. Já, þetta er magnað með hrafnana, þeir virðast hafa horfið héðan af svæðinu og athyglisvert að þetta skuli vera svona víðar. Getur hugsast að þeir hafi orðið það skelkaðir við skjálftana að þeir hafi yfirgefið bæði hreiður og unga og komi ekki aftur í bráð?
Gaman væri að fá fleiri sögur af hröfnum í sambandi við þessa jarðskjálfta eða aðra.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 9.7.2008 kl. 14:53
Athyglisvert Ragnar og fróðlegt heyra af þessu.
Þegar þú segir það, sennilega ekki séð hrafn hér um slóðir síðan um skjálfta. Hafði reyndar ekkert pælt í því sérstaklega. En reyndar koma þeir meira hingað á síðla sumars eftir varp og á haustin.
Kv. Valdimar G.
P.Valdimar Guðjónsson, 10.7.2008 kl. 17:40
Sæll Valdimar og takk fyrir innlitið og upplýsingarnar.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 10.7.2008 kl. 23:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.