Lækka þarf hámarkshraða á Suðurlandsvegi milli Hveragerðis og Selfoss

Því miður eru litlar líkur á að draga muni úr mikilli slysatíðni á Suðurlandsvegi á þeim köflum þar sem enn er ekki búið að skipta veginum. Vegna ástandsins í efnahagsmálum eru litlar líkur á að Suðurlandsvegur breytist mikið á næstu misserum og því horfa landsmenn sömuleiðis fram á óbreyttar líkur á slysum á þessari leið.

Krossarnir við Kögunarhól eru þögult vitni og áminning um þau sorglegu tíðindi sem verða aftur og aftur á leiðinni. Á þessari leið eru nokkrir kaflar sem eru sérlega áhættusamir. Einn þeirra er kaflinn milli Hveragerðis og Selfoss. Hann er sérmerktur sem slysasvæði enda hlykkjóttur og beygjóttur. Inn á hann liggja líka nokkrir þvervegir sem eru merktir með biðskyldumerkjum.

Það er í rauninni ótrúlegt að á þessum uþb. 10 km. vegarspotta skuli enn vera 90 km. hámarkshraði. Mannfallið á þessari leið virðist ekki hreyfa við neinum öðrum en þeim sem þurfa að syrgja ættingja sína. Sem fyrst þyrfti að lækka hámarkshraða á leiðinni niður í 80 eða jafnvel 70 og sömuleiðis þyrfti að skipta út biðskyldumerkjunum og setja stöðvunarskyldumerki í staðinn á þvervegina. Reyndar þyrfti að skipta út biðskyldumerkum og setja stöðvunarskyldumerki víðast hvar á Suðurlandsveginum og á fleiri stöðum þar sem sveitavegir liggja þvert inn á malbikaða aðalbraut með 90 km. hámarkshraða.

Nú kunna menn að andmæla þessari skoðun með þeim rökum í fyrsta lagi að það sé þjóðhagslega óhagkvæmt að lækka hámarkshraða. Spurning hvort menn hafa tekið háar slysalíkur og tjón sem orsakast af mannfalli með í þann reikning? Bæði er umhverfisvænt að aka á minni hraða og þjóðhagslegi reikningurinn er fljótur að jafna sig upp ef fólki fjölgar í bílum.

Í öðru lagi má reikna með þeim andmælum að fáir muni hlýða fyrirmælum um hámarkshraða. En þau rök eru ekki góð og gild í þessari umræðu. Á að afsaka lögbrot með því að löggæslan sé slæleg? Það væri hægur vandi að koma upp færanlegum löggæslumyndavélum á leiðinni sem væru færðar til með reglulegu millibili auk þess að beita hefðbundnum ráðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Algerlega sammála! Merkja rækilega, auka eftirlit, setja upp hraðamyndavélar o.s.frv. Ráðamenn þjóðarinnar hafa trassað að leggja nýjan og öruggan veg á milli Hveragerðis og Selfoss og nú á að láta þennan hættulegasta hluta Suðurlandsvegar mæta afgangi við tvöföldun vegarins milli Reykjavíkur og Selfoss. Er til of mikils ætlast að þeir bregðist við, komi þessum fínu tillögum í framkvæmd, og sýni með því að þeim standi ekki á sama? 

Kjartan Jónsson (IP-tala skráð) 25.5.2008 kl. 10:19

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og stuðninginn Kjartan. Það er varla til of mikils mælst að þeir geri þetta en því miður grunar mig að ekkert, nákvæmlega ekkert verði gert á næstu mánuðum.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 26.5.2008 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband