Mánudagur, 19.5.2008
Hinn umhverfissinnaði ökumaður
Á netinu má finna ýmis ráð fyrir umhverfissinnaða ökumenn og sjálfsagt sum hver hin ágætustu. Til dæmis það að aka ekki yfir hámarkshraða. Margir ökumenn virðast stóla á að aka á 80 þar sem 70 er hámarkshraði eða 100 þar sem 90 er hámarkið. Af hverju ætli það sé? Það er bæði mun dýrara heldur en að halda sig innan ramma laganna og svo mengar það meira. Getur verið að slæm skipulagning orsaki þetta tímaleysi og þennan hraða?
Nú hef ég heyrt það sjónarmið að tímasparnaður í umferðinni skili sér í aukinni hagsæld, en skyldi ekki góð skipulagning gera það miklu fremur? Hvað ef t.d. tveir eða þrír deila bíl saman frá Reykjavík til Akureyrar og halda sig á eða við hámarkshaða heldur en ef þrír bílar færu sömu leið og væru eins nálægt hundraðinu og Blönduóslöggan leyfði? Sparnaðurinn er strax augljós ef fleiri en einn eru í bílnum og sparnaður er nákvæmlega það sama og minni mengun.
Eitt ráðið sem ég sá var á þá leið að það ætti að létta bílinn eins og kostur er, ekki geyma hluti í bílnum til að rúnta með því öll þynging kallar á aukna eldsneytisnotkun. Einn vildi ganga svo langt að gera aldrei meira en að hálffylla tankinn til að létta bílinn en það er kannski frekar fyrir þá sem hafa tíma til að stoppa oftar á bensínstöðvum.
Meginflokkur: Umhverfismál | Aukaflokkar: Dægurmál, Samgöngur, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.