Dagar frostrósanna

Þessa dagana hafa frostrósir myndast á þeim gluggum þar sem enn er einfalt gler og upphitun lítil svo sem í ýmsum gripahúsum. Áður fyrr mynduðust frostrósir á gluggum híbýla fólksins, svo sem á gluggum baðstofanna og er slíkt enn í manna minni. Ein heimild um það er eftirfarandi ljóð eftir föður minn Brynjólf Guðmundsson sem lengi bjó á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi. Hann er fæddur og uppalinn á bænum Kolsholtshelli í Villingaholtshreppi, og bjó þar sín fyrstu búskaparár áður en hann flutti að Galtastöðum. Þar á bæ var áður gömul baðstofa með torfþaki og glugga með einföldu gleri.

Frostrós

Ég ligg lítill drengur
í gömlu baðstofunni
horfi á kvistina
í súðinni taka á sig
margskonar myndir

Fjöll tröll og álfa
ævintýraheimur
á baðstofusúðinni

Laufblað á glugga
Ég rís upp til
að taka það af
Finn aðeins kalt gler

Rétt seinna
Fullkomin frostrós
með puttafar
á einföldu gleri

Tvöfalt gler
engin frostrós

(Desember 2002)

 

Ljóðið birtist áður á vefsetrinu vina.net: http://www.vina.net/index.php/brynjolfur/2002/12/02/frostros


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Ég man eftir fallegu mynstri frostrósa á fjósgluggum og fjárhúsgluggum. Stundum teiknaði maður líka eitthvað ofan í héluna. Þetta er gott ljóð eftir hann föður þinn.

Þorsteinn Sverrisson, 30.11.2007 kl. 21:30

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Þorsteinn og takk fyrir innlitið. Já frostrósirnar geta verið fallegar og mynstrin fjölbreytt. En síðan tvöfalda glerið kom til sögunnar ásamt vel upphituðum húsum gerir það líklega að verkum að frostrósir eru ýmsum framandi, a.m.k. stórar og myndarlegar rósir eins og myndast stundum.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 1.12.2007 kl. 19:50

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég man líka eftir frostrósum á fjárgluggum með einföldu gleri austur á landi. Merkilegt, þetta virðist því hafa verið sameiginlegur reynsluheimur um allt land og hugsanlega víðar. En hvernig ætli það sé með unga fólkið í dag heldur það ekki að frostrósir sé orð yfir söngvara sem koma saman á tónleikum í desember? Njótið sunnudagsins. Mbk,  G

Gunnlaugur B Ólafsson, 9.12.2007 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband