Eddan opinberar mikla grósku í ljósvakamiðlun

Edduverðlaunin og útsendingar RÚV frá þeim sem og endursýning ættu að sýna fram á hvílík gróska er í framleiðslu íslensks ljósvakaefnis. Þar leggur margt hæfileikafólk hönd á plóginn. Verðlaunin staðfesta að í íslenskri menningu býr mikill sköpunarkraftur og hægt er að segja að framboð íslensks efnis sé fjölbreytt miðað við hve fáa sjóði kvikmyndagerðarmenn geta sótt í og þó að sumt af þessu virðist nánast gert á viljastyrknum einum.

Óskandi er að sem flestir skilji að fénu sem almenningur leggur til með hinum svokölluðu afnotagjöldum er ekki best varið með því að láta það renna til einnar stöðvar sem rekin er undir forsjá ríkisvaldsins. Líklegt er að fjöldinn og fjölbreytnin muni verða heilladrýgst í þeim efnum. Þá myndu stöðvarnar allar sitja við sama borð og njóta jafnræðis. Nú kann einhver að segja að ríkisútvarp sé nauðsynlegt til að halda uppi öflugri stöð sem geti þjónað öllu landinu og fleiri stöðvar myndu aðeins dreifa kröftunum. Reynsla síðustu ára ætti að nægja til að flestir skilji að hið fyrra er ekki raunin. Allt frá því Stöð 2 hóf starfsemi sína með miklum glæsibrag hefur allt það starf í rauninni afsannað það að ríkið þurfi að halda úti öflugu sjónvarpi. Hvað varðar síðari rökin þá væri hægt að aðskilja safnhluta RÚV frá rekstrarhluta þess og halda safnhlutanum áfram undir umsjón ríkisins. Það efni sem hlyti ríkisstyrk myndi þá sjálfkrafa falla til í þann ljósvakabanka og allar stöðvarnar hafa jafnan aðgang að honum og rétt svo sem höfundarlög myndu heimila. Það væri líka mikið óráð að selja ljósvakabankann og þann menningararf sem í hann hefur safnast til eins aðila, það væri í rauninni menningaróhapp, líkt og gerðist þegar málverkasafn Landsbankans var selt með rekstri hans og húsum. Eins og staðan er í dag er RÚV í óheppilegri klemmu. Sem ríkisfyrirtæki geta þeir varla þegið rausnarlega styrki eða kostanir en sem einkaaðilar þurfa þeir á slíku fé að halda. Síðustu útvarpslög sem breyttu RÚV í opinbert hlutafélag hafa líklega gert stöðuna enn erfiðari en hún var fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Tæpast er hægt að andmæla því að útsending frá afhendingu þessara verðlauna sýni áhorfendum að ýmislegt hafi verið aðhafst í kvikmyndagerð á árinu. Samt finnst mér þetta alls ekki áhugavert sjónvarpsefni. Ég myndi fremur kjósa að sjónvarpið reyndi að sýna raunverulegt menningarefni en þessar endalausu verðlaunaafhendingar þar sem eitthvert fólk kemur saman til að skjalla hvert annað.

Þorsteinn Siglaugsson, 17.11.2007 kl. 23:03

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Þorsteinn. Já, ég get tekið undir að líklega hefði verið betra að stytta þetta eitthvað.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 17.11.2007 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband