RÚV - Menningarleg Maginotlína

Stjórnvöld telja greinilega að RÚV eigi að vera brjóstvörn og merkisberi íslenskrar menningar og mynda mótvægi við erlend áhrif. Hugmyndafræðin á bakvið RÚV er því eins og sú á bakvið Maginotlínuna frönsku [1]. Maginotlínan var geysilega íburðarmikið mannvirki úr stáli og steypu sem teygði sig eftir landamærum Frakklands og Þýskalands, en þegar til kom keyrðu óvinirnir framhjá henni. Í RÚV eru lagðir geysimiklir fjármunir sem betur væru komnir hjá hinum ýmsu frjálsu og óháðu ljósvakamiðlum landsins. RÚV þarf sem fyrst að breyta í menningarsafn og rekstur ljósvakastöðvanna á að koma fyrir hjá einkaaðilum og gæta þess að allir ljósvakamiðlar landsins sitji við sama borð hvað varðar styrk frá ríkinu. Ef hlustendur og áhorfendur fá að velja hvert þeir láta afnotagjald sitt renna og það rennur síðan til stöðvanna í hlutfalli við framboð þeirra af íslensku efni og menningarviðburðum þá er komi það vogarafl sem menningin þarf, þ.e. sú góða menning sem trauðla fær lifað nema með opinberum styrkjum en pólitískur vilji er fyrir að lifi. Ef allar stöðvarnar gætu síðan gengið í hinn gamla menningarbrunn RÚV og jafnframt undirgengist þá kvöð að það efni sem styrkt væri yrði sett í ljósvakabankann og því nýtast öðrum þá myndi drifkraftur, frumleiki og fjölbreytni lyfta menningarlegu grettistaki. Grettistaki sem löngu er orðið tímabært að verði lyft.

Sú hugmyndafræði sem nú liggur til grundvallar RÚV er til orðin á 2. og 3. áratug síðustu aldar eða á  sama tíma og hugmyndafræði Maginotlínunnar og mikilla ríkisafskipta. Framfarir í ljósvakatækni og þróun á viðhorfum til ríkisafskipta hafa tekið miklum breytingum á þessum tíma. Maginotlínan liggur nú niðurgrafin á landamærum Frakklands og Þýskalands engum til gagns, en RÚV gengur enn sem fyrr á 70-80 ára gömlum riðandi brauðfótum og framhjá því og gegnum það streymir erlent efni í stríðum straumum. Ótrúlegt að stöðin skuli enn þann dag í dag sýna ótalsett erlent efni og bjóða áhorfendum upp á íslenskan texta. Bíómyndasýningum á vegum hins opinbera ætti að hætta alfarið sem allra fyrst. Meira um það síðar.

Sú viðhorf sem ég hef sett hér fram kunna að virðast vera í anda frjálshyggju, en ég tel þessi viðhorf samt ekki vera frjálshyggjuviðhorf að öðru leyti en því að þau hafna forræði, og sér í lagi forræði á menningarsviðinu. Fjölbreytnin og sá sköpunarkraftur sem leysist úr læðingi þegar fjöldinn fær að njóta sín getur einn orðið til að fleyta íslenskri menningu framhjá menningarlegum brotsjóum og áföllum. Athugið að hér er ekki verið að gagnrýna starfsfólk RÚV sem vinnur gott starf heldur starfsramma þann og lagaramma sem löggjafarvaldið felur stofnuninni. Það er hið pólitíska vald sem ég kalla til ábyrgðar á RÚV og mistökum þess en ekki starfsfólk stofnunarinnar sem ég lít frekar á sem sérlega þolendur þessa úrelta menningarframtaks.

[1] http://en.wikipedia.org/wiki/Maginot_Line


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband