Snjallsímar, lestur og skólamál: Erum við að deila um keisarans skegg?

Umræðan um skólamálin hefur verið áberandi undanfarið. Við sjáum annars vegar rök þeirra sem vilja samræmd próf, hins vegar þeirra sem vilja fylgja nýrri leið Matsferilsins. Talsmenn prófanna tala um samanburð, ábyrgð og mælanleika. Talsmenn Matsferilsins tala um heildarsýn, fjölbreytni og stuðning við hvern nemanda. Í grunninn snýst spurningin um hvort við viljum skólakerfi sem virkar eins og skilvinda eða skólakerfi sem leitar að hæfileikum og styður við þá. En erum við kannski að horfa á afleiðingar fremur en orsakir?

Skýr markmið og sýnileg framvinda
Eitt sem hefur ekki verið áberandi er umræða um skýra markmiðasetningu í námskrám og útfærslu hennar í námi. Í grunnskólum er oft talað almennt um hæfniþætti og markmið, en þau eru sjaldnast útfærð þannig að nemandi og foreldrar geti fylgst með framvindunni í rauntíma. Það ætti þó að vera hægt.

Í framhaldsskólunum voru fyrir um aldarfjórðungi tekin upp rafræn kerfi eins og Angel og WebCt, sem gerðu kennurum kleift að setja upp námsáætlanir, verkefni og mælingar þannig að bæði nemendur og foreldrar sáu hvar þeir stóðu. Þannig var hægt að fylgjast með framförum, sjá hverju væri lokið og hvert stefndi næst.

Af hverju hefur þetta ekki enn verið gert miðlægt fyrir íslenska grunnskóla? Tæknin er til staðar, og reynsla er komin af notkun kerfa sem veita gegnsæi og stuðning. Slík kerfi gætu orðið mikilvæg brú milli kennara, nemenda og foreldra – og gætu jafnvel minnkað ágreining um mæliaðferðir. Þegar framvindan er sýnileg frá fyrsta degi, verður minna svigrúm fyrir óvissu og meira svigrúm fyrir raunverulegan stuðning.

Samfélagsbreyting sem hvorki skólinn né foreldrar ráða við að óbreyttu
Börn í dag alast upp í öðru og mikið breyttu menningarumhverfi en við sem komin erum á fullorðinsár þekktum. Frá leikskólaaldri eru þau umlukin skjám. Snjallsíminn, spjaldtölvan og sjónvarpið eru stöðugt til staðar. Áhrifin eru djúpstæð: skjárinn býður upp á skjóta umbun, en bókin krefst þolinmæði, hægðar og dýpri einbeitingar. Málefnið er því ekki aðeins spurning um mælitæki í skólum, heldur menningu sem mótar börnin áður en þau taka próf, áður en við tölum um Matsferil eða samræmd próf.

Hvað segja niðurstöðurnar?
OECD bendir á að mikill skjátími tengist minni lestrarfærni og minni vellíðan. Íslenskar rannsóknir sýna að símanotkun í skóla tengist minnkandi lestraráhuga. Og tölurnar úr PISA-prófum tala sínu máli: íslenskir nemendur eru í niðursveiflu, og Ísland er komið langt undir OECD meðaltal. Við getum því deilt um matsaðferðina – en ef börnin lesa síður, einbeita sér síður og eyða tíma sínum í snjalltækjum, þá verður árangurinn alltaf slakur, sama hvaða mælitæki við notum.

Þroskastigin og tólf ára aldurinn
Það er ekki tilviljun að fræðimenn draga mörk nálægt 12 ára aldri. Samkvæmt Jean Piaget stígur barnið þá inn á stig formlegra aðgerða. Þá lærir það að hugsa í tilgátum, draga ályktanir og mynda sér sjálfstæðar skoðanir. Fram að þeim aldri býr barnið fyrst og fremst á stigi hlutbundinna aðgerða, þar sem það vinnur með það sem er sýnilegt og áþreifanlegt, og er því opnara fyrir vana og mynstrum sem aðrir setja því.

Þetta getur skýrt hvers vegna glugginn fram að tólf ára aldri er svo dýrmætur. Áður en barnið hefur náð hæfni til að hugsa kerfisbundið og móta eigin val er það opið fyrir leiðsögn, venjum og lífsháttum sem fullorðnir miðla. Ef við nýtum þann tíma til að byggja upp lestrarvenjur og einbeitingu, þá fylgir það barninu áfram. Ef ekki, þá er hættan sú að snjalltækin, með öllum sínum skjótu umbunum, fylli tómarúmið þegar sjálfstæð hugsun tekur við.

Er hefðbundinn lestur enn jafn dýrmætur?
Sumir spyrja hvort lestur sé enn jafn mikilvægur og áður, þegar börn eyða stórum hluta dagsins í skjám og samfélagsmiðlum. Svarið er já – en samhengi hans hefur breyst.

Lestur er áfram grunnur alls bóknáms. Án hæfni til að lesa lengri texta, halda utan um rök og draga ályktanir verður engin dýpt í námi. Hann er líka hornsteinn lýðræðisins: aðeins sá sem getur lesið og skilið getur tekið upplýstar ákvarðanir, hvort sem það er í samfélagsumræðu, stjórnmálum eða eigin lífi.

En á meðan lestur var áður sjálfgefinn miðill keppir hann nú við skjáinn, þar sem textarnir eru brotakenndir og stuttir. Við lesum kannski meira en áður í magni – skilaboð, fyrirsagnir, tilkynningar – en minna í dýpt. Það sem stendur undir nafni lestrar er ekki magn orða sem við rennum augunum yfir, heldur hæfnin til að takast á við flóknar hugmyndir og nýjan orðaforða. Sú hæfni krefst þolinmæði sem óhófleg eða röng notkun skjásins venur okkur frá.

Þar að auki hefur bæst við nýtt gildi: upplýsingalæsi. Við lifum í heimi þar sem textaflóðið er gífurlegt og rangfærslur blandast við staðreyndir. Að lesa felur ekki aðeins í sér að skilja merkingu heldur að greina á milli hins áreiðanlega og blekkjandi. Í þessu samhengi er lestur jafnvel dýrmætari en nokkru sinni fyrr – því hann er eina vopnið sem við höfum gegn yfirborðskenndum og villandi upplýsingum.

Ekki er allt neikvætt við tæknina
Það er þó mikilvægt að hafa í huga að snjalltæki og tölvur eru ekki sjálfkrafa óvinir námsins. Þvert á móti getur markviss notkun þeirra veitt börnum dýrmæta færni. OECD bendir á að stafrænir hæfileikar séu lykill að framtíðarstörfum – að kunna að leita upplýsinga, vinna úr gögnum, skrifa, forrita eða nýta skapandi forrit.

Það er líka mikill munur á því hvernig börn nota tækin. Margir leikir eru aðeins skemmtun og umbun, en aðrir þjálfa samvinnu, rýmdarskyn og jafnvel tungumál. Og þegar börn nota tölvuna til að skapa – teikna, semja tónlist, klippa myndbönd eða forrita – eru þau að byggja upp sköpunarkraft og lausnamiðaða hugsun sem nýtist þeim í framtíðinni.

Vandinn liggur ekki í tækjunum sjálfum heldur í jafnvæginu. Of mikil skjáafþreying dregur úr lestri og einbeitingu, en hófleg og markviss notkun getur styrkt nám og færni. Spurningin er því ekki hvort börn eigi að vera í tölvu – heldur hvernig.

Á að hefja lestrarkennslu í leikskóla?
Kannski er spurningin sem blasir við okkur ekki aðeins hvernig við mælum árangur barna í grunnskóla – heldur hvenær við leggjum grunninn. Ef lestur er hornsteinn alls náms og jafnvel enn mikilvægari í upplýsingaóreiðu nútímans, hvers vegna ætti hann að bíða þar til barn er sex ára?

Sumir óttast að of snemmbær kennsla slökkvi áhuga og auki þrýsting á börn sem þurfa fyrst og fremst leik og öryggi. En það þarf ekki að vera þannig. Lestrarkennsla á leikskólaaldri getur verið leikræn og gleðileg: sögur, söngvar, orðaleikir og bókstafir sem koma inn í leikinn.  Við stöndum því frammi fyrir valkostum: viljum við halda fast í að lestrarkennsla hefjist formlega við sex ára aldur – eða viljum við skapa umhverfi í leikskólum þar sem börn renna inn í lestur á náttúrulegan hátt? Kannski er það einmitt lykillinn: að byrja fyrr, en með leik og gleði, svo að lesturinn verði ekki kvöð heldur sjálfsagður hluti af bernskunni?

Niðurstaða
Við getum deilt endalaust um hvort prófin eigi að vera samræmd eða matsferill, en sú deila breytir litlu ef samfélagið í heild sinnir ekki rót vandans. Spurningin er ekki bara: hvernig mælum við námsárangur? Hún er líka: hvernig bregðumst við við þeirri menningarbreytingu sem hefur gert lestur og djúpa einbeitingu að veikara afli en nokkru sinni fyrr?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband