Húsnæðisskorturinn er að þróast yfir í neyðarástand

Í mörg ár hefur verið rætt um húsnæðisskort sem markaðsvanda. Lausnirnar hafa snúist um að hvetja til uppbyggingar, lækka vexti og aðlaga lánaskilyrði. En þegar staðan er orðin sú að fjöldi fólks býr við aðstæður sem ekki standast lágmarkskröfur þá er ekki lengur verið að fást við markaðsvanda heldur samfélagslegt neyðarástand.

Áætlað hefur verið að allt að 4.500-5.000 íbúðir vanti á hverju ári fram til ársins 2050. Greining HMS sýnir jafnframt að allt að 80% einstaklinga stæðust ekki greiðslumat fyrir nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu með lágmarks eigið fé. Því er ljóst að ekki dugar einfaldlega að byggja — það þarf að spyrja: Fyrir hvern er verið að byggja? 

Þegar sumarhús, hesthús og ferðavagnar verða heimili
Vandinn birtist ekki lengur bara í tölum og spám. Hann er orðin sýnilegur. Fólk býr í sumarhúsum, ferðavögnum, iðnaðarhúsnæði, hesthúsum og herbergjahótelum. Þetta eru búsetuform sem bjóða ekki upp á nægilegt öryggi — og alls ekki lögheimilisskráningu. Án lögheimilis er erfitt að fá fulla þjónustu frá hinu opinbera. Fólk verður ósýnilegt í kerfinu og getur t.d. ekki sótt um húsaleigubætur. 

Ekki hægt að treysta á markaðinn einan
Markaðurinn byggir þar sem mest selst og hagnaður er mestur — en staðreyndin er samt sú að  þrátt fyrir húsnæðisáætlanir sveitarfélaga er illmögulegt fyrir einstæða foreldra með lágar tekjur, öryrkja, ungt fólk sem stendur á þröskuldi sjálfstæðs lífs, eða aldraða sem þurfa að minnka við sig að finna húsnæði á viðráðanlegu verði. Fyrri borgarstjóri Reykjavíkur virtist ekki gera sér grein fyrir vandanum þegar hann lét svo ummælt um hjólhýsabyggðina á Sævarhöfða að hann teldi að frekar ætti að mæta lágtekjuhópum með sérstökum úrræðum og benti þeim á að fara annað. Í þessum orðum opinberaðist óskiljanleg blinda gagnvart stöðu þessa fólks eins og hún er og ástandinu almennt. Eru fleiri sveitarstjórnarmenn kannski slegnir sömu blindu?

Neyðin kallar á samstillt átak þar sem ríki og sveitarfélög leggja sitt af mörkum, ekki bara með fjármagni heldur með skipulagi, einföldun regluverks og skýrri forgangsröðun. Það þarf að fjölga tímabundnum neyðarúrræðum, hugsanlega byggja upp gámalausnir eða smáhýsi. Slík úrræði þurfa ekki að vera dýr.

Húsnæðisöryggi er ekki munaður — það er mannréttindi
Við bregðumst hratt við þegar hamfarir valda skemmdum á heimilum. Þá reynum við að finna fé, og leitum lausna með samvinnu. En húsnæðisskorturinn sem nú stendur yfir veldur ekki minna tjóni á lífi fólks — hann gerist bara hægar og hljóðlega. Og hann bitnar á þeim sem minnst mega sín.

Húsnæðisöryggi ætti að vera grunnforsenda í hverju velferðarsamfélagi. Því miður er það nú orðið að forréttindum. Því hljótum við að spyrja: hvenær verður gripið inn í af alvöru? Hvenær verður viðurkennt að hér er ekki bara skortur — heldur neyðarástand?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

*Lausnirnar hafa snúist um að hvetja til uppbyggingar, lækka vexti og aðlaga lánaskilyrði. 

- Á sama tíma hefur ríkið gagngert hækkað skatta (bætt við gjöldum) á húsunæði og sett allskyns kröfur sem markaðurinn bað aldrei um.

*Markaðurinn byggir þar sem mest selst og hagnaður er mestur — en staðreyndin er samt sú að þrátt fyrir húsnæðisáætlanir sveitarfélaga er illmögulegt fyrir einstæða foreldra með lágar tekjur, [...], eða aldraða sem þurfa að minnka við sig að finna húsnæði á viðráðanlegu verði.

- Þrátt fyrir?  Nei, vegna.

Markaðurinn er ekki frjáls, það er verið að míkrómanagera honum.

*Neyðin kallar á samstillt átak þar sem ríki og sveitarfélög leggja sitt af mörkum, ekki bara með fjármagni heldur með skipulagi, einföldun regluverks og skýrri forgangsröðun.

- afreglun og niðurfelling gjalda myndi redda þessu fljótt. Gjöld eru jú helmingur verðsins, að minnsta kosti.

Það er ekki eðlilegt að þurfa að dunda sér við pappírsvinnu í ár, og punga út lágmark 6 milljónum *áður en* hægt er að byrja að byggja.

* Því hljótum við að spyrja: hvenær verður gripið inn í af alvöru? 

- Það er verið að grípa inní: það er enn verið að bæta við gjöldum og auka reglugerðum.

Þú munt eiga ekkert, og þú munt vera glaður, eins og þeir  segja.

Ásgrímur Hartmannsson, 19.8.2025 kl. 12:23

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir gagnlega og ítarlega athugasemd, Ásgrímur. Ég tek undir að gjöld og regluverk geta sannarlega hækkað byggingarkostnað og þannig orðið raunverulegur þröskuldur fyrir fólk sem vill byggja eða kaupa húsnæði. Þetta á sérstaklega við þegar gjöld eru há, reglur flóknar og leyfisferli teygist yfir langan tíma.

Hins vegar eru þessi gjöld ekki sett til að hagnast á fólki, heldur til að standa undir kostnaði sem hlýtur að lenda einhvers staðar. Gatnagerð, holræsi, lagnir og tengingar eru dýrar, og sveitarfélög þurfa jafnframt að reka embætti byggingarfulltrúa og önnur tengd störf. Ef þessi kostnaður væri ekki fjármagnaður með tengi- og gatnagerðargjöldum, færi hann einfaldlega yfir á aðra íbúa í gegnum hærri skattlagningu. Það er því ekki fráleitt að reyna að halda kerfinu sjálfbæru í þessum skilningi.

Það sama er ekki hægt að segja um fasteignagjöld. Hækkun þeirra á undanförnum árum stafar ekki síst af mikilli hækkun fasteignamats, sem endurspeglar þróun á húsnæðismarkaði. Í mörgum tilvikum hefur álagningarprósentan haldist óbreytt. Það má að mínu mati vel skoða hvort sum sveitarfélög hefðu átt að bregðast við með tímabundinni lækkun prósentunnar, eða með stuðningi við tekjulægri hópa. Það er rétt að íhuga þessi mál í ljósi félagslegs réttlætis.

En varðandi húsnæðisáætlanir, þar erum við ekki sammála. Ég tel þær ekki vera takmarkandi heldur nauðsynlegar. Þær snúast ekki um að stjórna markaðnum, heldur að greina þörfina og tryggja að uppbygging miði að því að sem flestir, ekki aðeins hæstbjóðendur, geti búið við viðeigandi húsnæði. Þær eru tilraun til að skipuleggja byggð og þjónustu í takt við mannfjöldaþróun og samfélagsþarfir.

Við eigum að leita leiða til að einfalda kerfið og lækka kostnað þar sem hægt er, en um leið verðum við að spyrja hvernig við tryggjum að húsnæði verði raunverulega aðgengilegt fyrir alla. Þar þarf jafnvægi, ekki aðeins á milli markaðar og hins opinbera, heldur líka á milli hagkvæmni og félagslegs réttlætis.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 19.8.2025 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband