Kína tekur stórt stökk fram á við í stafrænu útvarpi

Á meðan ágúst er friðsæll sumarleyfismánuður víða um heim, hefur hann verið ákaflega viðburðaríkur hjá DRM-samtökunum (Digital Radio Mondiale). Stærstu tíðindin koma frá Kína: þann 1. ágúst 2025 tilkynnti kínverska útvarps- og sjónvarpsstofnunin (NRTA) að DRM staðallinn hafi verið formlega samþykktur sem landsstaðall fyrir stafrænt útvarp.

Þetta þýðir að innlend AM-útsending í Kína mun byggjast á opnum, alþjóðlegum DRM staðli, sem býður upp á hljómgæði sambærileg við FM, auk margvíslegra þjónustumöguleika s.s. neyðarboð.  

Hið sama má segja um Indónesíu, ríki með um 17 þúsund eyjar og yfir 270 milljónir íbúa, þar sem DRM er nú í öruggri innleiðingu. Þar sést vel hvernig tæknin getur tengt saman ólík svæði og tryggt sterka og skýra útsendingu, jafnvel þar sem net- og farsímasamband er takmarkað. Á Indlandi hefur DRM þegar breytt útvarpinu – þar er kerfið víða innbyggt í nýja bíla, sem gerir hlustendum kleift að njóta bæði tónlistar og upplýsinga í góðum hljómgæðum og stöðugum móttökuskilyrðum.

Þróunin í þessum löndum sýnir að tæknin er tilbúin, staðlarnir eru opnir og kostirnir augljósir. Þetta kallar á að víðar verði mótuð heildstæð pólitísk stefna um stafrænt útvarp, þar sem tekið er mið af bæði tækniþróun og samfélagsþörfum. Slík stefnumótun gæti tryggt að útvarpsmiðillinn haldi áfram að þjóna landsmönnum með öryggi um ókomin ár og með minni tilkostnaði og meira öryggi en FM kerfið í bland við Internet útvarp sem er það sem RÚV mælir með hérlendis, sjá: https://www.ruv.is/um-ruv/dreifikerfi-ruv. Raunar er það illskiljanlegt að RÚV ohf. sé eftirlátið að móta stefnu í þessu máli sem á frekar heima við ríkisstjórnarborðið eða hjá þjóðaröryggisráði. 

Í Karíbahafinu verður DRM kynnt á ársþingi Caribbean Broadcasting Union í Barbados nú í ágúst, þar sem m.a. verður fjallað um hvernig tæknin getur nýst til fjarkennslu og miðlunar fræðsluefnis til fámennra eða afskekktra samfélaga.

Fram undan eru einnig kynningar í Amsterdam í september, þar sem þemað „Your Connected Future“ leggur áherslu á hlutverk stafræns útvarps í framtíð miðlunar. Þar verður hægt að sjá nýjustu búnaðargerðir, hugbúnað og lausnir sem gera DRM enn aðgengilegra.

DRM hefur einnig fengið nýja athygli í Brasilíu, þar sem útvarpstæknifræðingurinn Ricardo Gurgel hefur skrifað röð greina um hvernig landið gæti nýtt staðalinn á AM og FM-tíðnissviðunum.

Byggt á ágúst fréttabréfi DRM: https://www.drm.org/drm-newsletter-august-2025/
Fleiri pistlar um DRM:
Er neyðarútvarpið okkar tilbúið?
Hagkvæmari og öruggari framtíð í útvarpssendingum
Langbylgjan þagnar
Yfirburðir Digital Radio Mondiale (DRM) yfir hefðbundið FM-útvarp
Langbylgjan er án hliðstæðu

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband