Þriðjudagur, 27.5.2025
Frá ættbálkarétti til heimsmyndar: Hugarfarsbreyting í Evrópu
Við upphaf miðalda, þegar síðustu leifar Vestur-rómverska ríkisins voru að falla, hurfu ekki aðeins hersveitir og hallir heldur einnig lög. Rómarrétturinn, sem hafði í margar aldir veitt keisurum og embættismönnum sameiginlegt tungumál laga, var orðinn brotakenndur. Þar sem áður ríkti reglubundið kerfi með borgararétti, eignarrétti, samningaformi og dómsvaldi tók nú við margbrotið landslag: munnlegur réttur, hefðir ættbálka, dómþing á torgum eða í stofum höfðingja.
Það sem gerðist var í raun hrörnun hugmyndarinnar um ríki sem samfélagslega heild. Nýir konungar af germanskri ætt voru í senn stríðsherrar og forystumenn staðbundinna ættarvelda sem höfðu náð víðtækum yfirráðum. Þeir gátu ráðið, en ekki endilega réttlætt. Þeir gátu stýrt, en vissu ekki alltaf hvernig ætti að byggja upp samfélag. Í slíkum kringumstæðum stendur maður frammi fyrir einfaldri en djúpri spurningu: hvernig skapar maður heild úr sundurleitum hópum minni ættarvelda, sumra hverja með ólík, jafnvel gjörólík tungumál?
Sumir þessara höfðingja stóðu einmitt á þessum stað í eigin lífi. Þeir höfðu sigrað en vissu ekki alveg hvað átti að koma næst. Og þá kom það fyrir að þeir höfðu við hlið sér konu eiginkonu, gjarnan af öðrum uppruna. Konu sem hafði alist upp við fastari ramma, með siðferðisviðmið, læsi og hugsun sem náði út fyrir núverandi völd og vald. Hún hafði séð heim sem ekki byggðist á valdi einu, heldur á reglu og hugsun um ábyrgð og samvitund.
Og þá fór eitthvað að gerast. Ekki í hallarveislum, heldur í samtölum milli tveggja einstaklinga. Kóngurinn með vald sitt. Konan með sýn sína. Ekki í mótsögn heldur aðeins ákveðið hugarfar. Og úr því spratt stundum sameining, umbreyting. Eftir það fór ný hugsun að mótast um það hvernig ríki ætti að halda saman, ekki bara með styrk, heldur með einhvers konar sameiginlegri reisn.
Sérstakur pistill á Kirkjunetinu fjallar um tvö slík dæmi af konum sem stóðu á þessum tímamótum. Þar má sjá hvernig nærvera, menning og orð leiddi til þess að leiðtogar fóru að leita nýrrar stefnu. Ekki með hernaði heldur með samtali.
[Heilagur Ágústínus frá Kantaraborg pistill á Kirkjunetinu](https://kirkjunet.blogspot.com/2025/05/heilagur-agustinus-fra-kantaraborg.html)
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.