Þögnin eftir byltinguna – hver tók við umönnuninni?

Franska byltingin markaði djúp spor í sögu Evrópu. Hún var afleiðing langvinnrar spennu milli forréttindahópa og almennings, þar sem sífellt fleiri vildu sjá nýtt og réttlátara samfélag taka við af gömlum siðum og stofnunum. Byltingin hafði ótvírætt lýðræðislegt inntak: krafan um frelsi, jafnrétti og bræðralag átti djúpar rætur í heimspeki upplýsingarinnar og andúð á spilltu kerfi þar sem sumir lifðu við þægindi á meðan aðrir strituðu án réttar eða raddar.

En eins og oft gerist þegar kerfi hrynja hratt, myndast einnig tómarúm. Í þeirri viðleitni að endurskipuleggja samfélagið frá rótum, voru kirkjulegar stofnanir lagðar niður og trúarreglur leystar upp – meðal annars vegna þess að margar þeirra voru tengdar valdakerfum sem almenningur hafði misst traust á. Það er skiljanlegt að þjóð sem hafði lifað lengi undir þungum byrðum vildi leita að nýjum grunni. En í þessu ferli hurfu einnig ýmis samfélagsleg hlutverk sem kirkjan hafði sinnt – og þá einkum í sveitum.

Klaustur höfðu árum og jafnvel öldum saman verið miðstöðvar umhyggju og menntunar. Nunnur kenndu börnum og hjúkrunarreglur sáu um sjúka og aldraða. Þegar þessar stofnanir voru leystar upp, tók enginn strax við. Yfirvöldin sem tóku við í kjölfar byltingarinnar höfðu hvorki mannafla né skipulag til að veita sambærilega þjónustu. Í fátækari héruðum urðu því mörg börn án menntunar, margir sjúkir án umönnunar, og margar konur án athvarfs.

Napóleon Bonaparte, sem síðar tók við stjórnartaumum, gerði tilraun til að laga stöðuna. Hann leitaði sátta við páfann og heimilaði aftur opinbera trúariðkun. En hann fór ekki alla leið. Hann tryggði ríkisvaldinu yfirráð yfir kirkjunni en treysti sér ekki til að endurreisa reglulíf eða sjálfstæðar trúarstofnanir. Þannig var vissulega dregið úr skyndilegu niðurbroti reglnanna, en samfélagskerfið sjálft náði aldrei fyrri samheldni í þjónustu við almenning.

Í þessu tómarúmi reyndu einstaklingar, sem voru hvorki ráðherrar né byltingarforingjar, að bæta fyrir skortinn með eigin verkum. Í einum slíkum einstaklingi sameinaðist trú, úrræðasemi og þjónustuvilji. Hún byggði upp það sem ekki var lengur til – eitt skjól í einu, einn skóla í einu, eina manneskja í einu.

Franska byltingin lofaði nýjum manni – en gleymdi dreifbýliskonunni með tóma matarkompu og sjúkan son. Hún, sem áður gat bankað upp á í næsta klaustri eða hjá næsta presti, stóð eftir ein. Það voru ekki slagorð byltingarinnar sem héldu uppi samfélaginu í kjölfar hennar – heldur óséður kærleikur og dugnaður þeirra sem brugðust við því sem yfirvöld höfðu ekki bolmagn til að leysa.

Um eina slíka manneskju má lesa nánar hér: (https://kirkjunet.blogspot.com/2025/05/heilog-jeanne-antide-thouret.html)

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband