Þakkarorð til Morgunblaðsins – og vinsamleg spurning til RÚV

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með fréttaflutningi hér heima í kjölfar kjörs Leós XIV páfa, sem varð fyrsti páfinn frá Bandaríkjunum. Þótt flestir Íslendingar fylgist eflaust úr fjarlægð með þessum atburðum, þá snertir þetta stórt svið trúarlegra og menningarlegra tengsla í heiminum – og einnig stóran hóp fólks sem býr hér á landi.

Morgunblaðið hefur fylgt þessum atburðum eftir með virðingu og áhuga. Spurning, í fullri vinsemd, er hvort RÚV gæti gert meira úr þessum atburðum? Þar á bæ eru fluttar stuttar fréttir um kjörið sjálft, án þess að fjallað sé dýpra um bakgrunn eða viðbrögð, hvorki innanlands né utan. A.m.k. er slíkt ekki finnanlegt á vefnum ruv.is, vonandi fer ég samt með rangt mál þarna. 

Spurt er, ekki vegna þess að allir landsmenn þurfi að deila trú páfa – heldur vegna þess að fjölmiðill sem rekinn er af almannafé og ber lagalega ábyrgð á því að ná til allra landsmanna, ætti ef til vill að sýna í verki að fræðsla um trúarbrögð sé mikilvæg?  Sér í lagi á það við í sífellt fjölbreyttara samfélagi þar sem fjöldi Íslendinga tilheyrir öðrum trúarhefðum en þjóðkirkjunni – þar á meðal kaþólskri kirkju og einnig vegna þess mikla fjölda íslendinga sem dvelst langdvölum í löndum á borð við Spán og Portúgal. 

Ég þakka Morgunblaðinu fyrir að gefa rými fyrir þessar fréttir, slíkt rými er ekki sjálfsagt í dag eins og dæmin sýna. Slík umfjöllun hjálpar að halda tengingu við stærri heim, þar sem trú, menning og stjórnmál eru ekki aðskilin svið heldur fléttast saman í samtal þjóða og tíma.


mbl.is Vance og Rubio hittu Leó páfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband