Eldsvoðinn á Sævarhöfða: Brýnt að bæta aðstæður hjólhýsabúa

Eldsvoðinn sem braust út í hjólhýsabyggðinni á Sævarhöfða í fyrrinótt hefur skilið samfélagið þar eftir í áfalli. Samkvæmt frétt RÚV voru það aðstæður á svæðinu sem urðu til þess að eldurinn breiddist út. Hann kviknaði í einu hjólhýsinu, lagði yfir í húsbíl sem eyðilagðist og stórskemmdi hið þriðja. Sem betur fer björguðust íbúar, en tjón varð á eigum þeirra og tilfinningaleg áhrif atviksins eru mikil.

Atburðurinn undirstrikar nauðsyn þess að endurskoða öryggi hjólhýsabyggða og grípa til viðeigandi ráðstafana. Fyrst og fremst þarf að tryggja að nægilegt bil sé milli hjólhýsa, svo að draga megi úr líkum á að eldur breiðist út. Þétt uppröðun hjólhýsanna á Sævarhöfða gerði að verkum að eldurinn gat breiðst út með slíkum hraða.

Einnig þyrfti að taka til athugunar að koma upp jarðvegsmönum á hjólhýsasvæðum. Slíkar manir eru ekki dýrar eða flóknar í hönnun eða útfærslu og þær myndu ekki aðeins draga úr hættu á útbreiðslu elds heldur veita íbúum aukna vernd gegn veðri og bæta næði. Auk þessa þarf að vinna að því eins og kostur er að íbúar hjólhýsabyggða hafi fullnægjandi eldvarnabúnað, svo sem reyk- gas- og kolmónoxíðskynjara, eldvarnarteppi og slökkvitæki. Regluleg fræðsla um eldvarnir og neyðaráætlanir myndu einnig skipta miklu.

Að búa í hjólhýsum er raunveruleiki margra, hvort sem það er val á einfaldari lífsstíl eða neyðarlausn vegna húsnæðisskorts. Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög bera ábyrgð á því að tryggja öryggi allra íbúa, óháð búsetuformi. Hjólhýsabyggðir mega ekki fá síðri metnað í skipulagi sveitarfélaga en þann sem lagður er í að þjóna öflugum fjárfestum og framkvæmdaaðilum. 

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-01-08-slaemar-adstaedur-hafi-valdid-hve-hratt-eldurinn-breiddist-ut-432551


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband