Húsnæðisáætlanir sem gleyma fólkinu

„Það er verið að byggja rangar íbúðir. Við erum ekki að byggja fyrir íbúðamarkaðinn, við erum að byggja fyrir fjárfestingamarkaðinn,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Þarna hittir Finnbjörn naglann á höfuðið. En hvernig getur þetta gerst, þrátt fyrir að sveitarfélög séu skylduð til að gera húsnæðisáætlun?

Í reglugerð um húsnæðisáætlun segir:

„Sveitarfélög skulu gera húsnæðisáætlun til tíu ára í senn og skal hún staðfest af sveitarstjórn. Skal hún byggja á greiningum um þörf fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu með tilliti til mismunandi búsetuforma. Við greininguna skal m.a. skoða framboð og eftirspurn eftir mismunandi búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á húsnæðismarkaði. Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa, s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþarfar á almennum markaði.“

Það verður ekki fram hjá því litið að skipulagsvaldið er í höndum sveitarfélaganna. Stjórnendur þeirra hafa völd til að beita skipulagsvaldinu í þágu tekjulægri hópa. Þetta er vel framkvæmanlegt, jafnvel í landlitlum sveitarfélögum, þar sem hægt er að beina skipulagsumsóknum landeigenda í þær áttir sem henta samfélaginu best.

Hins vegar væri líklega skynsamlegt að styrkja löggjöfina á þessu sviði. Skýrari lagasetning gæti veitt sveitarstjórnarmönnum þann stuðning sem þeir þurfa hugsanlega á að halda í samskiptum við fjárfesta, sem oft hafa eigin hagsmuni í forgrunni.

 


mbl.is „Það er verið að byggja rangar íbúðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband