Fimmtudagur, 26.10.2023
Sveitarfélög ættu að vera tilbúin með neyðarúrræði fyrir veturinn
Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir önnur sveitarfélög verða að opna úrræði fyrir heimilislausa en ekki banna fólki að nýta sér neyðarskýli borgarinnar. Vísa þarf fólki frá vilji sveitarfélög ekki greiða fyrir gistingu. Sjá hér. Þetta er tilvitnun í formann velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá síðastliðnu sumri sem síðan í lok september er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Þrátt fyrir að svo virðist sem búið sé að mæta brýnustu þörf og lítið hafi heyrst að undanförnu frá hinum viðkvæma hópi heimilislauss fólks má ætla að veturinn muni hafa í för með sér áskoranir á þessu sviði fyrir sveitarfélögin og þá sérstaklega fyrir önnur sveitarfélög en borgina á höfuðborgarsvæðinu, stór sveitarfélög úti á landi og þá sérstaklega þau sem hætta er á að lokist af frá Reykjavík vegna veðurs og færðar.
Á Árborgarsvæðinu er til að mynda ekkert neyðarskýli svo aðstandendur gætu þurft að bjarga fólki í neyð inn á heimili sín eða í einhverjum tilfellum aðrir almennir borgarar þegar veglokanir eru vegna illviðra. Það er ljóst að þau sveitarfélög sem hafa fengið þessa hvatningu formanns samtaka sinna og sinna þeim ekki ætla að velta ábyrgðinni af neyðaraðstoðinni yfir á einstaklinga því í almennum hegningarlögum segir í 221. gr:
Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það 1) fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.
Ætla má að almenningur sé ekki vel undir það búinn að leggja mat á aðstæður og þurfa að velja milli þess annað hvort að stofna lífi eða heilbrigði sjálf sín í hættu eða láta farast fyrir að koma manni til hjálpar sem knýr dyra um miðja nótt í illviðri og sem virðist vera í annarlegu ástandi.
Hér þyrfti löggjafinn að skýra betur hvar ábyrgð liggur í þessum aðstæðum því staðan er sú að heimilislausir hvort sem um er að ræða fólk í vímuefnavanda eða aðrir hafa líklega ekki verið fleiri í langan tíma. Þetta ástand var til komið á síðasta ári og síðan þá hefur staðan líklega enn versnað ef marka má orð formanns SÍS sem vitnað var til að ofan.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Samfélagsmál í Árborg | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.