Laugardagur, 17.5.2014
Þar sem hamingju og mennsku er að finna
Við sem skipum lista Framsóknarflokksins í Árborg stöndum fyrir hefðbundin gildi flokksins. Frjálslynda félagshyggju, umbætur og samvinnu, manngildi ofar auðgildi. Framsókn hefur hagsmuni heildarinnar í fyrirrúmi. Stefna flokksins í orði og verki byggist á jákvæðni sem leitast við að sætta ólík sjónarmið og vinna gegn öfgum. Við viljum að duglegt fólk hafi svigrúm til athafna um leið og við tryggjum að þeir sem þarfnast aðstoðar njóti liðsinnis samfélagsins. Í okkar augum er samfélag samvinna, þar sem fólk hjálpast að um leið og það fær að njóta sín sem einstaklingar.
Við lítum svo á að helstu verðmæti lífsins sé að finna í tímanum sem fólk ver saman, á heimilum, í vinnunni, í frístundastarfi, í menningarþátttöku sem og sjálfboða- og mannúðarstarfi. Þar er hamingju og mennsku að finna en ekki í neysluhyggju.
Umhverfismál eru hagsmunamál heildarinnar. Á næstu árum þarf að ráðast í umbætur á samfélögum vestrænna þjóða til að gera þau sjálfbær og skila þeim í betra ástandi til komandi kynslóða. Í nýlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um umverfismál kemur fram að mikil neysla efnameiri jarðarbúa er að valda óafturkræfum umhverfisspjöllum. Því leggjum við áherslu á aðhald og að tryggja sjálfbærni við rekstur sveitarfélagsins. Sjálfbærni í þessu tilliti felst í því að lækka skuldir og vaxtakostnað svo hægt sé að veita öfluga þjónustu og styrkja innviði. Við hvetjum kjósendur sem deila þessari lífssýn og sjónarmiðum með okkur að veita okkur liðsstyrk með því að kjósa Framsóknarflokkinn.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 3. maður á lista Framsóknarflokksins í Svf. Árborg
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.