Föstudagur, 15.10.2010
Forvirkar rannsóknarheimildir ætti að leyfa
Í umræðu liðinna daga hefur borið á efasemdum um nauðsyn forvirkra rannsóknarheimilda. Slíkar heimildir eru nýttar t.d. þegar fylgst er með hópum sem talið er að séu að skipuleggja glæpi. Skemmst er að minnast þess að norska lögreglan kom nýverið upp um hóp sem lagði á ráðin um sprengjutilræði. Meðan á rannsókninni stóð var hópnum sem fylgst var með m.a. afhent annað duft en þeir höfðu beðið um og var nauðsynlegt til sprengjugerðarinnar. Þó þeir hefðu getað sett sprengjuna saman þá hefði hún ekki sprungið, þökk sé hinni forvirku rannsókn.
Ef lögreglan hefur ekki svona forvirkar heimildir þá má segja að samfélagið sé ekki nægilega í stakk búið til að verjast þeim sem leggja á ráðin um og skipuleggja ofbeldisglæpi og hryðjuverk. Það að sakborningur er ekki dæmdur í fangelsi nema sekt sé sönnuð byggir á varúðarreglu sem tryggir að saklausum sé ekki refsað. Þessi varúðarregla ætti að tryggja réttarstöðu manna.
Að vísu er nokkuð skammt um liðið frá uppljóstrunum um hleranir á símum stjórnmálamanna á kaldastríðsárunum og ekki er hægt að útiloka að svona hleranir verði misnotaðar gegn pólitískum andstæðingum, en það er spurning hvort sú áhætta verði ekki að skrifast á reikning þess að þurfa að byggja upp viðunandi varnir gegn ofbeldi og hryðjuverkum. Til að stemma stigu við þessu væri hægt að kveða á um innra eftirlit með starfseminni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Fasistalausnir frá Stasi eru engar lausnir....það er alltaf rætt um Hells Angels og hryðjuverkamenn í þessu sambandi...en þessar forvirku heimildir ganga miklu lengra...þessar heimildir setja alla þá sem búa á Íslandi í flokk með hryðjuverkamönnum...líka íslenska þegna. Þú þarft ekki að vera grunaður um hryðjuverk eða neitt slíkt....þú þarft ekki að vera grunaður um eitt né neitt! ÞAð eru allir hugsanlega al-qaida undir svona lögum....
Og það sem meira er, þá er verið að nota sömu afsakanirnar núna og voru notaðar til þess að stofna Stasi í gamla daga...sömu afsakanirnar og Dolli notaði...sömu afsakanirnar og heyrast enn í dag í Norður Koreu og kannski Kína...og BNA.
Og taktu eftir því hvernig þessi svona lög eru aldrei notuð á sjálfa valdhafana í viðkomandi löndum...bara almúgan. Hvort er nú meiri ástæða til þess að setja forvirkar heimildir á Ríkisvaldið hér, eða þá Jón og Gunnu
Þú veist alveg til hvers svona heimildir eru notaðar...og hafa alltaf verið notaðar. Þar er ekki einu sinni eins og Ríkið þurfi neinar heimildir hér...eins og þú minntist á þá er stutt síðan að hlerunardæmið var í fréttum...Lögreglan/Ríkið fer bara eftir hentugleik. Ekki þurfti heimildir á sínum tíma til þess að fara með Falon Gong eins og hryðjuverkamenn á sínum tíma...
Og já, það ER "innra eftirlit" hjá lögreglunni(Það hefur líka lengi verið til "fjármálaeftirlit" á Íslandi), þar sem Ríkislögreglustjóri og co hafa leyfi til þess að rannsaka innri mál, ef áhugi væri fyrir hendi...en það ku vera næstum vonlaust mál að kæra lögreglumenn og félaga..og jafnvel þótt innra eftirlit væri gert virkara, þá yrði að sama skapi nánast tilgangslaust að reyna að kæra lögregluna, því nánast allt yrði leyfilegt....ÞÚ ÞARFT EKKI AÐ VERA GRUNAÐUR UM NEINN GLÆP TIL ÞESS AÐ FALLA UNDIR FORVIRKU HEIMILDIRNAR.
Hverjum hefði dottið í hug fyrir ca 20 árum þegar Múrinn féll, að Vesturlandabúar færu sjálfviljugir að væla um Stasi heimildir aðeins 20 árum seinna? Hversu "öruggur" viltu verða? Þarftu ekki allan "Patriot Act" pakkan frá BNA til að verða alveg öruggur?
magus (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 00:13
Takk fyrir innlitið magus. Mér sýnist gæta heldur mikillar svartsýni í þessu innleggi hjá þér. Vissulega eru víti að varast þarna, en þau eru þekkt. Áður var ekki rammi um starfsemina sem fór fram hér og hún var því að hálfu leyti neðanjarðarstarfsemi. Það hlýtur að vera illskárra að búa til einhvern ramma um hana.
Af tvennu illu hlýtur það líka að vera skárra að láta yfirvöldin rannsaka sig á þeirra eigin kostnað en að verða drepinn af einhverjum ör- öfgahópi.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 16.10.2010 kl. 10:29
Hér er frétt úr Aftenposten um hið norska mál, sem Ragnar dregur dæmi af: http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/article3831690.ece
Þrír aðfluttir menn eru ákærðir. Þeir fengu dvalarleyfi í Noregi á grundvelli undanþáguákvæða (kvóti, fjölskyldusameining, mannúð).
Margar forvirkar rannsóknarheimildir eru nú þegar fyrir hendi á Íslandi. Þær helztu eru í lögum nr. 88 frá 2008 um meðferð sakamála.
Ef fólk greinir á um, hvað sé nógu "forvirkt", má benda á ritmálssafn hjá Orðabók Háskólans, sem á þessari stundu kannast ekki við þetta orð. Hmm.
Vingjarnleg kveðja.
Sigurður (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 15:22
Takk fyrir innlitið og upplýsingarnar Sigurður.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 16.10.2010 kl. 16:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.