Þjóðráð til sparnaðar - 3. hluti: Kalda vatnið

Nú á vordögum bárust sú tíðindi til okkar Árborgarbúa að kaldavatnsbirgðir sveitarfélagsins færu minnkandi og við vorum vinsamlegast beðin um að spara vatn.  Þessi tíðindi koma mér ekki á óvart og ég hef reynt að fara að þessum tilmælum bæjarstarfsmanna. Nútímaíslendingar eru flestir aldir upp við að hafa alltaf yfrið nóg af köldu vatni. Það hefur ekki verið selt til einkaaðila gegn mæli heldur hefur vatnsskattur verið látinn nægja.

Vatn er eitt af auðlindum jarðar og nauðsynlegt öllu lífi. Hreint vatn er fágæti og í raun munaðarvarningur. Í ösku- og rykmekki síðustu daga hafa sumir Árborgarbúar sýnt mikinn dugnað við þvotta á bílum og öðrum eigum sínum og notað til þess eitthvert besta neysluvatn sem fáanlegt er á Suðurlandi og sem kemur úr borholum við Ingólfsfjall. 

Nú hafa tíðir þvottar á öskunni sem inniheldur litlar gleragnir og virkar því í raun sem slípimassi líklega þau áhrif að yfirborð spegilgljáandi hluta verður smátt og smátt matt og missir gljáa sinn ef nuddað er yfir efnið með kústi. Hugsanlega væri betra ekki bara frá sjónarhóli vatnssparnaðar heldur líka frá sjónarhóli þeirra sem vilja gljáann mestan og bestan til lengri tíma að þvo bíla ekki af mikilli atorku eða oft núna þessa daga á meðan öskufjúkið er hvað mest. 

Frá sjónarhóli vatnssparnaðar er líka hægt að hreinsa bíla og ná góðum árangri með því að setja vatn í bala og nota það betur frekar en að láta bununa ganga allan tímann sem hreinsunin fer fram. Það sama mætti eins segja um handþvotta og uppþvott. Í þessu sambandi má minna á að vaskar eru upprunalega ætlaðir til þannig nota, þ.e. að setja tappann í, láta vatnið renna í laugina (handlaug er annað og eldra orð yfir vask) og hefja síðan þvott. Sumir tíðka það að láta vatn renna úr krana þangað til það er orðið nægilega kalt til drykkjar. Alveg eins gott og jafnvel betra er að hafa það fyrir vana að láta vatn renna í könnu og setja hana í kæliskápinn. 

Garðaúðanir eru munaður sem margir láta eftir sér af því „nóg“ er af ómældu vatninu. Ég hef ekki lausn á því hvað gæti komið í staðinn fyrir góða úðun. Hugsanlega er hægt að láta renna í garðkönnur í stað þess að láta renna daglangt og færa til úðara. Hugsanlega væri líka hægt að gera ráðstafanir til að safna rigningarvatni til þessara hluta en ólíklegt er að fólk hugleiði slíka kosti á meðan vatnið er ekki selt í lítratali. 

Nýrri klósettskálar bjóða yfirleitt upp á vatnssparnað og er sjálfsagt að huga að því að kynna þá möguleika fyrir fjölskyldumeðlimum ef þeir hafa ekki nú þegar áttað sig á þeim. Það að fara í bað (kerlaug) er líka algengur munaður en sama árangri frá sjónarhóli þrifnaðar má ná með því að fara í sturtu. Eitt sinn þegar ég var í Danmörku heyrði ég brandara um hagsýnan mann sem sparaði með því að taka óhreina leirtauið með sér í sturtuna. Þegar það verður orðinn raunveruleiki er líklega nóg að gert í vatnssparnaði. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband