Laugardagur, 5.6.2010
Besti flokkurinn hefur framtíðarsýn
Margt hefur verið skrafað og skrifað síðustu daga vegna nýlegs kosningasigurs Besta flokksins í Reykjavík og sýnist sitt hverjum. Reynt er að finna allar mögulegar skýringar á þessari skyndilegu pólitísku pólveltu höfuðborgarinnar. Menn hafa nefnt skýringar eins og óánægju vegna hrunsins og fleira í þeim dúr sem líklega er rétt, en það er jafnframt líklegt að skýringarnar séu fleiri.
Eitt er það sem Besti flokkurinn hefur og sem hefur komið fram í máli Jóns Gnarr en það er ákveðin og einföld framtíðarsýn eða lífsviðhorf. Það er sú sýn að lífið í borginni eigi að vera skemmtilegt þrátt fyrir allt mótlæti. Kjósendur virðast hafa sætt sig við það að bíða með að fá að vita hvernig Besti flokkurinn hyggst hrinda þessari sýn í framkvæmd enda vita menn að það er fátt leiðinlegra en brandari sem búið er að leka út og menn vita hvernig endar, eða spennusaga þar sem einhver hefur, óumbeðið sagt frá endinum.
Ég horfði nokkrum sinnum á Jón Gnarr í aðdraganda kosninganna þar sem þessi viðhorf komu fram. Viðmót hans var áberandi annað en hinna þrautreyndu pólitísku athesta sem bitust af mikilli fimi frammi fyrir sjónvarpsvélunum. Þeir höfðu hina tæknilegu útfærslu alveg á hreinu og orðaat þeirra snérist að lang mestu leyti um tæknilegar útfærslur hinna ýmsu málefna. Áberandi var hve líkur málflutningur þeirra var og því miður fannst mér ég ekki fá skýra mynd af því hvernig þeir vildu sjá lífið í borginni, hvorki í nútíð né framtíð.
Umræða reynsluboltanna snérist um flugvöll, leikskóla, niðurskurð, frístundaheimili, skóla eða fólk á einhverjum aldri eða sem hafði einhverja sérstaka eiginleika. Umræðan bar því miður með sér að takmarkið væri ekki ákveðin sýn eða markmið um mannlíf heldur frekar völd og áhrif.
Jón Gnarr og Besti flokkurinn kom inn í þetta umhverfi án þess að hafa að því er virðist eina einustu tæknilegu lausn og alveg án þess að vilja völd valdanna vegna. Það sem var alveg skýrt frá upphafi var þeirra sérstaka, einfalda og skýra mynd og lífssýn að fólk eigi að vera glatt og að lífið í borginni eigi að vera skemmtilegt. Þrátt fyrir að engin skýr svör fengjust um hin eða þessi tæknilegu útfærsluatriði frá Jóni þá hafði hann það sem þurfti og það sem fólk vildi fá; framtíðarsýn og lífsviðhorf. Þarna kom líka inn fólk sem hafði ekki fortíð í stjórnmálum, en fortíð í stjórnmálum í dag virðist vera frekar erfiður farangur.
Þetta lífsviðhorf og óttaleysi við að hafa ekki tæknilegar útfærslur á takteinum kristallaðist í nokkrum meitluðum svörum frá Jóni. Þegar hann var spurður hvað honum fyndist um úrslit kosninganna sagði hann að þau væru súrrealísk og þar sem hann væri ekki sérfræðingur í súrrealisma þá ætlaði hann ekki að segja mikið. Þegar spyrillinn spurði hann um hvort það að stjórna Besta flokknum yrði eins og kattasmölun sagði hann að það vissi hann ekki því hann hefði aldrei smalað köttum! Þegar hann var spurður hvort hann vissi hvað það kostaði að flytja flugvöllinn sagði hann að hann vissi það ekki því hann hefði ekki flutt flugvöll. Þegar hann var spurður að því hvort hann ætlaði að hefja viðræður við einhvern flokkanna á kosninganóttina svaraði hann því til að hann ætlaði engar ákvarðanir að taka í nótt.
Síðasta svarið fannst mér einkar skynsamlegt því líklegt er að ýmsar ákvarðanir stjórnvalda og stjórnmálamanna hin síðustu ár hafi verið teknar með hraði eða annars staðar en átti að taka þær. Kjósendur hafa treyst því að lífssýnin myndi fleyta Besta flokknum framhjá boðaföllum erfiðra ákvarðana og útfærsluatriða. Megi traust þeirra bera verðugan ávöxt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.