Miðvikudagur, 17.9.2025
Neyðarkassi þjóðarinnar: Hvar er varaleiðin í fjarskiptum?
Samkvæmt lögum nr. 98/2016 var Þjóðaröryggisráð stofnað til að fjalla um helstu ógnir sem steðja að Íslensku þjóðinni. Þar eiga stjórnvöld og sérfræðingar að koma saman, leggja mat á ógnir og gera tillögur til úrbóta. Í nýrri skýrslu ráðsins sem birt var 2024 er fjallað ítarlega um net- og upplýsingaöryggi og áfallaþol fjarskipta með dæmum úr Vestmannaeyjum og Grindavík. Áherslan er fyrst og fremst á samkeppni, 5G-uppbyggingu, gervihnattatengingar og alþjóðleg verkefni.
Það sem vantar er heildstæð umfjöllun um varaleiðir innanlands og hvernig tryggja megi neyðarútsendingar til almennings, viðkvæmar ljósleiðaralagnir sem slitna í illviðrum og útvarpsdreifikerfi sem getur dottið út á stórum svæðum þegar einn lykilsendir fellur út.
Dæmin hér heima
Við þurfum ekki að leita langt til að finna dæmi. Í desember 2024 rofnaði ljósleiðari við Skagaströnd, og sveitarstjórinn lýsti ástandinu sem almannahættuástandi. Í janúar 2025 varð Grenivík tvívegis fyrir sambandsleysi þegar stofnstrengur slitnaði við Fnjóská. Þann 31. mars sl. féllu útvarps- og sjónvarpssendingar niður í uppsveitum Árnessýslu því sendir á Langholtsfjalli lá niðri vegna rafmagnsleysis. Þetta voru einfaldlega atvik sem verða vegna náttúruafla eða viðhaldsþarfar sem sýndu hvað við stöndum á veikum grunni.
Hvar eru stjórnvöld í þessari mynd?
Samkvæmt lögum er það hlutverk Þjóðaröryggisráðs að fjalla um helstu ógnir sem steðja að þjóðinni og þar hlýtur upplýsingamiðlun til almennings að vera í fremstu röð. Samt virðist sú ábyrgð hafa að hluta til verið skilin eftir hjá RÚV.
Ríkisútvarpið rekur vissulega öflugt dreifikerfi með um 230 FM-sendum, en það gerir það fyrst og fremst sem fjölmiðill á grundvelli fjárveitinga og rekstrar, ekki sem hluti af heildrænni þjóðaröryggisáætlun. Tæknimenn RÚV hafa séð til þess að útsendingar haldist gangandi, en það er ekki hlutverk fjölmiðilsins að bera heildarábyrgð á neyðarútvarpi þjóðarinnar. Þess vegna höfum við séð ákvarðanir eins og þær að leggja niður langbylgjuna án þess að önnur úrræði væru tilbúin í staðinn. Það er ekki afleiðing af stefnumótun sem byggð er á þjóðaröryggishugsun.
RÚV gegnir og mun vonandi gegna lykilhlutverki sem fjölmiðill þjóðarinnar og sem rekstraraðili útvarpsöryggissendinga. FM-kerfið nær til allra landsmanna, en það byggir á stjörnufyrirkomulagi sem þolir illa ef ein sendimiðstöð fellur út. Útfall sendisins á Skálafelli 1. september er dæmi um slíkan veikleika. Langbylgjan, sem áður var burðarás neyðarútvarps, er horfin.
DRM, VHF og samtök radíóamatöra sem varaleiðir þegar netið bregst
Ég hef áður fjallað nánar um kosti DRM, VHF og radíóamatöra í sérstökum pistli, sjá hér og ætla ekki að fara ofan í sömu saumana aftur. En ljóst er að þessi tækni hefur þegar sannað sig í öðrum löndum og hún ætti að vera á borði þeirra sem móta þjóðaröryggisstefnu Íslands.
Forréttindablinda og ósýnileg barátta
Kannski er vandinn sá að við gerum okkur ekki grein fyrir hversu brothætt lífsgæði nútímans eru. Friður, matur, hreint vatn, rafmagn og netsamband eru orðin svo sjálfsögð í hugum okkar að við finnum þau aðeins þegar þau hverfa. En á bak við tjöldin starfa lögreglumenn, bændur, verslunarmenn, tæknimenn og fleiri stéttir á hverjum degi að því að við búum við frið, að hægt sé að kaupa mat, að við höfum ljós í stofunni, símasamband í vasanum og internet í tölvunni oft í vondum veðrum og við hættulegar aðstæður.
Almannavarnir og neyðarkassi þjóðarinnar
Almannavarnir hvetja heimili til að eiga neyðarkassa með vatni, mat, rafhlöðum og útvarpi sem gengur án nets. Það er viðurkenning á því að farsímar og internet duga ekki alltaf. En ef það á við um heimilin, hlýtur það líka að eiga við þjóðina í heild. Ísland þarf sinn eigin neyðarkassa á fjarskiptasviðinu: öruggar varaleiðir sem tryggja tilkynningaflæði frá yfirvöldum (DRM) og frá almenningi til yfirvalda (VHF) þó að fjarskiptastrengir slitni eða sendar falli út.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)