Fjarskiptaöryggi Íslands á vogarskálum – kallar á aðgerðir heima fyrir

Íslenskur smali með vhf og drm tækiSamráðshópur þingmanna hefur nú lagt fram skýrslu sem markar tímamót í íslenskum öryggismálum. Þar er í fyrsta sinn mótuð heildstæð stefna í varnarmálum fyrir herlaust ríki sem stendur nú frammi fyrir breyttum veruleika. Í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu er ljóst að viðvarandi óöryggi í Evrópu er staðreynd og að smærri ríki geta orðið fyrir óþægindum eða tjóni vegna hernaðarlegra og pólitískra aðgerða.

Ísland hefur lengi reitt sig á alþjóðlegt samstarf, einkum Atlantshafsbandalagið og varnarsamninginn við Bandaríkin. En skýrslan bendir á að til þess að landið geti verið traustur bandamaður verði það einnig að efla eigin viðbúnað, mannauð og áfallaþol. Þar kemur sérstaklega fram hve viðkvæmt fjarskiptaöryggi þjóðarinnar er.

Nær öll samskipti Íslands við umheiminn fara um örfáa sæstrengi sem liggja til Bretlands, Danmerkur, Írlands og Grænlands. Þeir eru að mestu grafnir niður við strendur, en á mesta hafdýpinu liggja þeir óvarðir á hafsbotninum. Skýrslan staðfestir að rússnesk skip hafi þegar kortlagt þessa innviði og að geta til að raska þeim – eða jafnvel klippa þá á – sé raunverulega til staðar. Ef slíkt kæmi til gæti Ísland misst stóran hluta af nettengingu sinni við umheiminn, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir efnahag, stjórnsýslu og öryggi samfélagsins.

Hve lengi þolum við rof?
Hér vaknar spurningin: hversu lengi myndi það taka að koma fjarskiptunum í samt horf? Reynslan frá öðrum löndum sýnir að viðgerð á einum sæstreng getur tekið tvær til þrjár vikur ef viðgerðarskip og varahlutir eru tiltækir. Ef tveir eða þrír strengir rofna samtímis, á miklu dýpi, gæti það jafnvel tekið mánuði að koma tengingunni í samt horf.

Á meðan væri nettenging landsins veik, með miklum töfum, skertri flutningsgetu og brotakenndri þjónustu. Lífið sem við tökum sem sjálfsagt – rafræn viðskipti, greiðslukerfi, netbankar, samskipti, jafnvel flugleiðsöguupplýsingar – myndi hægja á sér eða jafnvel lamast. Þetta er veikleiki sem krefst sérstakrar athygli og úrræða.

Varakerfi sem geta hjálpað
Í þessi ljósi vaknar sú spurning hvort hyggilegt sé að leggja allt traust fjarskipta á netsambandið.  Varakerfi sem geta staðið sjálfstætt óháð netsambandi koma sterklega til greina í þessu sambandi. Þar má nefna langdrægt stafrænt útvarp (DRM) sem getur sent neyðarboð beint til almennings, jafnvel með texta og gögnum auk hljóðs. Einnig mætti fjölga VHF-talstöðvum sem nýtast björgunarsveitum, skipum og stofnunum, einfaldur en áreiðanlegur búnaður sem hefur reynst ómetanlegur í neyð.

Radíóamatörar sem hluti af örygginu
Eitt atriði sem einnig er vert að nefna er starfsemi radíóamatöra. Þeir eru með sjálfstætt starfandi stöðvar sem geta virkað á eigin rafmagnsafli, varaafli og einföldum loftnetum. Með stuttbylgju geta þeir náð beint til útlanda, jafnvel þótt öll hefðbundin fjarskipti liggi niðri. Í mörgum löndum eru radíóamatörar hluti af viðurkenndu öryggis- og neyðarkerfi. Þeir æfa sig reglulega og eru tilbúnir að miðla upplýsingum ef hefðbundin kerfi bila.

Þannig starfar til dæmis DARES í Hollandi, sem er hluti af opinberu öryggiskerfi landsins, og RAYNET í Bretlandi, sem sinnir neyðarsamskiptum á vegum yfirvalda og hjálparsamtaka. Í Bandaríkjunum eru til stórir hópar eins og ARES og RACES sem hafa það hlutverk að styðja stjórnvöld og hjálparsamtök þegar hefðbundin fjarskipti bregðast.

Íslensk stjórnvöld gætu því íhugað að efla starfsemi radíóamatöra og virkja þá sem hluta af öryggis- og áfallaþolsstefnu. Með því yrði til ódýrt en áhrifaríkt varakerfi sem viðbót við DRM-útvarp og VHF-talstöðvar, og myndi auka getu samfélagsins til að halda úti lágmarksboðum ef netið dytti út.

Slík kerfi eru ekki hugsuð sem samkeppni við internetið heldur sem viðbót sem tekur við ef ógnir um rof á ljósleiðurum raungerast. Með því að fjárfesta í fjarskiptaöryggi og varakerfum getur Ísland stigið skref í þá átt að samfélagið standist áföll og að þjóðin verði ekki sambandslaus innbyrðis þegar mest á reynir.


Bloggfærslur 15. september 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband