Í stað þess að mótmæla – hvað með að taka þátt?

Mörg ungmenni virðast líta svo á að hefðbundin stjórnmálastarfsemi skili litlu. Þau mæta á mótmæli, tjá sig á samfélagsmiðlum og hafna flokkum sem þau telja sundurleitna og úrelta. En væri ekki tilvalið að þau fengju að kynnast starfsemi flokkanna að innan – með gagnrýnu hugarfari – í stað þess að dæma hana að utan?

Að ganga í stjórnmálaflokk?
Ísland er herlaus þjóð, án herskyldu – en samt lítum við á frið, sjálfstæði og lýðræði sem sjálfgefið og auðfengið erfðagóss. En er það tilfellið? Verður það alltaf svo án nokkurrar verklegrar þjálfunar? 

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort ekki mætti nýta félagsfræðikennslu í framhaldsskólum til að efla lýðræðisvitund enn betur en gert er og með ákveðið sjónarmið í huga. Til dæmis með því að gefa nemendum kost á að ganga tímabundið í stjórnmálaflokk – eða önnur félagasamtök sem vinna að samfélagsmálefnum – og fylgjast með starfinu í eina önn eða svo. Ekki til að verða flokksbundnir aktívistar, heldur til að kynnast málefnavinnu og innviðum lýðræðisins af eigin raun.

Slík hugmynd þarf auðvitað að byggja á skýrum forsendum. Þátttakan yrði að vera valkvæð og val nemandans sjálfs. Skólinn mætti hvorki stýra flokksvali né þrýsta á nemendur að styðja málstað sem þeim fellur ekki. En ef verkefnið væri útfært þannig að nemandi velji sér stjórnmálaflokk, félagasamtök eða hagsmunahópa sem hann vill kynnast – og taki þar virkan þátt í tiltekinn tíma með námslegri úrvinnslu að lokum – gæti það ekki orðið dýrmæt verkleg lýðræðisleg þjálfun?

Erlendis hefur þetta þegar verið reynt. Í Kanada taka 15 ára nemendur þátt í samfélagsverkefnum sem hluta af námi í ríkisborgaravitund. Í Noregi er starfsemi ungmennaráða og nemendaþinga hluti af lýðræðisfræðslu. Í Þýskalandi er „service learning“ tengt beint við námsgreinar, og í Svíþjóð fá ungmenni að prófa sig í hlutverki þingmanna í æfingum sem líkja eftir starfsháttum ríkisstofnana. Allt er þetta unnið með virðingu fyrir sjálfræði nemenda, pólitísku hlutleysi skóla og gagnrýninni hugsun.

Hér á landi búa margir unglingar yfir sterkri réttlætiskennd og vilja til að hafa áhrif á samfélagið. Þau sækja mótmæli, skrifa undir áskoranir, taka til máls á samfélagsmiðlum – en horfa jafnframt með tortryggni á stjórnmálaflokka. Ef til vill af því að þau þekkja starfsemi þeirra ekki af eigin raun og það er af sem áður var í árdaga lýðveldisins þegar heilu fjölskyldurnar tilheyrðu gjarnan ákveðinni stjórnmálahreyfingu.

Í þessu sambandi ber að nefna að sums staðar eru starfandi ungmennaráð sem veita sveitarfélögum ráðgjöf um málefni ungs fólks. Slík ráð eru mikilvægt skref í átt að lýðræðisþátttöku, en þau hafa yfirleitt eingöngu ráðgefandi hlutverk og takmarkast við sveitarstjórnarstigið. Þátttaka í þeim gefur ekki endilega innsýn í hvernig stefnumótun fer fram innan stjórnmálaflokka eða hvernig ákvarðanir eru teknar á landsvísu. Þau ná því ekki að fylla það skarð sem lýðræðislegt „þjálfunarstarf“ innan flokka eða félagasamtaka gæti gert – sérstaklega ef það er hluti af námslegu samhengi.

Í stað þess að láta sinnuleysi eða afskiptaleysi ráða för ætti ekki að bjóða þeim að kynnast þessum hreyfingum að innan? Láta þau sjá hvernig samvinna og liðsheild er byggð upp, hvernig stefnuskrár eru mótaðar á grunni málefnavinnu, hvernig kosningabarátta er háð – og hvað þarf til að hafa áhrif?

Ef við viljum að lýðræði haldi velli með friðsælum hætti, þurfum við líka að bjóða upp á virka borgaralega þjálfun. Hún getur hafist í framhaldsskóla – með því að ganga inn, en ekki burt frá lýðræðinu.


Bloggfærslur 27. júlí 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband