Laugardagur, 28.12.2024
Langbylgjan þagnar
Um nokkurra daga skeið hefur ekki heyrst nein sending frá langbylgjusendinum að Gufuskálum sem hefur sent út á 189 khz tíðni. Engin frétt þess efnis finnst á vef Rúv, þar eru allar fréttir um langbylgju ársgamlar eða eldri. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur byggt á þessari tækni frá upphafi.
Við öryggishlutverkinu eiga að taka um 230 FM sendar dreifðir víðs vegar um landið. Það fyrirkomulag hefur samt þá annmarka að ná ekki sömu dreifingu útvarpsmerkisins um okkar fjöllótta land.
Nú hefur verið rætt um að bæta meiri fjármunum í öryggismál en gert hefur verið vegna ýmissa ógna. Í þessu tilliti er ekki hægt að horfa framhjá því að langbylgjan er án hliðstæðu þegar kemur að því að dreifa öryggisboðum. Langdrægni hennar verður ekki mætt á neinn sambærilegan hátt, hvorki með FM sendum né kerfum sem byggja á netsambandi. Raunar er ofurtrú nútímans á netsambandi byggð á sandi því það sýnir sig æ ofan í æ að á meðal þess fyrsta sem fer þegar vá ber að dyrum er einmitt netsamband með öllum sínum þægilegheitum, hvort sem þau heita 4G, 5G eða GSM.
Sú leið hefur því miður ekki verið farin að uppfæra langbylgjumerkið í stafrænar útsendingar, sem eru með þeim hætti að hægt er að nýta gömlu sendana áfram en með minni orkuþörf. Sérstaklega er þetta miður því í dag er fáanlegt sérhannað kerfi fyrir langdrægni og neyðarboð á langbylgju eða miðbylgju svokallað DRM.