Færsluflokkur: Umhverfismál
Laugardagur, 5.6.2010
Þjóðráð til sparnaðar - 3. hluti: Kalda vatnið
Nú á vordögum bárust sú tíðindi til okkar Árborgarbúa að kaldavatnsbirgðir sveitarfélagsins færu minnkandi og við vorum vinsamlegast beðin um að spara vatn. Þessi tíðindi koma mér ekki á óvart og ég hef reynt að fara að þessum tilmælum bæjarstarfsmanna. Nútímaíslendingar eru flestir aldir upp við að hafa alltaf yfrið nóg af köldu vatni. Það hefur ekki verið selt til einkaaðila gegn mæli heldur hefur vatnsskattur verið látinn nægja.
Vatn er eitt af auðlindum jarðar og nauðsynlegt öllu lífi. Hreint vatn er fágæti og í raun munaðarvarningur. Í ösku- og rykmekki síðustu daga hafa sumir Árborgarbúar sýnt mikinn dugnað við þvotta á bílum og öðrum eigum sínum og notað til þess eitthvert besta neysluvatn sem fáanlegt er á Suðurlandi og sem kemur úr borholum við Ingólfsfjall.
Nú hafa tíðir þvottar á öskunni sem inniheldur litlar gleragnir og virkar því í raun sem slípimassi líklega þau áhrif að yfirborð spegilgljáandi hluta verður smátt og smátt matt og missir gljáa sinn ef nuddað er yfir efnið með kústi. Hugsanlega væri betra ekki bara frá sjónarhóli vatnssparnaðar heldur líka frá sjónarhóli þeirra sem vilja gljáann mestan og bestan til lengri tíma að þvo bíla ekki af mikilli atorku eða oft núna þessa daga á meðan öskufjúkið er hvað mest.
Frá sjónarhóli vatnssparnaðar er líka hægt að hreinsa bíla og ná góðum árangri með því að setja vatn í bala og nota það betur frekar en að láta bununa ganga allan tímann sem hreinsunin fer fram. Það sama mætti eins segja um handþvotta og uppþvott. Í þessu sambandi má minna á að vaskar eru upprunalega ætlaðir til þannig nota, þ.e. að setja tappann í, láta vatnið renna í laugina (handlaug er annað og eldra orð yfir vask) og hefja síðan þvott. Sumir tíðka það að láta vatn renna úr krana þangað til það er orðið nægilega kalt til drykkjar. Alveg eins gott og jafnvel betra er að hafa það fyrir vana að láta vatn renna í könnu og setja hana í kæliskápinn.
Garðaúðanir eru munaður sem margir láta eftir sér af því nóg er af ómældu vatninu. Ég hef ekki lausn á því hvað gæti komið í staðinn fyrir góða úðun. Hugsanlega er hægt að láta renna í garðkönnur í stað þess að láta renna daglangt og færa til úðara. Hugsanlega væri líka hægt að gera ráðstafanir til að safna rigningarvatni til þessara hluta en ólíklegt er að fólk hugleiði slíka kosti á meðan vatnið er ekki selt í lítratali.
Nýrri klósettskálar bjóða yfirleitt upp á vatnssparnað og er sjálfsagt að huga að því að kynna þá möguleika fyrir fjölskyldumeðlimum ef þeir hafa ekki nú þegar áttað sig á þeim. Það að fara í bað (kerlaug) er líka algengur munaður en sama árangri frá sjónarhóli þrifnaðar má ná með því að fara í sturtu. Eitt sinn þegar ég var í Danmörku heyrði ég brandara um hagsýnan mann sem sparaði með því að taka óhreina leirtauið með sér í sturtuna. Þegar það verður orðinn raunveruleiki er líklega nóg að gert í vatnssparnaði.
Föstudagur, 4.6.2010
Gufugleypirinn getur nýst sem lofthreinsibúnaður
Laugardagur, 1.8.2009
Þjóðráð til sparnaðar - 2. hluti: Sjónvarpið
Vinur minn einn sem fer reglulega með efni í brotajárnsgáminn sagði mér að fyrstu dagana eftir hrunið síðasta haust hefðu verið stór nýleg túpusjónvarpstæki í gáminum nánast í hvert skipti sem hann fór. Þegar leið á veturinn dró úr þessu en þessa vikuna byrjaði þetta aftur. Í gáminum voru stór og reyndar stundum lítil túpusjónvörp. Hvað veldur og hver er ávinningurinn?
Þessi athugun á ruslinu bendir því til að viðbrögð margra við kreppufréttunum hafi verið þau að endurnýja raftækin, henda túpusjónvarpinu, og kaupa flatskjá á gamla verðinu. Ótrúlegt er að öll þessi nýlegu túpusjónvörp hafi verið ónýt áður en þau lentu í ruslinu. Þessi vinur minn hirti reyndar eitt lítið tæki sem lá efst í gáminum og það var í lagi þrátt fyrir nokkrar rispur sem hafa líklega komið þegar tækið lenti í gáminum.
Hvað það er sem orsakar þessa bylgju núna er ekki gott að segja en hugsast getur að einhverjir nýti skattaafsláttinn til að koma tímabærri endurnýjun á sjónvarpstækinu í framkvæmd. En hver er ávinningurinn af því að henda túpusjónvarpi sem er í lagi og kaupa flatskjá?
Þó hugsast geti að flatskjá fylgi betri sjálfsímynd og hagkvæmari nýting á plássi þá gefa myndgæði túpusjónvarpa og viðbragðsflýtir flatskjáum lítið ef nokkuð eftir. Sumir telja þau reyndar betri. Rafmagnseyðsla gömlu túpusjónvarpanna er líka yfirleitt minni en flatskjáa, sérstaklega stóru plasma skjáanna. Hinu spánnýja, flata sjónvarpstæki fylgja því að líkindum hærri rafmagnsreikningar ef ekki er hugað að ákveðnum sparnaðarráðum. Hér koma nokkur slík tekin af netinu ásamt smá kryddi frá undirrituðum:
1. Slökkvið á sjónvarpinu þegar hætt er að horfa á það. Ekki nota Standby. Slökkvið einnig á tengdum tækjum svo sem DVD spilara eða leikjatölvu. Heppilegt getur verið að hafa fjöltengi með rofa og rjúfa strauminn inn á þessi tæki þegar búið er að slökkva á þeim. Þá er örugglega slökkt.
2. Slökkvið á Quick Start möguleika. Þessi möguleiki eykur rafmagnseyðslu ef Standby er notað.
3. Dragið úr baklýsingu LCD skjáa. Þetta dregur úr ljómun og birtu skjásins en á móti er kannski hægt að draga úr birtunni í herberginu. Mikil birta hjá sjónvarpi er óþörf hvort sem er og spillir bíótilfinningunni.
4. Ef tækið er með orkusparandi ham hafið þá stillt á hann. Nýrri flatskjáir gætu verið með þessum möguleika.
5. Ef ekki er enn búið að kaupa flatskjáinn reynið þá að komast af með eins lítinn skjá og hægt er. Hægt er að færa sjónvarpsstólana nær og ná sömu áhrifum og ef stór skjár er notaður. Við það sparast líka dýrmætir fermetrar af húsplássi.
6. Notið ekki mörg sjónvörp í sama húsi heldur reynið að sameina fjölskylduna fyrir framan eitt tæki. Barnaefni getur verið mjög skemmtilegt og yngri fjölskyldumeðlimum mun þykja þú bæði viðræðubetri og skemmtilegri ef þú getur talað við þá um uppáhalds sjónvarpsefnið þeirra.
7. Horfið minna á sjónvarp eða notið sjónvarpstímann til að vinna eitthvað í höndunum svo sem strauja, brjóta saman föt eða prjóna. Þá nýtist tíminn betur og borgar sig upp.
8. Athugið heildaráhorf ykkar og metið hvort hægt sé að segja upp áskrift sem hugsanlega er lítið notuð. Talsvert er í boði af innlendu efni í opinni dagskrá. Gervihnattabúnaður gæti borgað sig upp á einu ári ef vel er haldið um budduna og á t.d. Astra 2 hnettinum eru nokkrar erlendar stöðvar í opinni dagskrá, svo sem SkyNews, CNN að ógleymdri föndurrásinni Create and Craft.
Byggt á: http://reviews.cnet.com/green-tech/tv-power-saving-tips/?tag=greenGuideBodyColumn.0
Höfundur er áhugamaður um málefnið.
Fimmtudagur, 31.7.2008
Heklugosið 17. ágúst 1980
Dagurinn 17. ágúst 1980 var sérstakur því þann dag höfðum við nokkrir vinir ákveðið að ganga á Heklu. Við ætluðum þó ekki að fara ef veður yrði óhagstætt og því átti einn okkar að hringja í hina og setja gönguna á eða af eftir aðstæðum. Dagurinn rann upp bjartur og fagur og ég hlakkaði mikið til að fá símtalið góða því mig hafði langað til að ganga á Heklu í mörg ár. Ég hafði þá átt heima alla ævi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi) og Hekla því í sjónmáli alla daga þegar skyggni var hagstætt. En mínútur urðu að klukkustundum og fyrr en varði var komið hádegi. Ég skildi ekkert í vini mínum að slá fjallgönguna af í þessu góða veðri. En síðar kom í ljós að hann hafði sofið yfir sig. Við pabbi ákváðum því að fara í staðinn á hestamannamót sem var þennan dag á Hellu og lögðum af stað. Þegar við vorum komnir framhjá Skógsnesi stoppaði hann og sagði að Hekla væri farin að gjósa. Og viti menn gosmökkurinn steig hátt í loft og greinilegt að þetta var stórt og mikið gos. Við keyrðum upp að Heklu og skoðuðum gosið frá veginum. Ómar Ragnarsson kom á lítilli flugvél, lenti á veginum og tók svo á loft aftur. Þetta var minnisstæður dagur. Pabbi orti ljóðið Hekla í tilefni hans.
Það var ekki fyrr en síðar sem ég fór að hugsa með æ meira þakklæti til svefngleði vinar míns og er ekki viss um að ég væri til frásagnar ef hann hefði ekki sofið yfir sig. Allar götur síðan hef ég látið mér nægja að dáðst að Heklu úr fjarlægð og hef aldrei síðan ráðgert göngutúr upp á hana og ætla aldrei að fara þangað.
Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér enn einu sinni um daginn þegar Magnús Tumi jarðfræðingur sagði að gjósi Hekla á sumardegi eins og árið 1980 geti tugir manna verið á göngu á fjallinu. Hann sagði að ferðamenn hafi verið á fjallinu þegar það gos hófst og þeir hafi átt fótum fjör að launa. Alls ekki sé víst að fólk á fjallinu finni þær hreyfingar sem eru undanfari goss. Hekla sé fræg fyrir hvað eldgosin byrja snöggt. Líklega er þessi drottning íslenskra eldfjalla best og fallegust í fjarlægð.
Umhverfismál | Breytt 1.8.2008 kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 30.7.2008
Hrafnarnir komnir aftur
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Miðvikudagur, 9.7.2008
Hvar eru hrafnarnir á Selfossi?
Mér var nýlega bent á af manni* sem hefur gaman af að fylgjast með hröfnum að hann hefði ekki séð neina hrafna á Selfossi eftir jarðskjálftana. Eru einhverjir Selfyssingar sem lesa þessar línur sem hafa séð hrafna á Selfossi eftir 29. maí síðastliðinn? Eins og menn vita þá hefur hingað til verið talsvert af hröfnum á Selfossi. Þeir halda trúlega til í fjallinu og fljúga niður í byggðina í leit að æti. Oft eru þeir á sveimi yfir háum húsum á svæðinu svo sem Selfosskirkju, húsi Fjölbrautaskólans og Hótelinu en núna er eins og himininn hafi gleypt þá.
--
* Hann heitir Brynjólfur Guðmundsson og var áður bóndi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi).
Mánudagur, 19.5.2008
Hinn umhverfissinnaði ökumaður
Á netinu má finna ýmis ráð fyrir umhverfissinnaða ökumenn og sjálfsagt sum hver hin ágætustu. Til dæmis það að aka ekki yfir hámarkshraða. Margir ökumenn virðast stóla á að aka á 80 þar sem 70 er hámarkshraði eða 100 þar sem 90 er hámarkið. Af hverju ætli það sé? Það er bæði mun dýrara heldur en að halda sig innan ramma laganna og svo mengar það meira. Getur verið að slæm skipulagning orsaki þetta tímaleysi og þennan hraða?
Nú hef ég heyrt það sjónarmið að tímasparnaður í umferðinni skili sér í aukinni hagsæld, en skyldi ekki góð skipulagning gera það miklu fremur? Hvað ef t.d. tveir eða þrír deila bíl saman frá Reykjavík til Akureyrar og halda sig á eða við hámarkshaða heldur en ef þrír bílar færu sömu leið og væru eins nálægt hundraðinu og Blönduóslöggan leyfði? Sparnaðurinn er strax augljós ef fleiri en einn eru í bílnum og sparnaður er nákvæmlega það sama og minni mengun.
Eitt ráðið sem ég sá var á þá leið að það ætti að létta bílinn eins og kostur er, ekki geyma hluti í bílnum til að rúnta með því öll þynging kallar á aukna eldsneytisnotkun. Einn vildi ganga svo langt að gera aldrei meira en að hálffylla tankinn til að létta bílinn en það er kannski frekar fyrir þá sem hafa tíma til að stoppa oftar á bensínstöðvum.
Laugardagur, 17.5.2008
Hinar mörgu hliðar umhverfisstefnunnar - kjörorðin eiga að vera „snjallt“ og „endingargott“ en ekki „nýtt“
Þetta með að offita stuðli á aukinn þátt í loftslagsbreytingum þarf ekki að koma á óvart því allt sem gert er hefur áhrif. Það er ekki nóg að flokka úrgang og skila. Ef við viljum taka betur á þá hreyfum við líka einkabílinn sem minnst og sláum fjórar flugur í einu höggi; fáum hreyfingu og brennum minna af kolefnaeldsneyti auk þess að spara bæði kostnað við líkamsrækt og bensín.
En þannig mætti líka lengi telja. Hversu mikil þörf er ekki á því að hægja á lífsþægindagræðgi nútímans og taka upp siði sem voru aflagðir hér fyrir svo sem hálfri öld eða svo. Þá voru allir hlutir gernýttir og engu hent sem hægt var að endurnýta. Snærisspottar voru geymdir og splæstir saman, allt timbur nýtt til hins ítrasta, gamlar mublur gengu kaupum og sölum þangað til þær liðuðust í sundur. Bílar voru lagaðir og lagaðir og jafnvel handsmíðaðir í þá hlutir. Þá voru ferðalög ekki svo algeng því þau voru firnadýr og líkur eru á að svo verði í framtíðinni. Fólk, jafnvel ókunnugir sameinuðust um bílferðir. Pælið í því! Þetta var nægjusamara þjóðfélag en það sem við búum í í dag en það var líka umhverfisvænt á sinn hátt þó svo orðið hafi ekki verið til þá.
Með því að kaupa eitthvað, hvort sem það er ferðalag eða hlutur erum við að stuðla að mengun og óþrifnaði í kringum okkur og því meira sem við kaupum því meira sóðum við út. Við sjáum kannski ekki óþverrann, hann getur sem hægast verið að safnast upp hinum megin á jörðinni, en hann er býsna örugglega þarna einhversstaðar. Hversu mikið er ekki búið að henda af stóru túpusjónvörpunum sem voru vinsæl rétt áður en flatskjáirnir komu? Það eru trúlega einhver ósköp. Í þessu tilliti þarf hver og einn að skoða sitt hugskot og velta orðinu 'nýtt' af stallinum og setja þar frekar eitthvað á borð við 'snjallt' eða 'endingargott'.
Offita stuðlar að loftslagsbreytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)