Færsluflokkur: Spaugilegt
Sunnudagur, 26.10.2008
Hið andlega lausafé
Fyrir einu ári birti ég ljóðið Ellimörkin? hér á blogginu. Þetta var á meðan góðærið svokallaða var enn hér á landi og fjöldinn allur af gljáandi nýjum pallbílum með stórar innfluttar hestakerrur í eftirdragi eða fjórhjólavagna renndi stoltur eftir götunum. Í kjölfar bankahrunsins er þetta orðið sjaldgæfari sjón og því ákvað ég að yrkja ljóðið upp í tilefni af breyttum tímum:
Ellimörkin - einu ári síðar.
Glæsikonur líta ekki lengur glaðlega til mín
og pallbílar góðærisins eru horfnir af götunum, hestakerrurnar líka.
Í búðunum íslenskur matur, í baðherberginu vigtin samt ennþá,
og í ræktina þarf ég lengur ekki að fara því nú hjóla ég í vinnuna.
Rófustappa slátur og mysa á borðum og á laugardagskvöldinu eru það
gömlu myndbandsspólurnar úr Góða hirðinum sem fátt toppar.
Ég býð nokkrum góðum vinum í heimsókn,
set snjáðar vínýlplötur á fóninn og
Johnny Cash syngur 'Peace in the valley'. Hið
andlega lausafé flæðir í gnægtum og fyllir sálarbankana.
Næst fer kvæðamannafélagið Iðunn á fóninn og
við kveðum nokkrar góðar stemmur
- hljómatöfrar heilla rispum blandaðir.
Gömul, nei það erum við sko aldeilis ekki.
Fimmtudagur, 21.8.2008
Alexey Stakhanov - fallin goðsögn kommúnismans
Ein af þeim goðsögnum sem haldið var á lofti á síðustu öld af áróðursmönnum Sovétríkjanna og málpípum þeirra í öðrum löndum, misjafnlega nytsamlegum sakleysingjum var sagan af Alexey Stakhanov kolanámumanninum sem að sögn gat unnið á við fimm eða gott betur. Stakhanov varð svo frægur að hann komst á forsíðu tímaritsins Time árið 1936. Hann var lykilmaður í áróðursstríði Stalíns og átti eflaust að sýna hvernig kommúnisminn gat hvatt alþýðuna til dáða. Ég minnist þess að ég hugsaði stundum um þennan mann sem gat hagrætt vinnu sinni og tíma þannig að hann fimmfaldaði afköst sín í kolanámunni og ég hugsaði í framhaldinu sjálfur um hvernig ég gæti hagrætt tíma mínum og afköstum betur. Á menntaskólaárunum undir lok 8. áratugarins voru marxistar - leninistar áberandi og einnig virtist mér sem Mao Zedong væri í talsverðu uppáhaldi hjá sumum. Mér blöskraði samt alltaf einhliða og ótrúverðugur áróður kommúnista og bullið um vondu atvinnurekendurna sem aðrændu góðu verkamennina snerti mig ámóta mikið pólitískt séð og ævintýrið um Hans og Grétu. Marx, Lenín, Mao eða Stalín voru aldrei mínir menn en eftir á að hyggja þá hugsa ég að hafi einhver þessara hetja sósíalismans höfðað til mín þá hafi Stakhanov gert það. Ég viðurkenni að ég trúði sögunni af Stakhanov og ég sá ekki í gegnum hana á þeim árum. Þá geisaði enn kalt stríð og greinar á við Time greinina sem vísað er á hér að ofan voru hiklaust kallaðar moggalygi. Það var erfitt andrúmsloft og það gat verið áhættusamt að viðra pólitískar skoðanir því menn gátu átt á hættu að missa vini eða falla í ónáð á ýmsum stöðum.
Seint á 9. áratugnum byrjaði svo að molna undan orðstír Stakhanovs. Það byrjaði með grein í The New York Times 1985 og síðan fylgdi sjálf Pravda í kjölfarið 1988, en Pravda var málgagn sovéska kommúnistaflokksins. Á þeim árum var Pravda orðin óvægin í endurskoðunarhlutverkinu * og perestrjoka - stefna endurskoðunar- og umbótasinnans Gorbatsjoffs var orðin ofan á. Þessar fregnir nam ég með einum eða öðrum hætti á þessum árum, blessunarlega og því er ég núna laus undan oki Stakhanovs - eða næstum því. Ég stend sjálfan mig þó að því ennþá að reyna að gjörnýta tímann eins og hægt er. Ég opna stundum tvær eða þrjár tölvur og vinn á þeim öllum. Set í gang verkferla á þeim og færi mig síðan á milli og ýti á enter á einni á meðan ferlismælir silast yfir skjáinn á annarri og sú þriðja er í endurræsingarfasa. Þetta er stundum hægt en þó ekki alltaf. Ég afsaka mig gjarnan með því að hérna fari ég líka eftir aðferðafræði örgjörvans sem úthlutar hverju verki tímasneið og heldur mörgum verkferlum í gangi líkt og fjölleikamaður með marga bolta á lofti. Var nokkur að tala um Stakhanov - nei ekki ég.
* Endurskoðunarsinnar var pólitískt hugtak sem kommúnistar notuðu. Það var notað yfir þá sem vildu þróa sósíalismann og horfa á hann með gagnrýnu hugarfari. Þetta hugtak notuðu harðir kommúnistar eins og hvert annað skammaryrði yfir frjálslyndari félaga sína.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 22.2.2008
Gamalt húsgangskvæði úr Flóanum
Tíkin hennar Leifu
tók hún frá mér margt
nýja skaflaskeifu
skinn - og vaðmál svart.
Tíkin sú var ekki ein
því Óðinn var með henni.
Át hún flot og feitt ket
feikilega sú lét
kapalinn og kaupskip
kálfa tólf og Þórólf,
Ingólfsfjall og allan Flóa
aftur lét hún kjaftinn mjóa
þó var hún ekki hálffull.
Brynjólfur Guðmundsson skráði 2005.
(Kapall er í merkingunni hestur).
Mánudagur, 24.12.2007
Jólin eru alveg að koma - setjum nú upp skeggið
Jæja núna eru jólin alveg að koma og tími til að fara að setja upp jólasveinaskeggið eins og Bragi á þessu YouTube myndskeiði. Við í Baugstjörn 33 sendum okkar bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár með þökkum fyrir liðið.
Fimmtudagur, 20.12.2007
Hvernig breyttust jólasveinarnir og af hverju?
Oft hef ég hugsað um þá algeru umbreytingu sem varð á gömlu íslensku jólasveinunum, Stúf, Stekkjastaur, Skyrgámi og þeim bræðrum öllum sonum Grýlu og líklega Leppalúða.
Umbreytingu þessara karla má líkja við algera viðhorfsbyltingu eða umsnúning á lífsgildum. Þeir leggja af tröllskap sinn og fláræði Grýlu kerlingarinnar sem var eitthvert versta tröllaskass sem sögur fara af og verða þess í stað alger andstæða þess sem þeir voru áður. Þeir umbreytast í glaðlega karla sem keppast við að gleðja mann og annan en þó aðallega börnin. Hvað svo sem það var sem gerðist þá má segja að það hljóti að hafa verið eitthvað gott. Fóru þeir kannski í skóla eða var það skóli lífsins sem hafði þessi góðu áhrif? Þeir hafa að sögn verið til í mörg hundruð ár og enginn skyldi vanmeta lífsreynsluna - en það skrýtna er að það er ekki lengra síðan en á fyrri hluta síðustu aldar sem þeim bræðrum var lýst sem sísvöngum matarþjófum og hrekkjakörlum í landsfrægum jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum.
Ég hallast því að því að þeir bræðurnir hafi gengið í skóla eða að minnsta kosti farið á námskeið þar sem markmiðið með náminu hefur verið breytt viðhorf og bætt hegðun. Ef þetta er ekki raunin þá hlýt ég að hyggja að þeir hafi kynnst einhverjum sem hefur haft þessi góðu áhrif á þá.
Spaugilegt | Breytt 21.12.2007 kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)