Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2018
Mánudagur, 30.7.2018
Á að byggja hús í sögulegum stíl á Selfossi?
Þegar ég taldi upp hús í sögulegum stíl sem einkenna miðsvæðið og aðliggjandi svæði á Selfossi í bloggpistlinum "Forsendur sátta um miðsvæðið á Selfossi" láðist mér að nefna húsið Hafnartún, en það eins og ráðhúsið er innan skipulagsreits hins umdeilda skipulags. Þetta hús svarar sé vel og gefur svæðinu virðulegan svip. Af óskiljanlegum ástæðum var ekki minnst á þessi tvö hús í forsendum aðalskipulagsins fyrir svæðið.
Hugmyndir um að byggja hús í gömlum sögulegum stíl eru ekki nýjar af nálinni og hafa þær yfirleitt heppnast vel. Sem dæmi um vel heppnaða byggingu í sögulegum stíl má nefna Landsbankahúsið á Selfossi en það ber sterkan svip af húsi bankans í Austurstræti sem upprunalega var hannað af Christian L. Thuren dönskum arkitekt sem aðhylltist sögustílinn. Sem dæmi um þekkt hús í sögustíl má nefna Westminster höll í London með Big Ben klukkuturninum.
Á ferðum mínum um heiminn hef ég ávallt hrifist af gömlum fallegum byggingum sem vel er við haldið og ég er ekki einn um þá hrifningu því þessar byggingar laða að sér fólk. Það er umhugsunarefni að á tímum þegar efni voru mun minni eða jafnvel miklu minni en þau eru í dag þá lagði fólk hart að sér að reisa fegurðinni slík minnismerki. Sumar þessara bygginga voru hundruð ára í smíðum. Það sem merkilegra er, er að í þessum tilfellum virðist hafa tekist að höndla fegurðina að svo miklu leyti sem hún verður höndluð. Margar þessara bygginga miðla tímalausri og klassískri fegurð sem ekkert í nútímanum með öllu sínu ríkidæmi og frelsi í stílformum virðist ná að jafna.
Á Selfossi eru einnig dæmi um endurbyggingar eldri húsa sem hafa heppnast vel. Þar má nefna húsið Múla þar sem Tónlistarskóli Árnesinga er til húsa að Eyravegi 9 og "gömlu Daddabúð" þar sem nú er Tölvulistinn til húsa að Austurvegi 34.
Sú hugmynd að byggja hús í sögulegum stíl á Selfossi er því í grunninn góð og ætti að geta heppnast vel en þau hús sem þar rísa í sögulegum stíl ættu samt ekki að víkja of mikið frá forsendum núverandi byggðar. Þó Big Ben laði að sér fólk í London þá er ekki víst að eftirlíking af Big Ben myndi hafa sömu áhrif á Selfossi. Þó margir leggi leið sína til Sacré-Cur og Notre Dame kirknanna í París þá er ekki víst að tilgátuhús í líkingu miðaldakirkju muni hafa sömu áhrif á Selfossi.
Þekktasta dæmið um mistök af þessu tagi er líklega eftirlíkingin af kirkju Vatíkansins á Fílabeinsströndinni en þangað leggja fáir leið sína í dag. Á Selfossi var ekki kirkja á miðöldum og ef forsendur núverandi byggðar eru lagðar til grundvallar er erfitt að rökstyðja byggingu þannig húss. Með nýjum tímum koma nýir menn og með tíð og tíma er ekki útilokað að yfirvöld Þjóðkirkjunnar muni einn góðan dag leyfa tilgátuhúsi um miðaldakirkju að rísa í Skálholti þar sem slíkt hús á sannarlega heima.
Ef ætlunin er að byggja hús á miðsvæðinu og sér í lagi hús í sögulegum stíl þá er sjálfsagt að hönnun og útlit þeirra kallist á við útlit þeirra húsa í sögulegum stíl sem fyrir eru á svæðinu og að svipmót hinna nýju húsa kalli ekki fram stílbrot við svipmót þessara húsa. Það er afar mikilvægt að tryggja að áframhaldandi þróun í byggingarstíl á svæðinu verði á forsendum byggðarinnar á svæðinu.
Almenningur í Árborg verður að fylgjast grannt með undanlátssemi sveitarstjórnarmanna við framkvæmdaaðila og veita þeim það aðhald sem þarf til að þróunin verði ekki látin eftir hönnuðum sem fá frjálsar hendur um stíltilraunir sínar eins og hótelbyggingarnar við Austurveg og Eyraveg bera merki um og einnig að þeir fái ekki að hanna bæði aðalskipulag og deiliskipulag fyrir sig sjálfa á þeim forsendum sem þeim hugnast best sjálfum.
Samfélagsmál í Árborg | Breytt 31.7.2018 kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)