Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

Um skipulag við Austurveg á Selfossi

Í störfum mínum í skipulags- og byggingarnefnd Árborgar hef ég m.a. lagt herslu á að framfylgja ákvæði í aðalskipulagi svæðisins þar sem segir að markmið sé að draga byggðasérkenni skýrt fram og byggja framtíðarsýn á þeim.  Þrátt fyrir að þetta standi í kafla um skipulagsskilmála íbúðarsvæða hef ég litið svo á að sú hugsun sem þarna birtist eigi einnig við um miðsvæði og fjölfarnar götur. 

Ástæða fyrir því að ég nefni þetta eru efasemdir sem vöknuðu við að horfa á breytingaferli sem deiliskipulag Austurvegar 39-41 á Selfossi (á móti Lyfju) gekk í gegnum.  Þessar tvær lóðir tilheyra í aðalskipulagi svæði fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi auk íbúðabyggðar. Deiliskipulag var til fyrir lóðirnar sem gerði ráð fyrir tveggja til þriggja hæða byggingum fyrir verslun og þjónustu auk íbúða. Í okt. 2015 kom tillaga um að breyta deiliskipulaginu og leyfa þriggja til fjögurra hæða fjölbýlishús.

Þegar breytingartillagan barst andmælti ég, greiddi atkvæði gegn henni og lét bóka að ekki væri að rétt að breyta skipulagi á miðsvæði nema ríkir og almennir hagsmunir kölluðu á þær breytingar, að æskilegt væri að þjónusta og verslun væru sem mest miðsvæðis og óheppilegt væri að taka þessa þætti úr skipulagi tveggja lóða við Austurveg því í framtíðinni myndi það rýra aðdráttarafl götunnar og staðarins í heild sem miðstöðvar fyrir verslun, þjónustu og menningarstarfsemi. Einnig að óæskilegt væri að fjölbýlishús væru staðsett mjög nálægt miklum umferðargötum vegna hávaða og rykmengunar. Tillagan var þó samþykkt því fulltrúar D- og S-lista studdu hana. 

Það var ekki léttbært að greiða atkvæði gegn áformum sem fyrirsjáanlegt var að hefðu virðisaukandi áhrif inn í samfélagið. Þarna koma íbúðir sem knýjandi þörf er fyrir. Það er samt mikilvægt að horfa til langs tíma og taka sem flest sjónarmið til skoðunar, einnig útlitslegu atriðin.  Gera má ráð fyrir að hægt hefði verið að finna heppilegri staðsetningu blokkanna, að áður en fjárfestarnir keyptu lóðirnar hafi þeir kynnt sér það skipulag sem í gildi var og gert sér grein fyrir að ekki væri sjálfgefið að því yrði breytt.  Fyrsta blokkin af þrem er núna að rísa þarna og geta vegfarendur því myndað sér skoðanir á málinu. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband