Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Ljósvakinn og lýðræðið

Það má kannski segja að svipað gildi um ljósvakamiðla og stjórnmálaflokka að það sé heppilegra að þeir séu fleiri en færri svo meiri líkur en minni séu á því að kjósendur og hlustendur finni eitthvað við sitt hæfi. Ef lög tryggðu að smáir ljósvakamiðlar ættu sér tilverugrundvöll og vaxtarmöguleika án þess að eiga á hættu stöðugar sameiningar eða yfirtökur stórra aðila með tilheyrandi róti á starfsmannahaldi og starfsemi þá væri mikið unnið.

Ég ef í fyrri pislum skrifað nokkuð um Ríkisútvarpið. Atburðirnir í kjölfar 550 milljón króna niðurskurðartillagnanna hjá RÚV þegar fjöldinn allur af félagasamtökum mótmælti því að skera niður á svæðisstöðvum RÚV úti á landi sýna svo ekki verður um villst hvert straumurinn liggur í menningarmálum ljósvakans. Það virðast margir á þeirri skoðun að landsbyggðarstöðvarnar beri að efla frekar en hitt. Þess má geta til upplýsingar að hér á Suðurlandi er engin slík fjórðungsstöð starfandi.

Hugsast getur að stjórnvöld og stjórnmálaflokkarnir séu að átta sig á því að það þarf að mynda heildstæða stefnu í íslenskum ljósvaka- og fjölmiðlamálum og ná um hana víðtækri og breiðri sátt. Gallinn er bara sá að hvorki stjórnvöld né stjórnmálaflokkarnir virðast hafa skýrar hugmyndir um hvert eigi að stefna. Ég bendi þeim því á að lesa pistlana í efnismöppunni minni um Ríkisútvarpið. Kannski fá þeir einhverjar hugmyndir sem þeir geta byggt á. Þær hugmyndir byggja í stuttu máli á því að byggja upp flóru smærri aðila, sem þrátt fyrir smæðina eru stöndugir og hafa burði til að vera til í áratugi ef þeir fara vel með fé. Þessir aðilar gætu sem best myndað efnismarkað sín á milli svo að vinsælir útvarpsþættir gætu heyrst á fleiri stöðvum en þeirri sem framleiðir efnið.

Í þessu sambandi er nærtækt að horfa til þess að byggja upp útvarpsstöð í hverjum landsfjórðungi, því auk þess að byggja upp fjölbreytni og menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar byggir slíkt fyrirkomulag einnig upp aukið öryggi þegar náttúruhamfarir bresta á. Sjá t.d. pistilinn  þar sem ég mæli með því að öflugum miðbylgjusendum verði komið fyrir í hverjum landsfjórðungi. Menningarleg slagsíða í þágu höfuðborgarsvæðisins í dagskrá og áherslum RÚV er greinileg. Nægir þar að nefna langdregin atriði í áramótaskaupinu sem snerust alfarið um argaþras í borgarpólitík Reykjavíkur.

Eignarhald ljósvakastöðva gæti sem best verið blandað. Í raun skiptir það ekki höfuðmáli hver á stöðina ef reksturinn er tryggður og hann má sem best styðja með ríkisframlögum að hluta til eða í hlutfalli við framboð stöðvarinnar af íslensku menningarefni. Samþjöppun á fjölmiðlamarkaði ætti frekar að hindra með því að tryggja tilverurétt smærri aðila heldur en setja strangar og íþyngjandi reglur um eignarhald á fjölmiðlum umfram ákvæði samkeppnislaga.  Það verður þó að segjast að ýmis önnur félagaform en hlutafélagaformið henta trúlega betur til reksturs menningarstarfsemi. Arðurinn af starfseminni kemur fram í auknum lífsgæðum, gagnrýnni hugsun og víðsýni þegnanna og er að því leyti eftirsóknarverður þó erfitt sé að leggja á hann efnahagslegan mælikvarða.

Núverandi frammistaða RÚV á menningarsviðinu er viðunandi eins og hún er en hún gæti verið miklu betri ef fjölbreytninni væri fyrir að fara. Ég bendi t.d. á pistilinn RÚV - Menningarleg Maginotlína í þessu sambandi.

Á sama hátt má líklega segja að til lengri tíma sé heppilegra að stjórnvöld hlúi að tilveru lítilla stjórnmálahreyfinga og þær njóti jafnræðis á við hina stóru. Það tryggir að líkindum fjölbreyttari nýliðun í flokkakerfinu og vinnur gegn stöðnun, klíkumyndun og áhrifum flokkseigendafélaga í hinum stærri og eldri stjórnmálahreyfingum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband