Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Fjallsperringur, hornriði og austantórur

Stundum er sagt að Sunnlendinga skorti allt loft, slíkt fyrirfinnist aðeins í norðlægari sveitum þessa lands. Samt sem áður eru ýmis nöfn notuð yfir vindinn á Suðurlandi, svo sem þessi:

Fjallsperringur var vindátt kölluð á Suðurlandi, norðaustan eða austan strekkingsvindur þegar skúrir voru á sunnanverðum austurfjöllum og þær náðu ekki að breiðast yfir láglendið.

Hornriði var austan vindátt kölluð þegar skúrir gengu upp yfir austurfjöllin og breiddust síðan út yfir láglendið.

Austantórur er austan vindátt í þungbúnu veðri eða skúraveðri með sólarglætum í austrinu.


Ein gaflatugga

Hve mikið þarf einn hestur? Áður var sagt að í fóðrun væru tíu kindur á við einn hest og fjórir hestar á við eina kú. Þegar beitt var, var talið að 30 kindur bitu á við einn hest. Þegar hey var borið úr heygörðum inn í húsin í laupum var einn laupur venjulega nóg fyrir eina kú. Gaflatugga var tugga ofan á sléttfullum laup líklega um 1/4 af laupnum. Einum hesti nægði gaflatuggan í málið. En hvað ætli þurfi mikið af góðu beitilandi til að beita einum hesti á sumarlangt?

Metanmáinn Títan

Á Títan er bálahvasst, fimbulkalt, himininn er appelsínugulur, gosvirkni spýtir metangasi út í loftjúpinn og sumir telja að "hraunið" samanstandi af ammoníaksblönduðu vatni! Yfirleitt er þar þurrt og kalt en á nokkurra alda fresti geisa þar ofboðsleg stórviðri, metanið þéttist og myndar ár og vötn. Hljómar ekki mjög spennandi. Líklega verða seint lögð drög að mannaðri för þangað.

Í desember og marsheftum  tímaritsins Sky and Telescope frá í fyrra (2006) eru fróðlegar greinar um niðurstöður rannsókna á Títan - einu af tunglum Satúrnusar.

Þangað til í júlí 2004 var Títan stærsta tungl reikistjörnunnar Satúrnusar hulinn heimur. En síðan þá hefur Cassini könnunarfarið frá NASA beint ratsjánni að tunglinu alls þrisvar sinnum af átta skiptum sem það hefur farið nálægt. Radarmyndir frá Cassini m.a. frá því 7. september ásamt niðurstöðum úr ferð Huygens könnunarfarsins sem Evrópska geimrannsóknarstofnunin sendi þangað eru að ljúka upp nýrri sýn á heim tunglsins. Huygens lenti á Títan hinn 14. janúar 2004. Títan er með lofthjúp og fast yfirborð líkt og t.d. jörðin og Mars. Hitinn á yfirborðinu var um -180 gráður en hæstur -86 gráður í 250 km. hæð. Loftþrýstingur var um 1,5 loftþyngd við yfirborð. Lofthjúpur Títan samanstendur að mestu af köfnunarefni líkt og lofhjúpur Jarðar, hann er líka „vökvaknúinn“ en á Títan er það metan (CH4) sem myndar vökvann en ekki vatn eins og á jörðinni.

Huygens farið varð vart við spennuhögg í 60 km. hæð sem gæti hafa stafað af eldingum. Vindstyrkur var mikill og á köflum hraðari en snúningur tunglsins, en slíkt þekkist líka á Venusi. Í 120 kílómetra hæð mældist vindstyrkurinn 430 km. á klukkustund. Lofthjúpurinn er lagskiptur og blésu vindar frá vestri til austurs niður í 7 km. hæð en þar fyrir neðan blésu þeir frá austri til vesturs. Í 5 km. hæð mældist lítill vindur eða aðeins um 3,5 km. á klst. Mælingar benda til að upphaflega hafi lofthjúpur Títan innihaldið mun meira köfnunarefni (nitrogen) en núna. Líklegt er talið að það hafi farið út í geiminn. Með því að mæla hlutfall kolefnis-12 á móti kolefni-13 ályktuðu vísindamennirnir að ástæða metansins væri ekki lífræn efnaskipti (biota) heldur gæfi þessi niðurstaða tilefni til að ætla að efnið bættist sífellt í andrúmsloftið, t.d. frá gosvirkni. Í lofthjúpnum fannst einnig ammoníak (NH3), "hydrogen cyanide" (HCN) og líklega nokkur önnur mólikúl með vetni og kolefni. Þetta eru fyrstu beinu vísbendingarnar sem finnast sem benda til að flókið lífrænt efni myndist í efnahvörfum í lofthjúpi Títan. Mælingar gefa til kynna að metan sé þrisvar sinnum þéttara við yfirborðið en uppi í lofthjúpnum en þar niðri þéttist það og myndar vökva.
Birtan á yfirborðinu er svipuð og hún er á jörðinni um 10 mínútum eftir sólarlag. Kvöldroðinn er blár og himininn er appelsínugulur. Yfirborðið er brúnt. Könnunarfarið lenti á stað þar sem gleypni yfirborðsins svipaði til blauts sands.
Radarmyndir Cassini frá 7. september sýna mynstur sem svipar til árfarvega og vatna. Samt greindist enginn vökvi í þessum farvegum. Af þessu hafa menn dregið þá ályktun að ekki hafi rignt nýlega á þessum stöðum. Þar sem aðeins lítið magn af sólarorku berst til yfirborðs tunglsins er talið að mjög lítið magn metans gufi upp á hverju ári - rétt nóg til að þekja tunglið allt með eins sentimeters djúpum metansjó. Því er talið að yfirborðið sé venjulega þurrt en þegar loftið verður mettað af metani myndist ofsaleg veður sem valdi því að mikill úrkomu kyngir niður á stuttum tíma. Ef köfnunarefnið kemur frá ammoníakseldfjöllum þá getur það skýrt fyrirbæri á yfirborðinu sem svipa til hraunlaga en er í raun ammoníaksblandað vatn. Ammoníak virkar sem frostlögur á vatnið og veldur því að þessi efni flæða sem "hraun" um yfirborðið.

Títan er því greinilega athyglisverður staður, en ekki að sama skapi neitt spennandi fyrir okkur mannfólkið að vera á.

Í nóvember 2006 hefti tímaritsins Astronomy (bls. 30) er sagt frá nýjum myndum sem hafa borist frá Cassini. Þær voru teknar 21. júlí sl. Myndirnar voru af heimskautasvæðum Títan og sýna dökka fleti sem vísindamenn telja að geti verið metanvötn. „Vötnin“ sýna engin frávik á radar sem bendir til að um slétta vökvafleti sé að ræða. Vötnin eru sum hver um 30 kílómetra í þvermál og þau eru á svæði sem er milli 75° og 80° norðlægrar breiddar. Mörg eru egglaga eða í beygjum en önnur líkjast eldgígum. Þetta er talið renna stoðum undir þá tilgátu að metanregn falli á Títan. Endurteknar myndir af sömu svæðum munu renna frekari stoðum undir þessar kenningar. Ef í ljós kemur að um vökva er að ræða þá er Títan eini þekkti staðurinn í sólkerfinu utan jarðar þar sem yfirborðsvökvi hefur fundist. Greininni í Astronomy fylgir mynd og hún líkist mest loftmynd af Flóanum - lágsveitum Árnessýslu af því sem ég hef séð af slíkum loftmyndum. Dökkir óreglulegir fletir á ljósari bakgrunni.

Höfundur er áhugamaður um málefnið.

Heimildir:
"Understanding Titan's Terrain", Sky and Telescope, desember 2005. Bls. 18.
"Titan Revisited“, Sky and Telescope, mars 2006. Bls. 16


„Margt býr í fjöllunum“ - 70 ára útgáfuafmæli

Árið 1937, sama árið og hann tók kennarapróf sendi Ármann Kr. Einarsson frá sér sína fyrstu barnabók. Þetta var ævintýrið Margt býr í fjöllunum.  Þetta var þó ekki frumraun hans því þremur árum fyrr, þegar Ármann var 19 ára gamall kom út eftir hann smásagnasafnið Vonir. Margt býr í fjöllunum er þrátt fyrir ungan aldur Ármanns þegar hann skrifaði það heilsteypt verk sem skilur engan eftir ósnortinn. Í sögunni greinir frá Bjössa litla, föðurlausum sveitapilt sem bjó ásamt móður sinni í litlum bæ í fallegum fjalladal - og að sjálfsögðu uxu blóm á þakinu. Bjössi situr yfir ánum og vingast við bláklædda huldukonu með því að líta eftir syni hennar um leið.  Þrátt fyrir þessa hamingju hvílir dökkur skuggi yfir dalnum hans Bjössa því sögur ganga um ógurlega illvætti - norn eða tröllkvendi sem áður hafði búið í dalnum en síðar horfið til fjalla. Illkvendi þetta sóttist eftir skrauti og auðæfum, var ákaflega nísk og þegar hún var orðin gömul, var hún búin að safna „kynstrum öllum af peningum og skartgripum." 

„Það er þannig mál með vexti, hélt Þuríður [móðir Bjössa] áfram, að börn hafa horfið héðan úr dalnum og aldrei fundist aftur, hvernig sem leitað hefur verið. Það er einkennilegt, að það hafa alltaf verið telpur, sem hafa horfið, og oftast hafa þær verið tíu til tólf ára að aldri ... Þegar kerlingin var orðin mjög gömul, hræðilega hrukkótt og skökk, og menn héldu að hún mundi bráðum fara að deyja, þá hvarf hún einn góðan veðurdag með öll auðæfi sín, og hefur aldrei spurzt til hennar síðan. Litlu síðar fór að bera á hinum dularfullu telpnahvörfum, og það höfðu menn fyrir satt, að Nánös gamla norn ætti einhvern þátt í þeim."

Svo vill einmitt til að vinkona Bjössa, Sólrún Sumarrós á Bjargi stúlka á líku reki og hann hverfur skyndilega. Hennar er leitað víða en allt kemur fyrir ekki, Rúna litla á Bjargi finnst hvergi. Bjössi leggur hart að móður sinni að fá að leita og fær loks að fara fyrir þrábeiðni. Hann leggur fyrst leið sína til bláklæddu huldukonunnar og fær hjá henni töfragripi góða sem koma honum að góðum notum síðar.  Hún vísar honum einnig leiðina að felustað Nánasar og þannig búinn leggur Bjössi af stað. Hann finnur eftir nokkra leit fjallið þar sem illkvendið býr og kemst inn í klettasali hennar. Þar verður hann undir huliðshjálmi vitni að dansi sveitameyjanna bergnumdu í kringum illkvendið:

„Hirðmeyjarnar hneigðu sig að nýju og hlýddu skipuninni þegjandi og á svipstundu. Þær tóku höndum saman og byrjuðu að dansa hringinn í kringum hásætið. Þær sungu og æptu með undarlegustu hljóðbrigðum, og dansinn var alls konar fettur og brettur, hopp og stökk. Skrukkurnar dönsuðu sífellt tryllingslegar, hraðar og hraðar, snertu varla gólfið og fóru í loftköstum. Þær voru eldrauðar af áreynslunni, froðufelldu og ranghvolfdu vitfyrringslega náhvítum augunum. Fótasparkið, ópin og óhljóðin bergmáluðu í hellinum, og það var eins og allt ætlaði af göflunum að ganga.  Nú var Nánös gömlu norn fyrst skemmt. Hún brosti, svo að tranturinn náði út undir eyru og neri saman krumlunum af ánægju."

Áfram heldur Bjössi í leit sinni að Rúnu og finnur hana loks bundna og keflaða í afhelli. Hún segir Bjössa sögu einnar af þernum nornarinnar sem hafði fært henni matinn. Sagan var á þessa leið:

„Margt hefur á daga mína drifið, síðan ég kom hingað inn í fjallið, hélt hún áfram, en en enginn dagur er mér jafn minnisstæður, eins og þegar Nánös dró mig inn í afhellinn, sem er hérna beint á móti í ganginum. Þar batt hún mig niður á flatan, aflangan stein, tók sprautu og stakk nál í handlegginn á mér og dró blóð upp í sprautuna. Loks dældi hún í mig einhverjum töfravökva í staðinn fyrir blóðið, sem hún tók. Það hafði sínar verkanir. Ég hætti að stækka, og allar góðar og göfugar tilfinningar hurfu úr hjarta mínu. Ég hætti að gleðjast og hryggjast, ég brosti ekki lengur og gat ekki framar grátið. Ég fór að hata birtuna og sólskinið og kærði mig ekki lengur um að komast til mannabyggða. Nú varð það mitt eina takmark að þjóna Nánös norn dyggilega og lifa í trylltum dansi og villtum fögnuði í veizlusölum hennar.“

Sögunni lýkur svo þannig að með hjálp töfragripa huldukonunnar nær Bjössi að sigra töframátt Nánasar nornar og frelsa Rúnu á Bjargi úr heljargreipum hennar. En Nánös sjálf, þernurnar og bústaður hennar eyðist í miklum hamförum.

Segja má að sagan sé á mörkum þess að vera barnasaga og vel samin nútímaleg þjóðsaga. Auk bláklæddu huldukonunnar og töfragripanna sem bera sterka drætti þjóðsögunnar koma í persónu Nánasar fyrir þættir sem gjarnan eru eignaðir persónum trölla. Hún er fyrrum mennsk kona sem hefur gengið í björg og hennar eina skemmtun er að lokka fleiri þangað til að stytta sér stundir. Mennskan er henni með öllu horfin og fyllingu tilveru sinnar sækir hún í óhemjuskap sinn, fláræði og tröllskap. Boðskapurinn með sögunni er skýr. Það er kærleikur Bjössa til Rúnu, trúmennska hans og lítillæti - ásamt hjálp frá góðum vinum, hinni bláklæddu konu sem nær að sigrast á þessu illa afli. Og spyrja verður hvort þetta séu ekki ævarandi sannindi sem sveitapilturinn ungi  úr Biskupstungum, Ármann Kr. Einarsson benti á með svo áhrifaríkum hætti fyrir 70 árum?

 


Heitir bærinn Galtastaðir eða Galtarstaðir?

Í tilefni af umræðu og fréttaflutningi af fjarskiptamöstrum sem rísa áttu við bæinn Galtastaði á þessu ári langar mig til að tæpa á helstu atriðum um það sem mér er kunnugt um þetta bæjarnafn. Í öllum þeim fréttum sem ég hef séð í blöðum Suðurlands um málið hefur bærinn alltaf verið nefndur Galtastaðir. Það er í samræmi við málvenju á svæðinu enda kannast enginn hér við að bærinn heiti Galtarstaðir. Í Morgunblaðinu laugard. 25. nóvember 2006 er frétt af möstrunum á baksíðu og í fréttinni er bærinn ítrekað nefndur Galtarstaðir. Mér er málið nokkuð skylt því á þessum bæ átti ég heima frá fæðingu árið 1961 og þangað til 1990. Allan þann tíma var bærinn alltaf nefndur Galtastaðir af heimilisfólkinu og mín fjölskylda hafði komið á bæinn 1926 eða 7. Ekki man ég eftir að neinn af okkar nágrönnum hafi nefnt bæinn öðru nafni. Á kortum af svæðinu og skilti sem komið var upp við bæinn Bár af Gaulverjabæjarhreppi sem áður var stóð Galtastaðir - ekki Galtarstaðir. Í Íslensku fornbréfasafni er til færsla líklega frá 12. eða 13. öld um álftahreiður í landi Galtastaða og sagt að þau tilheyri Gaulverjabæjarkirkju. Ég er ekki með heimildina tiltæka en ég man þetta örugglega. Í þessari heimild er bærinn nefndur Galtastaðir. Í jarðabók Árna Magnússonar er bærinn aftur á móti sagður heita Galtarstaðir. Hvað því veldur er ekki gott að segja, hugsanlega svipaður ókunnugleiki og vart varð hjá Mogganum. Nú væri forvitnilegt hvaða skoðanir lesendur hafa á þessu máli. Er þetta bæjarnafn tilvísun í einhvern galta eða er felur nafnið í sér tilvísun í gölt og hafa heimamenn bara verið svona feimnir að nefna bæinn réttu nafni öll þessi árhundruð? Ég fékk bréf frá Guðmundi Erlingssyni móðurbróður mínum um þetta og birti hér brot úr því með leyfi hans: "Göltur -- Sbr næturgöltur. Orðið galti þýðir líka ' litil heysáta´ og svo finnst mér endilega að galti væri notað um heystabba í heygörðum.

Grýlukvæði Séra Brynjólfs Halldórssonar dáinn 1737.
Úr vísu #67

Árdegis fór hún
á burtu þaðan
gekk svo rakleiðis
að Galtastöðum

Úr vísu #94

Að Galtastöðum
gekk hún snemmendis.

Í Hrafns Sögu Sveinbjarnarsonar er maður nefndur Galti. Mér finnst það vera líklegasta skýringin á nafninu Galtastaðir, sbr Baugstaðir, Egilsstaðir, Torfastaðir, Ragnheiðarstaðir eru allir kenndir við menn. Grýlukvæðið er um Galtastaði austur á Héraði. Norðlendingar greiða lokka við Galtará eða státa af fræðimanni sínum, Guðbrandi Vigfússyni frá Galtardal í Dölum. Sunnlendingar og Austfirðingar eiga sína Galtastaði"


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband