Sunnudagur, 19.10.2008
Var FM væðing landsbyggðarinnar mistök?
Þeir lesenda sem muna þann tíma þegar Útvarp Reykjavík var eina útvarpsstöðin muna líka eftir langbylgjustöðinni stóru á Vatnsendahæð sem síðar var flutt vestur á Snæfellsnes og er þar enn. Núna er sú stöð rekin fyrst og fremst á öryggisforsendum sem og til að þjóna dreifðum byggðum þar sem ekki næst til FM senda. En áður en FM sendarnir komu var langbylgjustöðin sú eina hér á Suðvesturhorninu og síðan minnir mig að það hafi verið stöð á Austurlandi sem sendi út á miðbylgju. Þ.e. það voru aðeins tveir sendar sem þjónuðu mest öllu landinu og miðunum eða því sem næst.
Þegar FM (Frequency Modulation) tæknin kom til sögunnar náði hún skjótt miklum vinsældum, fyrst og fremst vegna þess að tóngæðin í FM útsendingunum tóku útsendingargæðum AM (Amplitude modulation) langt fram. En bæði langbylgjan og miðbylgjan flokkast sem AM sendingar. Ókostur FM sendinganna er aftur á móti sá hve skammdrægir sendarnir eru og að fjöll skyggja á útsendinguna. Fyrstu FM sendar RÚV voru greinilega vandaðir og öflugir en í seinni tíð hefur sendistyrk þeirra að líkindum farið aftur. Fyrstu FM sendarnir voru Mono sendar en sendar nútímans eru Stereo sendar sem eru enn viðkvæmari fyrir truflunum, löngum vegalengdum og mishæðum í landslaginu. Það er orðið erfitt að ná nægum tóngæðum úr meðalgóðum útvarpstækjum, t.d. hér á Selfossi og í nágrenni og einnig spillir fyrir að alltaf þarf að vera að skipta um tíðni á útvarpstækjunum þegar farið er á milli staða t.d. á bíl. Suð og truflanir frá tölvum er orðið áberandi truflanavaldur og það svo mjög að það er orðið erfitt að hlusta á FM útsendingar RÚV hér á Suðurlandi nema í góðum tækjum.
FM tæknin hefur trúlega orðið ofan á fyrst og fremst vegna þess hve tónlist hljómar miklu betur í FM sendingu heldur en í AM sendingu en í útvarpi sem byggir að stórum hluta á töluðu orði eru þessar forsendur ekki jafn sterkar. Í seinni tíð grunar mig að þeir sem á útvarp hlusta hlusti ekki á það vegna tónlistarinnar fyrst og fremst heldur vegna hins talaða orðs ekki síður. Í dag eru svo fjölmargar leiðir fyrir tónlistarunnendur að eignast eða hlusta á sína uppáhaldstónlist að útvarp er ekki jafn mikilvægt hvað það varðar og áður. Hægt er að hluta á stafræna tónlist af diskum, tölvum, netinu og tónhlöðum í miklum tóngæðum og algengt er að í bílum séu t.d. geislaspilarar.
Í þessu ljósi langar mig að velta upp þeirri spurningu hvort ekki væri heppilegast að RÚV sem á að þjóna mikilvægu öryggishlutverki komi upp öflugum AM sendi í hverjum landsfjórðungi, t.d. miðbylgjusendi frekar en langbylgjusendi? Það helgast af því að í mörgum tækjum er ekki langbylgja eins og var áður heldur aðeins miðbylgja og FM bylgja. Þannig sendir myndi vera öruggari hvað varðar langdrægni en hinir strjálu FM sendar sem eru á fjölmörgum tíðinssviðum sem fáir muna eftir hvar eru. Það yrði því auðveldara að finna þessa senda á AM tíðnissviðinu, muna hvar þeir eru og staðsetning á landinu skiptir minna máli því öflugur miðbylgjusendir, t.d. í Vestmannaeyjum ætti að nást vel um mest allt Suðurland og einnig langt út á sjó. Kostnaður við öflugan miðbylgjusendi ætti ekki að vera svo miklu meiri en við FM sendana sem væri þá hægt að fækka á móti eða takamarka þá við þéttbýlisstaðina þar sem skammdrægni þeirra kemur ekki jafn mikið að sök. Þessi tæknilega uppbygging gæti haldist í hendur við áherslubreytingu í starfsemi RÚV sem þarf auðvitað að felast í því að það verði raunverulegt ríkisútvarp en ekki bara Reykjavíkurútvarp með máttvana hjáleigur fyrir vestan, norðan og austan og enga hér fyrir sunnan.
Meginflokkur: Útvarp | Aukaflokkar: Ríkisútvarpið, Sjónvarp, Tölvur og tækni | Facebook
Athugasemdir
Þetta tek ég undir af heilum hug, algerlega óþolandi er hve fj........ erfitt er að finna almennilega tíðni sé maður í bíl. Nefni hér eitt skýrasta dæmið og mest pirrandi, maður stillir á kvöldfréttir ,,á rás 2" við kambana svo þegar komið er uppá miðja hellisheiði þá eru skruðningar og suð orðið það mikið að ekki heyrist neitt af viti. Ekki er maður sáttari við þennan ósóma að skerða hlut okkar hér á Suðurlandinu, öllu virðist vera stýrt frá þessu sódómabæli er Höfuðborgarsvæðið verður æ meira með hverjum mánuðinum sem líður.
Eiríkur Harðarson, 19.10.2008 kl. 15:54
Öll fjarskipti byggja á loftnetum, þau eru lykilatriði og á flestum nútímabílum eru loftnetin hálfgerðir prjónar. Áður voru notuð miklu stærri og öflugri loftnet og kannski er það ástæðan fyrir því að ver gengur að ná sendingunum.
Síðan á RDS tæknin sem er innbyggð í flest útvarpstæki í dag (amerísk tæki nota að vísu aðra útgáfu) að sjá um að elta útvarpstöðina sem verið er að hlusta á þannig að ekki þurfi að vera að skipta um tíðni, tækið á að gera það sjálft. En tækið verður náttúrulega að heyra merkið til að þetta virki.
Ég er alin upp við langbylgjusendingar og hef ekki áhuga á að snúa aftur til þeirra tíma.
Einar Steinsson, 19.10.2008 kl. 19:43
Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar heiðursmenn. Ég kannast við þessa RDS tækni Einar en það eru mörg eldri tæki sem eru ekki með þennan möguleika því miður. Einnig eru staðbundnu móttökuskilyrðin á FM sendingum RÚV mjög mismunandi. Sterkur AM sendir gæti þjónað sem öryggistæki og jafnframt tryggt dreifingu á merki til fjarlægari staða. Langbylgjustöðin á Snæfellsnesi er of fjarlæg og merki hennar er of veikburða hér á Suðurlandi til að nýtast nægilega vel. Þessar staðbundnu stöðvar ættu að vera hluti af sjálfsagðri og sjálfstæðri öryggis- og menningarþjónustu RÚV og flytja efni af svæðinu en ekki vera endurvarpsstöðvar fyrir Reykjavíkurstöðina, nema til að útvarpa fréttum og veðurfréttum og samnýta þannig fréttastofuna.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 19.10.2008 kl. 20:34
Mig langar að koma með viðbót og leiðréttingu við pistilinn. Í fyrsta lagi viðbót. Á eftirfarandi vefslóð má sjá yfirlit yfir FM senda RÚV:
http://www.ruv.is/heim/upplysingar/um/dreifikerfi/fm/
og á þessari uppl. um langbylgjusenda RÚV:
http://www.ruv.is/heim/upplysingar/um/dreifikerfi/langbylgja/
Þar kemur eftirfarandi fram:
Ekki skal það sem hér er sagt um langdrægni langbylgjusendanna dregið í efa en greinilegt er þó að gæði langbylgjumerkisins frá Gufuskálum hér á Suðurlandi er minna en var frá Vatnsendastöðinni enda um meiri vegalengd að ræða. Um langbylgjustöðina á Eiðum vissi ég ekki en mig minnir enn sem áður að fyrr hafi verið þar miðbylgjusendir. Rökin um miðbylgjusenda sem ég kom inn á í pistlinum halda þó því þau byggja á því að mörg útvarpsviðtæki eru ekki með langbylgjumóttöku. Þ.e. það er erfitt að taka tillit til áskorunar RÚV um innkaup á útvarpstækjum því langbylgja virðist almennt vera á undanhaldi í heiminum og æ færri útvarpstæki eru með langbylgju. En athugandi væri fyrir RÚV að bæta við miðbylgjusendi á Suðurlandi og öðrum á Norðurlandi jafnframt því sem starfsstöðvar á þessum stöðum væru efldar til muna. Með því að leggja niður skemmtidagskrá og breyta dreifikerfi Rásar 2 væri hægt að fá fjármagn til að standa straum af þessum kostnaði.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 21.10.2008 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.