Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera

Öryggi ferðafólks erlendis er ekki alltaf það sem það virðist vera. Hörmulegt morð á íslenskri konu í Dóminíska lýðveldinu minnir á þetta. Það er svo fjarri því að í ýmsum löndum Afríku, Asíu eða Suður-Ameríku sé öryggi fólks jafn tryggt og það er í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum svo tekið sé dæmi. Við getum ferðast þangað en eitt af því sem við tökum með okkur eru innprentaðar hugmyndir okkar um öryggi og öryggistilfinningu en hætt er við að sú tilfinning geti orðið fallvalt veganesti og geti valdið hættulegu ofmati á eigin öryggi í löndum þar sem stjórnarfar er ekki tryggt eða embættismenn þiggja gjarnan aukagreiðslur fyrir unnin verk. Á þannig stöðum er réttlætið fyrst og fremst réttlæti hins sterka og kannski líka hins forsjála. Undir þannig kringumstæðum er öryggi eitthvað sem er mun meira einkamál en gengur og gerist og þeir sem ekki huga gaumgæfilega að því gætu verið í hættu. Fyrir ekki svo löngu las ég í blaði frétt af tveimur stúdínum sem ákváðu að fara í heimsreisu í tilefni af útskriftinni og völdu Suður-Ameríku til að ferðast um einar, í langan tíma og að því er virðist án skýrrar ferðaáætlunar. Ég trúði varla eigin augum þegar ég sá þetta, en það virðist því miður að verða nokkuð útbreiddur vani að íslensk ungmenni ferðist á eigin spýtur ein saman eða fá um þessi svæði. Þetta er kannski hluti af áhættusækni ungs fólk sem einnig má sjá í áhættuíþróttum, en í þessum tilfellum er áhættan stundum ekkert minni en þess sem hoppar í fallhlíf eða fram af háu húsi eða fjallsbrún í fallhlíf.

Þeir sem þekkja aðstæður í Afríku- eða Asíulöndum vita að miklu máli skiptir að þekkja aðila á staðnum og eiga sem minnst viðskipti eða samskipti við ókunnuga í tilfellum þar sem öryggi getur skipt máli. Einnig er mjög mikilvægt að ferðast ekki einn eða fáir saman heldur hafa traust fylgdarfólk sem gjörþekkir aðstæður á staðnum, helst innfædda. Til að byrja með er þetta óþægilegt, að geta ekki um jafn frjálst höfuð strokið og heima og þurfa helst að vera upp á aðra kominn með fylgd en þetta getur borgað sig til lengri tíma. Það gleymist gjarnan að öryggis- og frelsistilfinning Vesturlandabúa er ekki sjálfsögð heldur er hún afrakstur fullkomins öryggiskerfis þróaðs þjóðfélags. Við skömmumst stundum út í lögregluna en viljum jafnframt ganga óáreitt um götur borga okkar helst á hvaða tíma sólarhrings sem er.  En það er munaður sem er fjarrri því að vera sjálfsagður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eiríkur Harðarson

Gallinn er bara sá að meðalvegurinn er, var og verður ekki inní myndinni, hjá mannskeppnunni á þessum árum. Trúlega eru einu skiptin sem þetta unga fólk setur öryggið á oddinn, þegar það hefur samfarir.

Eiríkur Harðarson, 25.9.2008 kl. 00:08

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Eiríkur og takk fyrir innlitið. Ég held að við þessi eldri berum ekki minni ábyrgð í þessu sambandi bæði sem fyrirmyndir og einnig með því að beita fortölum og hóflegum varnaðarorðum.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 25.9.2008 kl. 19:14

3 identicon

Þetta er því miður sjónarmið sem býsna margir deila með þér og er að miklu leiti innblásið af slæmum og ónákvæmum fréttaflutningi af þessum heimshlutum.

Í fysta lagi eru "Afríka" og "Suður-Ameríka" ekki staðir, heldur heimsálfur. Á þessum svæðum finnast öll stig mannlegrar tilveru. Hræðsla þín við ferðalög á vissulega við um staði sem tilheyra þessum svæðum. Ferðalög til Súdan og Kongó eru t.d. alls ekki hættulaus, en þetta má alls ekki heimfæra á heimsálfuna í heild. Sjálfur hef ég í Afríku heimsótt Tansaníu, Kenía, Úganda, Rúanda og Túnis - eins skelfilega og það kann að hljóma í þínum eyrum. Ég get ekki beðið eftir að sjá meira af þessu svæði heimsins og hvet sem flesta til að gera slíkt hið sama. Í S-Ameríku gæti á sama hátt verið ástæða til að varast Kólumbíu, en Chile, Ecuador og Perú (sem dæmi) eru lönd sem við ættum að sækjast eftir að kynnast sem mest. Þarna hef ég aðeins farið um líka og dreymir um að sjá meira.

Alls staðar þar sem fólk er ekki heimavant þarf það auðvitað að fara varlega og oftast eru það sömu varnaðarorðin sem gilda: kynntu þér staðina, spurðu kunnuga ráða, varastu að vera einn á ferli að nóttu til - o.s.frv. Þetta á ekki síður við um London, New York eða Reykjanesbæ, en Dar es Salaam, Kampala eða Quito.

Einfölduð heimsmynd eins og sú sem þú dregur upp í færslunni hér að ofan elur einfaldlega á fordómum, hægir á uppbyggingunni sem þessi heimssvæði þurfa sárlega á að halda og því að þú og skoðanabræður þínir og -systur fái að njóta fjölbreytileikans sem heimurinn hefur upp á að bjóða.

Fyrir þá sem hafa áhuga kemur þessi bloggfærsla mín að einhverju leiti inn á þessa sömu hluti: http://hjalli.com/2008/03/10/299/

Hjálmar Gíslason (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 19:50

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Hjálmar.

Ég kannast  ekki við að ég ali á hræðslu þó ég segi að það skipti máli að þekkja aðila á stöðum sem heimsóttir eru og að heppilegt sé að eiga sem minnist samskipti við ókunnuga þar sem öryggi skiptir máli. Þér finnst það trúlega ekki ofsagt t.d. um Súdan, Kongó og Kólumbíu. Þú skrifar um hræðslu mína við ferðalög sem er eitthvað sem ég kannast ekki við. Athugasemd þín sýnir að viðhorf þín eru ekki svo ólík mínum samanber líka þessi orð:

Alls staðar þar sem fólk er ekki heimavant þarf það auðvitað að fara varlega og oftast eru það sömu varnaðarorðin sem gilda: kynntu þér staðina, spurðu kunnuga ráða, varastu að vera einn á ferli að nóttu til - o.s.frv. Þetta á ekki síður við um London, New York eða Reykjanesbæ, en Dar es Salaam, Kampala eða Quito.

Um borgir sérstaklega gilda kannski önnur lögmál en lönd sem heild og rétt er að það sama gildir almennt um öryggi í þeim. Athugasemd þín um að fólk eigi að kynna sér staðina fyrirfram er auðvitað góð og gild og ég hefði sem best getað tekið hana upp í pistilinn og hefði raunar getað skrifað meira út frá því sjónarhorni. Það sem ég gagnrýni fyrst og fremst er það viðhorf að ætla fyrirfram að öryggi sé víðast hvar með svipuðum hætti og á Vesturlöndum, ég taldi að það hefði komið nógu skýrt fram, t.d. vegna dæma sem ég tók. Hafi það sjónarmið ekki verið nægilega skýrt þá ítreka ég það hér sérstaklega.

Mér sýnist því Hjálmar að við séum mun meira sammála en ósammála. Ásakanir um fordóma mína og ótta byggjast greinilega á mislestri pistilsins. Svo virðist sem að orðin "þar sem öryggi skiptir máli" og "í löndum þar sem stjórnarfar er ekki tryggt eða embættismenn þiggja gjarnan aukagreiðslur fyrir unnin verk" hafi farið alveg framhjá sjónum þínum. Ég vísa ásökunum þínum því á bug en þakka samt tækifærið að fá að leiðrétta þennan misskilning.

Eigðu góðan dag Hjálmar og vertu velkominn aftur hingað til athugasemda og spjalls.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 27.9.2008 kl. 10:59

5 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég er nú sammála þér Ragnar (eiginlega Hjálmari líka ef út í það er farið)   Ég veit hvað þú meinar, sbr. útlendingar sem hingað koma, eða bara sumir Íslendingar, æða  upp á hálendið í sparifötunum og támjóum lakkskóm. Þær ferðir enda alltaf illa og þarf að senda jafnvel hundruð manna til leitar með tilheyrandi kostnaði. 

Kynna sér aðstæður og öryggi áður en anað er af stað!

Kveðjur og heilsanir!

Rúna Guðfinnsdóttir, 27.9.2008 kl. 11:11

6 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og athugasemdina nú sem endranær Rúna!

Ég vil nota tækifærið og leiðrétta enn örlitla missögn sem var í aths frá mér hér að ofan í svari til Hjálmars. Þar stendur:

ég taldi að það hefði komið nógu skýrt fram, t.d. vegna dæma sem ég tók

en á að vera:

"ég taldi að það hefði komið nógu skýrt fram, t.d. vegna dæmis sem ég tók"

þ.e. eins dæmis sem ég tók, þ.e. ferðalags stúlknanna tveggja um Suður-Ameríku.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 27.9.2008 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband