Laugardagur, 17.5.2008
Hinar mörgu hliðar umhverfisstefnunnar - kjörorðin eiga að vera „snjallt“ og „endingargott“ en ekki „nýtt“
Þetta með að offita stuðli á aukinn þátt í loftslagsbreytingum þarf ekki að koma á óvart því allt sem gert er hefur áhrif. Það er ekki nóg að flokka úrgang og skila. Ef við viljum taka betur á þá hreyfum við líka einkabílinn sem minnst og sláum fjórar flugur í einu höggi; fáum hreyfingu og brennum minna af kolefnaeldsneyti auk þess að spara bæði kostnað við líkamsrækt og bensín.
En þannig mætti líka lengi telja. Hversu mikil þörf er ekki á því að hægja á lífsþægindagræðgi nútímans og taka upp siði sem voru aflagðir hér fyrir svo sem hálfri öld eða svo. Þá voru allir hlutir gernýttir og engu hent sem hægt var að endurnýta. Snærisspottar voru geymdir og splæstir saman, allt timbur nýtt til hins ítrasta, gamlar mublur gengu kaupum og sölum þangað til þær liðuðust í sundur. Bílar voru lagaðir og lagaðir og jafnvel handsmíðaðir í þá hlutir. Þá voru ferðalög ekki svo algeng því þau voru firnadýr og líkur eru á að svo verði í framtíðinni. Fólk, jafnvel ókunnugir sameinuðust um bílferðir. Pælið í því! Þetta var nægjusamara þjóðfélag en það sem við búum í í dag en það var líka umhverfisvænt á sinn hátt þó svo orðið hafi ekki verið til þá.
Með því að kaupa eitthvað, hvort sem það er ferðalag eða hlutur erum við að stuðla að mengun og óþrifnaði í kringum okkur og því meira sem við kaupum því meira sóðum við út. Við sjáum kannski ekki óþverrann, hann getur sem hægast verið að safnast upp hinum megin á jörðinni, en hann er býsna örugglega þarna einhversstaðar. Hversu mikið er ekki búið að henda af stóru túpusjónvörpunum sem voru vinsæl rétt áður en flatskjáirnir komu? Það eru trúlega einhver ósköp. Í þessu tilliti þarf hver og einn að skoða sitt hugskot og velta orðinu 'nýtt' af stallinum og setja þar frekar eitthvað á borð við 'snjallt' eða 'endingargott'.
Offita stuðlar að loftslagsbreytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Umhverfismál | Aukaflokkar: Dægurmál, Samgöngur | Breytt s.d. kl. 18:16 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.