Þriðjudagur, 22.1.2008
Hesturinn minn heitir Flóki
En við höfum ekki sömu lifað árin eins og Blesi og ljóðmælandinn í 'orfeus og evridís' frægu kvæði Megasar af plötunni 'Á bleikum náttkjólum'. Hesturinn þessi er að verða 9 vetra gamall, er fæddur 1999 en ég er fæddur nokkru fyrr. Þetta er eini hesturinn sem ég á og ég er fyllilega sáttur við það því það er töluverð vinna að eiga hest. Maður þarf að vakna snemma á morgnana til að gefa honum hey og svo þarf að fæða hann á kvöldin líka. Síðan þarf að snyrta í kringum hann, hleypa honum út á daginn þegar gott er veður og klóra honum og klappa og skella sér á bak af og til. Þetta er allt skemmtilegt en ég vil ekki margfalda þetta með 2 hvað þá n þar sem n er heil tala stærri en 2.
Ég lít á það sem forréttindi að geta gefið mínum hesti sjálfur og annast hann daglega og þegar vel er að gáð þá þarf einn hestur töluverða athygli. Ég hef því ekki skipst á um að gefa eins og margir gera og er að þessu leyti dálítið sérvitur. Það eru fleiri hestar í hesthúsinu en af því að ég á þá ekki og aðrir hirða um þá þá sýni ég þeim minni athygli heldur en mínum hesti. Þetta finnur hesturinn minn og hann verður æfur af afbrýðisemi ef einhver hinna hestanna stillir sér upp við keðjuna þegar ég er að fara að hleypa honum eða stíufélaga hans inn í húsið.
Hingað til hefur mér fundist Flóki vera frekar lítið gefinn fyrir klappið þó hann vilji greinilega ekki að ég klappi öðrum hestum. En í dag sýndi hann mér merkileg vingjarnlegheit sem hann hefur aldrei gert áður. Ég var að moka snjó frá hesthúsinu til að hægt væri að fara með hjólbörur meðfram húsinu og hvað gerði karlinn? Hann stóð við hliðina á mér allan tímann og rak snoppuna af og til laust í mig á meðan ég mokaði. Þetta var sérlega vingjarnlegt og hann var greinilega að minna á sig og sýna mér samstöðu við moksturinn. Svona getur þetta tekið tíma. Ég eignaðist Flóka í apríl í fyrra og það er fyrst núna eftir níu mánaða samveru sem hann sýnir þessi vingjarnlegheit. Á þessum tíma hefur hann oft látið mig vita að hann sé ekki fyllilega sáttur við mig, bæði finnst honum að ég leyfi allt of mörgum hestum að vera í hesthúsinu, sem hann álítur greinilega vera sitt og honum finnst líka að hann eigi að ráða, af því hann var fyrsti hesturinn til að koma í húsið í haust. Að þessu leyti hef ég brugðist honum, að hans mati. Það er greinilegt. En sumir sættast þó það taki tíma.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkur: Lífstíll | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.