Sunnudagur, 10.6.2007
Fælast hestar við flugvéladyn?
Nokkuð hefur verið rætt að undanförnu um slys sem verða á hestamönnum, einkum vegna þess að þeir fælast af ýmsum ástæðum. Tvö nýleg dæmi veit ég um þar sem hestar fældust vegna dyns frá flugvél í lágflugi en kunningjafólk mitt sagði mér að sínir hestar sem eru vanir flugvélum brygðust ekki hið minnsta við slíku. Dæmi væri um þyrlur á heræfingu sem hafi flogið lágflug yfir hestahóp sem brá sér ekki hið minnsta. Heimildarmaður minn Brynjólfur Guðmundsson hefur sagt að fyrir seinna stríð hafi það oft gerst að hestar fældust af völdum flugvéladyns en á stríðsárunum hafi verið svo mikil flugumferð að hestarnir hafi vanist hávaðanum og lítið brugðið við eftir það. Eftir að flugumferð hersins er alveg hætt hefur flugumferð yfir sveitunum trúlega minnkað. Þá má kannski vænta þess að hestar sem eru upprunnir og tamdir í sveitunum geti fælst þegar þeir koma í þéttbýlið og heyra dyn flugvéla í lágflugi eða annarra hljóða sem þeim eru ekki töm úr sveitinni? Þetta kann að vera nýtt athugunarefni fyrir flugmenn sem hugleiða lágflug yfir slóðum þar sem vænta má að hestar og menn séu á ferð.
Athugasemdir
Sæll mér dettur helst í hug að mikið af þessum slysum séu tilkominn vegna vankunnáttu fólks við að sitja á hesti. Tel að fólk sé orðið það uppskrúfað af stressi, í mörgum tilfellum að það áttar sig ekki á því að það á að fylgja hreyfingum hestsins ekki öfugt.
Eiríkur Harðarson, 11.6.2007 kl. 02:12
Það má vera, en í þeim tilfellum sem ég veit um þá var enginn á baki. Annar reif sig lausan úr girðingu og hinn úr taumi þegar flugvélin fór yfir.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 12.6.2007 kl. 18:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.