Föstudagur, 1.8.2025
Frá klaustri til kaldhæðni: Fóstbræðra saga og Gerpla
Fóstbræðra saga, sem talin er rituð um miðja 13. öld (líklega á árunum 12501270), er ein sérkennilegasta fornsaga okkar Íslendinga. Hún fjallar um hina frægu fóstbræður Þormóð Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson, en í stað þess að hylla þá sem glæstar hetjur, er dregin upp mynd af mönnum með bjagað raunveruleikamat, sem eru félagslega einangraðir og haldnir hættulegu stolti og ofbeldisþrá. Þorgeir vegur af litlu tilefni og fer sínu fram óháð ráðum viturra manna, og glatar að lokum lífi sínu án þess að nokkur syrgi hann.
Þormóður lifir hann, en í stað þess að verða sigursæl hetja, fylgir hann Ólafi helga í útlegð og síðar í herför til baka til Noregs. Þar deyr hann í Stiklarstaðabardaga árið 1030, og samkvæmt frásögninni fer hann særður inn í tjaldbúðir eftir bardagann, flytur kvæði og fellur að lokum söguleg og skáldleg andlátssena sem hefur vakið mikla athygli. Þannig verður Þormóður hluti af píslarsögu Ólafs helga, en samt heldur sagan uppi kaldhæðinni fjarlægð: hann sigrast ekki á örlögum sínum, heldur deyr í þjónustu annars manns og í þjónustu hugmyndar sem hann virðist aldrei sjálfur fullkomlega skilja.
Fræðimenn hafa lengi velt því fyrir sér hvort Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld hafi verið raunverulegar persónur eða hugarfóstur sagnahöfundar. Þorgeir virðist að líkindum vera skáldsögupersóna mótuð sem andhetja og tákn fyrir ofstækið í vígamennsku. Þormóður er hins vegar líklegri til að hafa verið til í raun. Nokkur kvæðabrot eru varðveitt sem eru honum eignuð, og bendir það til þess að minning um Þormóð sem skáld og bardagamann hafi lifað sjálfstætt utan Fóstbræðra sögu.
Þótt sagan sé rituð í formi hefðbundinnar hetjusögu, virðist hún fela í sér dulbúna gagnrýni á hetjudýrkun og ofbeldishugsjón hinnar fornu heiðursmenningar. Margt bendir til þess að höfundurinn hafi verið menntaður klausturmaður hugsanlega við Munkaþverárklaustur eða Þingeyrarklaustur. Slíkum höfundi hefði ekki verið frjálst að kveða upp opna dóma um vígamennsku og ofbeldi, en hann gat látið frásögnina tala sjálfa, með því að sýna hvernig slíkur lífsstíll leiðir ekki til heiðurs og dýrðar heldur til einmanaleika og þagnar. Það sem sagan segir ekki er oft það sem hún meinar.
Þetta dularfulla háð og kristna gagnrýni, sem kraumar undir yfirborði fornsögunnar, á sér hugsanlega engan beinan fyrirmyndartexta, og Fóstbræðra saga gæti því verið elsta andhetjusagan í evrópskum bókmenntum.
Á 20. öld tekur Halldór Laxness þessa sögu upp á ný og skrifar Gerplu (1952) meðvitandi um fornt form og siðferðisleg átök þess. Þar er háðið gert sýnilegt og meitlað, og andhetjan fær loksins sitt eigið svið. Í Gerplu verða hetjur fáránlegar, ofbeldi tilgangslaust, og konungur valdalaus í sjálfsblekkingu. Gerpla er ekki aðeins endursköpun Fóstbræðra sögu heldur einnig háðsádeila á sjálfa þjóðarímyndina og þá hættu sem felst í blindri dýrkun sögulegs stórmennskuhugsunarháttar.
Segja má að Fóstbræðra saga og Gerpla marki upphaf og fullkomnun á langri hefð íslenskra andhetjubókmennta. Báðar birta þær siðferðilega og samfélagslega gagnrýni önnur í dulbúningi og hin í skýru háði.
Athugasemdir
Fín grein.
Birgir Loftsson, 1.8.2025 kl. 18:32
Sæll Ragnar.
Þakka þér þennan áhugaverða pistil.
Höfundur Gerplu hefur margsinnis hafnað því að honum hafi verið grín í hug við samningu Gerplu.
Einnig hefur hann haldið saman minnum úr Heimsstyrjöld síðari sem eins konar andminnum við það sem best er vitað um Síðari heimsstyrjöld.
En bestu þökk fyrir þennan pistil.
Bestu kveðjur.
Guðni Björgólfsson, 1.8.2025 kl. 20:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning