Frá klaustri til kaldhæðni: Fóstbræðra saga og Gerpla

Fóstbræðra saga, sem talin er rituð um miðja 13. öld (líklega á árunum 1250–1270), er ein sérkennilegasta fornsaga okkar Íslendinga. Hún fjallar um hina frægu fóstbræður Þormóð Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson, en í stað þess að hylla þá sem glæstar hetjur, er dregin upp mynd af mönnum með bjagað raunveruleikamat, sem eru félagslega einangraðir og haldnir hættulegu stolti og ofbeldisþrá. Þorgeir vegur af litlu tilefni og fer sínu fram óháð ráðum viturra manna, og glatar að lokum lífi sínu án þess að nokkur syrgi hann. 

Þormóður lifir hann, en í stað þess að verða sigursæl hetja, fylgir hann Ólafi helga í útlegð og síðar í herför til baka til Noregs. Þar deyr hann í Stiklarstaðabardaga árið 1030, og samkvæmt frásögninni fer hann særður inn í tjaldbúðir eftir bardagann, flytur kvæði og fellur að lokum – söguleg og skáldleg andlátssena sem hefur vakið mikla athygli. Þannig verður Þormóður hluti af píslarsögu Ólafs helga, en samt heldur sagan uppi kaldhæðinni fjarlægð: hann sigrast ekki á örlögum sínum, heldur deyr í þjónustu annars manns og í þjónustu hugmyndar sem hann virðist aldrei sjálfur fullkomlega skilja.

Fræðimenn hafa lengi velt því fyrir sér hvort Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld hafi verið raunverulegar persónur eða hugarfóstur sagnahöfundar. Þorgeir virðist að líkindum vera skáldsögupersóna – mótuð sem andhetja og tákn fyrir ofstækið í vígamennsku. Þormóður er hins vegar líklegri til að hafa verið til í raun. Nokkur kvæðabrot eru varðveitt sem eru honum eignuð, og bendir það til þess að minning um Þormóð sem skáld og bardagamann hafi lifað sjálfstætt utan Fóstbræðra sögu.

Þótt sagan sé rituð í formi hefðbundinnar hetjusögu, virðist hún fela í sér dulbúna gagnrýni á hetjudýrkun og ofbeldishugsjón hinnar fornu heiðursmenningar. Margt bendir til þess að höfundurinn hafi verið menntaður klausturmaður – hugsanlega við Munkaþverárklaustur eða Þingeyrarklaustur. Slíkum höfundi hefði ekki verið frjálst að kveða upp opna dóma um vígamennsku og ofbeldi, en hann gat látið frásögnina tala sjálfa, með því að sýna hvernig slíkur lífsstíll leiðir ekki til heiðurs og dýrðar – heldur til einmanaleika og þagnar. Það sem sagan segir ekki er oft það sem hún meinar.

Þetta dularfulla háð og kristna gagnrýni, sem kraumar undir yfirborði fornsögunnar, á sér hugsanlega engan beinan fyrirmyndartexta, og Fóstbræðra saga gæti því verið elsta andhetjusagan í evrópskum bókmenntum.

Á 20. öld tekur Halldór Laxness þessa sögu upp á ný og skrifar Gerplu (1952) – meðvitandi um fornt form og siðferðisleg átök þess. Þar er háðið gert sýnilegt og meitlað, og andhetjan fær loksins sitt eigið svið. Í Gerplu verða hetjur fáránlegar, ofbeldi tilgangslaust, og konungur valdalaus í sjálfsblekkingu. Gerpla er ekki aðeins endursköpun Fóstbræðra sögu heldur einnig háðsádeila á sjálfa þjóðarímyndina og þá hættu sem felst í blindri dýrkun sögulegs stórmennskuhugsunarháttar.

Segja má að Fóstbræðra saga og Gerpla marki upphaf og fullkomnun á langri hefð íslenskra andhetjubókmennta. Báðar birta þær siðferðilega og samfélagslega gagnrýni – önnur í dulbúningi og hin í skýru háði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Fín grein.

Birgir Loftsson, 1.8.2025 kl. 18:32

2 Smámynd: Guðni Björgólfsson

Sæll Ragnar.

Þakka þér þennan áhugaverða pistil.

Höfundur Gerplu hefur margsinnis hafnað því að honum hafi verið grín í hug við samningu Gerplu.

Einnig hefur hann haldið saman minnum úr Heimsstyrjöld síðari sem eins konar andminnum við það sem best er vitað um Síðari heimsstyrjöld.

En bestu þökk fyrir þennan pistil.

Bestu kveðjur.

Guðni Björgólfsson, 1.8.2025 kl. 20:21

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Takk fyrir fína umfjöllun. Einkenni á góðri list er að hún er margræð og stundum þverstæðukennd. Þetta getur verið frústerandi en er líka spennandi. Hér er til dæmis hluti úr þriðja kafla Fóstbræðra sögu sem virðist vera á skjön við hina duldu gagnrýni á hetjuskap víkinga sem þú fjallar um. Hér virðist hinn kristni höfundur setja trú hins villta víkings Þorgeirs á mátt sinn og megin í kristið samhengi:

Sýndist öllum mönnum þeim er heyrðu þessa tíðindasögn sjá atburður undarlegur orðinn að einn ungur maður [Þorgeir Hávarsson] skyldi orðið hafa að bana svo harðfengum héraðshöfðingja og svo miklum kappa sem Jöður var. En þó var eigi undarlegt því að hinn hæsti höfuðsmiður hafði skapað og gefið í brjóst Þorgeiri svo öruggt hjarta og hart að hann hræddist ekki og hann var svo öruggur í öllum mannraunum sem hið óarga dýr. Og af því að allir góðir hlutir eru af guði gervir þá er öruggleikur af guði ger og gefinn í brjóst hvötum drengjum og þar með sjálfræði að hafa til þess er þeir vilja, góðs eða ills, því að Kristur hefur kristna menn sonu sína gert en eigi þræla en það mun hann hverjum gjalda sem til vinnur.

Wilhelm Emilsson, 1.8.2025 kl. 21:38

4 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Birgir, Guðni og Wilhelm. Takk fyrir innlitið og hafið þakkir fyrir lesturinn.

Ég byrja hér á svari til Guðna: 

Það sjónarmið að höfundi Gerplu hafi ekki verið grín í huga við samningu verksins er vissulega vel skiljanlegt, ekki síst í ljósi þess tíðaranda sem hún er skrifuð í. Á tímum þegar minningar um síðari heimsstyrjöld voru enn ferskar og skuggamyndir alræðis, hvort sem um var að ræða ímynd Hitlers eða Stalíns, réðu miklu um hvernig menn hugsuðu um vald, ábyrgð, manngildi og hetjudáðir.

Höfundurinn, sem vissi betur en flestir hversu hættulegt það getur verið þegar hugmyndir um hetjuskap og fórnir eru settar í þjónustu hugmyndafræði alræðis, nálgast efnivið sinn með beittum gagnrýnisaugum, en líka, held ég, með þeirri tvíræða sambandi af virðingu og fyrirlitningu sem góðir ádeiluhöfundar hljóta bera fyrir því sem þeir afhjúpa. Gerpla er skrifuð af manni sem trúði á mátt orðsins og hlífði ekki sjálfum sér í leit að sannleikanum.

Í þessu sambandi rifjast fyrir mér saga af austfirskum Stalínista sem, á banalegu sinni, var beðinn fyrirgefningar af pólitískum andstæðingi sínum vegna brígslyrða sem fallið höfðu í hita pólitískrar baráttu. Stalínistinn svaraði: "Það sem þú hefur sagt um mig get ég fyrirgefið, en það sem þú hefur sagt um Stalín get ég ekki fyrirgefið." Það má segja að þessi viðbrögð lýsi vel þeirri alvöru og heift sem fylgdi umræðunni um leiðtoga og fórn. Í slíku andrúmslofti eftirstríðsára og kalds stríðs var ekki pláss fyrir mikið grín og pólitíska ádeilu þurfti að fela svo kyrfilega að það þurfti að leita svo langt sem til Ólafs helga til að finna heppilegan skotspón. 

Samtímahöfundar Laxness í Sovétinu þurftu að gæta sín og fela ádeiluna enn betur, s.s. Búlgakof í "Meistarinn og Margaríta". Raunar er ég ekki alveg viss hvar Halldór Laxness fann sjálfan sig hugmyndafræðilega á þessum tíma. Þetta er tíminn fyrir leyniræðu Krúsjoffs (1956) og fall Stalíns, en 14 ár liðin frá ritun Gerska ævintýrsins sem lofaði Sovétríkin. Kannski er lýsing Laxness á Þormóði Kolbrúnarskáldi persónulegri en margur hyggur?

Ragnar Geir Brynjólfsson, 2.8.2025 kl. 09:26

5 Smámynd: Arnar Þór Jónsson

Sæll Ragnar. Takk fyrir þessi flottu skrif. Gerpla er sennilega mesta afrek Halldórs Kiljan Laxness. Málfarið er stórkostlegt. Jón Helgason prófessor mun hafa yfirlesið handritið og sagt er að saman hafi þeir gætt þess að nota einungis orð sem til voru í íslensku máli á 12. / 13. öld.

Arnar Þór Jónsson, 2.8.2025 kl. 09:42

6 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Wilhelm, takk fyrir góða og djúphugsaða athugasemd.

Textabrotið sem þú dregur fram er stórkostlegt að mörgu leyti og mér finnst það minna um margt á háðsádeilu Voltaires í Birtingi (Candide), þar sem bjartsýn kenning Leibniz er teygð til hins fáránlega með ítrustu alvöru. Á yfirborðinu virðist höfundur Fóstbræðra sögu hér lofa hetjudáð Þorgeirs með afar kristilegu orðfæri, en þegar grannt er skoðað og textinn lesinn með Lectio Divina, þeirri gömlu og djúpstæðu lestraraðferð munkalífsins, opnast annað sjónarhorn.

Í þessum orðum: "En þó var eigi undarlegt því að hinn hæsti höfuðsmiður hafði skapað og gefið í brjóst Þorgeiri svo öruggt hjarta og hart að hann hræddist ekki og hann var svo öruggur í öllum mannraunum sem hið óarga dýr". Þar liggur lykillinn að skilningi textans. Lýsingin á Þorgeiri sem "óargadýri" er ekki bara myndræn heldur hleður textann andlegri spennu. Í biblíulegu samhengi táknar "óargadýr" andkristna valdið, til dæmis í Opinberunarbókinni 13. kafla þar sem dýr risið úr hafinu fær mátt sinn frá sjálfum drekanum, tákni hins illa. Líka má minna á Daníelsbók, þar sem villidýr tákna ofbeldisríki heimsins, og einnig orð Jesú um úlf í sauðargæru.

Kristnum, læsum, vel menntuðum og íhugulum miðaldalesanda gat því reynst augljóst að þessi "öruggi" Þorgeir, sem "ekki hræddist", líkist fremur djöfullegu ofurmenni en heilögum manni. Sá sem í framhaldinu segir að "Kristur hefur kristna menn sonu sína gert en eigi þræla" hljómar þá ekki lengur eins og guðrækinn höfundur, heldur fremur sem hinn fallni engill sem klæðist ljósi og hefur munninn fullan af réttlætingum í þágu ofbeldis.

Þannig er textinn dásamlega tvíræður. Þeir sem lesa hann í trú á mátt og megin fá sína hetjusögu. En þeir sem lesa í anda Lectio Divina, sjá í gegnum dýrðarklæðin og greina svip af antkristi.

Lectio Divina (lat. "guðrækinn lestur") er forn kristin aðferð sem þróaðist innan klaustursamfélaga, einkum í benediktínsku og síðar karmelítísku hefðinni. Hún á rætur sínar að rekja til fyrstu alda kirkjunnar en var formlega mótuð af heilögum Benedikt frá Núrsíu á 6. öld og síðar í skrifum heilags Gregoríusar og Guigo II, karþúsareglu. Aðferðin byggist á fjórum stigum:

Lectio, lestur textans,
Meditatio, íhugun merkingar hans,
Oratio, bæn sem sprettur úr textanum,
Contemplatio, hljóð og náin eining við Guð.

Líklegt er að íslenskir Benediktínamunkar á stöðum eins og Munkaþverá og Þingeyrum hafi tileinkað sér slíka lestrarvenju, þar sem hún var hluti af samevrópskri klausturhefð þeirra.

Bestu kveðjur og þakkir fyrir að halda umræðunni lifandi.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 2.8.2025 kl. 09:47

7 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Arnar Þór, bestu þakkir fyrir hlý orð og fróðlega ábendingu.

Ég tek heilshugar undir með þér, Gerpla er stórvirki og málfarslega með því besta sem ritað hefur verið á íslensku. Það er merkilegt að í stað þess að velja auðveldari leið, með nútímamáli eða skáldaleyfum, fóru höfundur og Jón Helgason þá erfiðu en göfugu leið að móta tunguna á fornum grunni, og gera það þannig að textinn lifnar við í meðvitund lesandans.

Mér finnst magnað við Gerplu að hún er ekki aðeins háð á hugmyndir, heldur líka háð í gegnum formið.  Þessi fornaldarsvipur veitir textanum trúverðugleika en um leið er hann rammaður í stíl sem gerir hinar hæpnu hugsjónir hetjanna óraunverulegri, og þannig býr málið sjálft til fjarlægð sem opnar fyrir gagnrýna íhugun.

Bestu kveðjur og þökk fyrir lesturinn

Ragnar Geir Brynjólfsson, 2.8.2025 kl. 10:56

8 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Kærar þakkir fyrir svarið, Ragnar Geir. Ég skil hvað þú átt við þegar þú talar um "guðrækinn lestur" (Lectio Divina). Ég er ekki 100% sannfærður um að það eigi við hér, en eitt af því skemmtilega og gagnlega við lestur bókmennta er að vera ekki alltaf 100% sammála. Ein af ástæðunum fyrir því að ég er ekki 100% sammála Lectio Divina túlkun textans sem ég vitnaði er annað sambærilegt textadæmi þar sem ég sé ekkert tækifæri til að nota þá aðferð--en það er að sjálfsögðu bara mín túlkun :)

Allir ágættu hans vörn, þeir er vissu hversu hraustlega hann varðist, og mæltu allir eitt um hans vörn og fræknleik að menn þóttust eigi hans jafningja fundið hafa. Þorgeir hjó hart og tíðum af miklu afli og öruggum hug og var honum sjálfum hugur sinn bæði fyrir skjöld og brynju og þykjast menn eigi vita þvílíka vörn sem Þorgeir hafði. Almáttigur er sá sem svo snart hjarta og óhrætt gaf í brjóst Þorgeiri og eigi var hans hugprýði af mönnum ger né honum í brjóst borin heldur af hinum hæsta höfuðsmið. Nú fyrir því að þeim Þorgrími reyndist meiri mannraun að sækja Þorgeir heldur en klappa um maga konum sínum þá sóttist þeim seint og varð þeim hann dýrkeyptur því að Þormóður hefir svo um ort að Þorgeir yrði fjórtán manna bani áður hann féll en tveir eru nefndir í Þorgeirsdrápu þeir er hann vó þar.

Wilhelm Emilsson, 3.8.2025 kl. 04:43

9 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir athugasemdina, Wilhelm.

Já, þessi tilvitnaði texti sýnir glöggt að höfundur sögunnar heldur sig við hefðbundið hetjusöguform. Fóstbræðra saga er, á yfirborðinu í efsta lagi sínu, sönn hetjusaga, líkt og ofurhetjusögurnar í dag, með öllu sem þeim fylgir: ofurmennskt hugrekki, einhliða dýrkun á fræknleik og óspart háð í garð andstæðingsins. Þessar frásagnir hafa ákveðið tímalaust aðdráttarafl, ekki síst fyrir unga karlmenn sem sækja í sterkari sjálfsmynd og áræðni í mótlæti.

Það gæti bent til þess að höfundurinn hafi verið sammála höfundinum eins og hann birtist í sögunni. Að hann hafi verið einlægur aðdáandi þessa forms og jafnvel sjálfur verið veraldlegur maður, ekki klausturmenntaður, með einfaldan eða valkvæðan skilning á kristinni trú. Mér kemur í hug hvernig heilagur Ignatíus af Loyola lýsti sjálfum sér á yngri árum: fyrir hann voru riddarasögur líf og yndi þar til hann lagði sverðið niður og hóf andlega vegferð sína. Textabrotið hér virðist fast í þessari dýrkun hetjunnar og er nær algjörlega laust við íhugul kristin gildi, öll áherslan er á frammistöðu, styrk og sigur.

Það gerir þó söguna ekki minna áhugaverða, þvert á móti gefur hún innsýn í dýpri menningarlög: þá spennu milli hetjuskáldskapar og kristins siðferðis sem svo margir miðalda­textar glíma við, meðvitað eða ómeðvitað.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 3.8.2025 kl. 08:10

10 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Kærar þakkir fyrir svarið, Ragnar Geir. Ég er 100% sammála því sem þú segir hér smile

Það gerir þó söguna ekki minna áhugaverða, þvert á móti gefur hún innsýn í dýpri menningarlög: þá spennu milli hetjuskáldskapar og kristins siðferðis sem svo margir miðalda­textar glíma við, meðvitað eða ómeðvitað.

Wilhelm Emilsson, 3.8.2025 kl. 18:29

11 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Kærar þakkir sömuleiðis, Wilhelm. Já, það er einmitt þessi spenna milli kristins siðferðis og hetjuskáldskapar sem gerir sögur eins og Fóstbræðra sögu áhugaverðar. Þær standa á mörkum tveggja menningarheima: annars vegar fornnorræns heiðurs- og hetjuhugsunar, hins vegar kristinnar auðmýktar og íhugunar. Og ekki spillir að Halldór Laxness skyldi taka við keflinu svo löngu síðar og semja sitt stórvirki, það bætir við enn fleiri möguleikum til skoðunar. 

Ragnar Geir Brynjólfsson, 3.8.2025 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband