Fimmtudagur, 31.5.2007
Fjallsperringur, hornriði og austantórur
Stundum er sagt að Sunnlendinga skorti allt loft, slíkt fyrirfinnist aðeins í norðlægari sveitum þessa lands. Samt sem áður eru ýmis nöfn notuð yfir vindinn á Suðurlandi, svo sem þessi:
Fjallsperringur var vindátt kölluð á Suðurlandi, norðaustan eða austan strekkingsvindur þegar skúrir voru á sunnanverðum austurfjöllum og þær náðu ekki að breiðast yfir láglendið.
Hornriði var austan vindátt kölluð þegar skúrir gengu upp yfir austurfjöllin og breiddust síðan út yfir láglendið.
Austantórur er austan vindátt í þungbúnu veðri eða skúraveðri með sólarglætum í austrinu.
Athugasemdir
Þessir pistlar þínir eru vel til fundnir og upplýsandi. Skrýtið þætti mér að heyra að nokkur undir 8ræðu notaði orð sem þessi í mín eyru. Samt fínn pistill.
MEIRA SVONA.
Eiríkur Harðarson, 1.6.2007 kl. 00:42
Takk fyrir það Eiríkur. Já - ég tek undir það sem þú segir, þessi orð eru líkast til á hröðu undanhaldi. það má segja að það sé ákveðin eftirsjá af þessum svipmiklu og frumlegu orðum. Segja má að um leið séu þetta eins orðs veðurlýsingar. Austantórur heyrist þó nokkuð oft ennþá en fjallsperringur og hornriði eru líkast til á hröðu undanhaldi. Það er hægt að leggja orðin þannig á minnið að Austantórur séu skúrir eða þungbúið veður með sólarglætum á austurfjöllunum, hornriði er þá nánast andheiti austantóranna, þ.e. þungbúin austanfjöll sem varpa skúrum yfir láglendið. Fjallsperringurinn er bil beggja, þ.e. skúrir á austurfjöllum en þurrt á láglendinu. Hornriðinn er þá aðsópsmestur enda er þessu veðri gefinn ákveðinn tildur- eða uppskafninshljómur með nafninu. Fjallsperringurinn vill vera eins og hornriðinn en nær því samt ekki. Austantórurnar eru ljóðrænasta orðið enda fela þær í sér ákveðna glætu.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 2.6.2007 kl. 08:16
Ekki kannast ég við fjallsperring eða hornriða. Aftur á móti las ég Austantórur og vestan í æsku minni ...
Hlynur Þór Magnússon, 2.6.2007 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.