Metanmáinn Títan

Á Títan er bálahvasst, fimbulkalt, himininn er appelsínugulur, gosvirkni spýtir metangasi út í loftjúpinn og sumir telja að "hraunið" samanstandi af ammoníaksblönduðu vatni! Yfirleitt er þar þurrt og kalt en á nokkurra alda fresti geisa þar ofboðsleg stórviðri, metanið þéttist og myndar ár og vötn. Hljómar ekki mjög spennandi. Líklega verða seint lögð drög að mannaðri för þangað.

Í desember og marsheftum  tímaritsins Sky and Telescope frá í fyrra (2006) eru fróðlegar greinar um niðurstöður rannsókna á Títan - einu af tunglum Satúrnusar.

Þangað til í júlí 2004 var Títan stærsta tungl reikistjörnunnar Satúrnusar hulinn heimur. En síðan þá hefur Cassini könnunarfarið frá NASA beint ratsjánni að tunglinu alls þrisvar sinnum af átta skiptum sem það hefur farið nálægt. Radarmyndir frá Cassini m.a. frá því 7. september ásamt niðurstöðum úr ferð Huygens könnunarfarsins sem Evrópska geimrannsóknarstofnunin sendi þangað eru að ljúka upp nýrri sýn á heim tunglsins. Huygens lenti á Títan hinn 14. janúar 2004. Títan er með lofthjúp og fast yfirborð líkt og t.d. jörðin og Mars. Hitinn á yfirborðinu var um -180 gráður en hæstur -86 gráður í 250 km. hæð. Loftþrýstingur var um 1,5 loftþyngd við yfirborð. Lofthjúpur Títan samanstendur að mestu af köfnunarefni líkt og lofhjúpur Jarðar, hann er líka „vökvaknúinn“ en á Títan er það metan (CH4) sem myndar vökvann en ekki vatn eins og á jörðinni.

Huygens farið varð vart við spennuhögg í 60 km. hæð sem gæti hafa stafað af eldingum. Vindstyrkur var mikill og á köflum hraðari en snúningur tunglsins, en slíkt þekkist líka á Venusi. Í 120 kílómetra hæð mældist vindstyrkurinn 430 km. á klukkustund. Lofthjúpurinn er lagskiptur og blésu vindar frá vestri til austurs niður í 7 km. hæð en þar fyrir neðan blésu þeir frá austri til vesturs. Í 5 km. hæð mældist lítill vindur eða aðeins um 3,5 km. á klst. Mælingar benda til að upphaflega hafi lofthjúpur Títan innihaldið mun meira köfnunarefni (nitrogen) en núna. Líklegt er talið að það hafi farið út í geiminn. Með því að mæla hlutfall kolefnis-12 á móti kolefni-13 ályktuðu vísindamennirnir að ástæða metansins væri ekki lífræn efnaskipti (biota) heldur gæfi þessi niðurstaða tilefni til að ætla að efnið bættist sífellt í andrúmsloftið, t.d. frá gosvirkni. Í lofthjúpnum fannst einnig ammoníak (NH3), "hydrogen cyanide" (HCN) og líklega nokkur önnur mólikúl með vetni og kolefni. Þetta eru fyrstu beinu vísbendingarnar sem finnast sem benda til að flókið lífrænt efni myndist í efnahvörfum í lofthjúpi Títan. Mælingar gefa til kynna að metan sé þrisvar sinnum þéttara við yfirborðið en uppi í lofthjúpnum en þar niðri þéttist það og myndar vökva.
Birtan á yfirborðinu er svipuð og hún er á jörðinni um 10 mínútum eftir sólarlag. Kvöldroðinn er blár og himininn er appelsínugulur. Yfirborðið er brúnt. Könnunarfarið lenti á stað þar sem gleypni yfirborðsins svipaði til blauts sands.
Radarmyndir Cassini frá 7. september sýna mynstur sem svipar til árfarvega og vatna. Samt greindist enginn vökvi í þessum farvegum. Af þessu hafa menn dregið þá ályktun að ekki hafi rignt nýlega á þessum stöðum. Þar sem aðeins lítið magn af sólarorku berst til yfirborðs tunglsins er talið að mjög lítið magn metans gufi upp á hverju ári - rétt nóg til að þekja tunglið allt með eins sentimeters djúpum metansjó. Því er talið að yfirborðið sé venjulega þurrt en þegar loftið verður mettað af metani myndist ofsaleg veður sem valdi því að mikill úrkomu kyngir niður á stuttum tíma. Ef köfnunarefnið kemur frá ammoníakseldfjöllum þá getur það skýrt fyrirbæri á yfirborðinu sem svipa til hraunlaga en er í raun ammoníaksblandað vatn. Ammoníak virkar sem frostlögur á vatnið og veldur því að þessi efni flæða sem "hraun" um yfirborðið.

Títan er því greinilega athyglisverður staður, en ekki að sama skapi neitt spennandi fyrir okkur mannfólkið að vera á.

Í nóvember 2006 hefti tímaritsins Astronomy (bls. 30) er sagt frá nýjum myndum sem hafa borist frá Cassini. Þær voru teknar 21. júlí sl. Myndirnar voru af heimskautasvæðum Títan og sýna dökka fleti sem vísindamenn telja að geti verið metanvötn. „Vötnin“ sýna engin frávik á radar sem bendir til að um slétta vökvafleti sé að ræða. Vötnin eru sum hver um 30 kílómetra í þvermál og þau eru á svæði sem er milli 75° og 80° norðlægrar breiddar. Mörg eru egglaga eða í beygjum en önnur líkjast eldgígum. Þetta er talið renna stoðum undir þá tilgátu að metanregn falli á Títan. Endurteknar myndir af sömu svæðum munu renna frekari stoðum undir þessar kenningar. Ef í ljós kemur að um vökva er að ræða þá er Títan eini þekkti staðurinn í sólkerfinu utan jarðar þar sem yfirborðsvökvi hefur fundist. Greininni í Astronomy fylgir mynd og hún líkist mest loftmynd af Flóanum - lágsveitum Árnessýslu af því sem ég hef séð af slíkum loftmyndum. Dökkir óreglulegir fletir á ljósari bakgrunni.

Höfundur er áhugamaður um málefnið.

Heimildir:
"Understanding Titan's Terrain", Sky and Telescope, desember 2005. Bls. 18.
"Titan Revisited“, Sky and Telescope, mars 2006. Bls. 16


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband