Færsluflokkur: Heilbrigðismál
Sunnudagur, 6.6.2010
Ríkið greiðir fyrir kynskiptiaðgerðir en ekki tannréttingar
Vísir.is greinir frá því hér að hver kynskiptiaðgerð sem framkvæmd er kosti ríkissjóð um eina milljón króna. Samkvæmt fréttinni er fenginn erlendur læknir til að framkvæma fjórar slíkar aðgerðir hér heima. Aðgerðirnar flokkast undir lýtaaðgerðir.
Við þessar fréttir er ekki laust við að spurningar vakni um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Lýtaaðgerðir eru ekki nauðsynlegar til að viðhalda lífi fólks en þær geta samt bætt lífsgæði. Nú eru tannréttingar í mörgum tilfellum ekkert annað en lýtaaðgerðir en samt endurgreiðir hið opinbera mest 150 þúsund krónur vegna þeirra. Stærsta hlutann sem getur numið um 5-700 þús. króna þurfa foreldrar og aðstandendur barna að bera.
Hverjir ætli það séu sem ákveða hvaða lýtaaðgerðir skuli greiddar af ríkinu og hverjar ekki? Eru það ráðherrar, embættismenn í ráðuneytinu, heilbrigðisstarfsfólk, eða eru það málefnahópar þeirra stjórnmálaflokka sem eru við völd hverju sinni?
Föstudagur, 4.6.2010
Gufugleypirinn getur nýst sem lofthreinsibúnaður
Laugardagur, 28.3.2009
Um siðferðileg álitaefni við upphaf lífs
Þó lítið beri á almennri umræðu um fóstureyðingalöggjöfina og ekki fréttist af því að stóru flokkarnir hyggist taka hana til endurskoðunar þá þarf það ekki að þýða að um hana ríki breið og almenn sátt. Þessi umræða er viðkvæm því þar takast á öndverð sjónarmið m.a. með tilliti til þess hver staða fóstursins er á fyrstu vikunum og hvort og hvenær beri að líta svo á að fóstur njóti persónuverndar.
Núgildandi lög sem eru nr. 25, frá 22. maí 1975 heimila fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Fóstureyðing felur í sér deyðingu okfrumu eða fósturs sem er sjálfstætt líf og til að þetta geti orðið þarf að gera læknisaðgerð. Þarna er því verið að beita læknisþekkingu og sjúkrahúsaðstöðu til neyðarlausnar á aðstæðum sem metnar eru vandamál af félagslegum ástæðum. Hér er því spurning hvort ekki sé ástæða til að yfirfara og endurmeta í ljósi reynslunnar hvort ekki sé hægt að greiða úr hinu félagslega vandamáli með félagslegum úrræðum, frekar en að beita læknisaðgerðum.
Í lögunum segir ennfremur:
Áður en fóstureyðing má fara fram, er skylt að konan, sem sækir um aðgerðina, hafi verið frædd um áhættu samfara aðgerðinni og hún hafi hlotið fræðslu um, hvaða félagsleg aðstoð henni stendur til boða í þjóðfélaginu. Öll ráðgjöf og fræðsla skal veitt á óhlutdrægan hátt.
Við þennan lestur vaknar sú spurning hvaða aðili það sé sem á að veita fræðsluna. Ef það er aðili á vegum sjúkrahússins sem hana framkvæmir þá er spurning hvernig sá aðili á að geta veitt fullkomlega óhlutdræga fræðslu því hann er jafnframt hagsmunaaðili, þ.e. hefur atvinnuhagsmuni, óbeina þó, af því að þessar aðgerðir séu framkvæmdar. Með því að segja þetta er ég ekki að halda fram að fræðslan hafi verið hlutdræg en það ættu menn að sjá ef þeir skoða málið að það er sjálfsagt að bæta því í lögin að óháður aðili eigi að standa að þessari fræðslu. Hver gæti hugsanlega tapað á þannig óhlutdrægni? Líklega enginn.
Orðið sem notað er yfir aðgerðina 'fóstureyðing' er einnig í sjálfu sér vandamál því þessi orðanotkun breiðir yfir hinn raunverulega verknað sem felur í sér að binda enda á líf sem sannanlega er mannlegt. Deyðing hlýtur að vera sársaukafull eða í það minnsta erfið, svo vægt sé til orða tekið, fyrir það líf sem fyrir henni verður. Að nota orðið 'eyðing' yfir það að binda enda á líf sem sannanlega er mannlegt þó það sé ungt er óvirðulegt og hlutgerir fóstrið. Slík hlutgerving á mannlegu lífi er lítillækkandi og stendur í vegi upplýsingar, en gefur meðvirkni undir fótinn. Orðið 'meðgöngurof' sem lagt hefur verið til er heldur skárra en 'fóstureyðing' því það er ekki jafn óvirðulegt þó það, eins og 'fóstureyðing' haldi áfram huliðshjálmi yfir því sem raunverulega fer fram. Nær væri að tala um fósturdeyðingu.