Færsluflokkur: Ljóð eftir Brynjólf Guðmundsson
Sunnudagur, 25.11.2007
Dagar frostrósanna
Þessa dagana hafa frostrósir myndast á þeim gluggum þar sem enn er einfalt gler og upphitun lítil svo sem í ýmsum gripahúsum. Áður fyrr mynduðust frostrósir á gluggum híbýla fólksins, svo sem á gluggum baðstofanna og er slíkt enn í manna minni. Ein heimild um það er eftirfarandi ljóð eftir föður minn Brynjólf Guðmundsson sem lengi bjó á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi. Hann er fæddur og uppalinn á bænum Kolsholtshelli í Villingaholtshreppi, og bjó þar sín fyrstu búskaparár áður en hann flutti að Galtastöðum. Þar á bæ var áður gömul baðstofa með torfþaki og glugga með einföldu gleri.
Frostrós
Ég ligg lítill drengur
í gömlu baðstofunni
horfi á kvistina
í súðinni taka á sig
margskonar myndir
Fjöll tröll og álfa
ævintýraheimur
á baðstofusúðinni
Laufblað á glugga
Ég rís upp til
að taka það af
Finn aðeins kalt gler
Rétt seinna
Fullkomin frostrós
með puttafar
á einföldu gleri
Tvöfalt gler
engin frostrós
(Desember 2002)
Ljóðið birtist áður á vefsetrinu vina.net: http://www.vina.net/index.php/brynjolfur/2002/12/02/frostros
Ljóð eftir Brynjólf Guðmundsson | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 10.11.2007
Ásbúðir
Ljóð eftir Brynjólf Guðmundsson:
Ásbúðir
Borgarís skammt frá
Konungur íshallarinnar
andar köldu á landið
þoka breiðist yfir ströndina
Kvöldganga
fjörugrjótið
syngur við
fætur okkar
Hafið leikur
undir sinn
þunga óð við
sker og klappir
Kollur á eggjum
blikar við bakkann
bíða eftir að
ungar gári vatnið
Í fjarlægð
gagg í lágfótu
bíður færis að
færa björg í bú
Ásbúðir
töfraland
náttúrunnar
á Skaga
Birtist fyrst í júní 2005: http://www.vina.net/index.php/brynjolfur/2005/07/07/asbueir
Ljóð eftir Brynjólf Guðmundsson | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)