Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Heklugosið 17. ágúst 1980

Dagurinn 17. ágúst 1980 var sérstakur því þann dag höfðum við nokkrir vinir ákveðið að ganga á Heklu. Við ætluðum þó ekki að fara ef veður yrði óhagstætt og því átti einn okkar að hringja í hina og setja gönguna á eða af eftir aðstæðum. Dagurinn rann upp bjartur og fagur og ég hlakkaði mikið til að fá símtalið góða því mig hafði langað til að ganga á Heklu í mörg ár. Ég hafði þá átt heima alla ævi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi) og Hekla því í sjónmáli alla daga þegar skyggni var hagstætt. En mínútur urðu að klukkustundum og fyrr en varði var komið hádegi. Ég skildi ekkert í vini mínum að slá fjallgönguna af í þessu góða veðri. En síðar kom í ljós að hann hafði sofið yfir sig. Við pabbi ákváðum því að fara í staðinn á hestamannamót sem var þennan dag á Hellu og lögðum af stað. Þegar við vorum komnir framhjá Skógsnesi stoppaði hann og sagði að Hekla væri farin að gjósa. Og viti menn gosmökkurinn steig hátt í loft og greinilegt að þetta var stórt og mikið gos. Við keyrðum upp að Heklu og skoðuðum gosið frá veginum. Ómar Ragnarsson kom á lítilli flugvél, lenti á veginum og tók svo á loft aftur. Þetta var minnisstæður dagur. Pabbi orti ljóðið Hekla í tilefni hans.

Það var ekki fyrr en síðar sem ég fór að hugsa með æ meira þakklæti til svefngleði vinar míns og er ekki viss um að ég væri til frásagnar ef hann hefði ekki sofið yfir sig. Allar götur síðan hef ég látið mér nægja að dáðst að Heklu úr fjarlægð og hef aldrei síðan ráðgert göngutúr upp á hana og ætla aldrei að fara þangað.

Þessi saga rifjaðist upp fyrir mér enn einu sinni um daginn þegar Magnús Tumi jarðfræðingur sagði að gjósi Hekla á sumardegi eins og árið 1980 geti tugir manna verið á göngu á fjallinu. Hann sagði að ferðamenn hafi verið á fjallinu þegar það gos hófst og þeir hafi átt fótum fjör að launa. Alls ekki sé víst að fólk á fjallinu finni þær hreyfingar sem eru undanfari goss. Hekla sé fræg fyrir hvað eldgosin byrja snöggt. Líklega er þessi drottning íslenskra eldfjalla best og fallegust í fjarlægð.


Hrafnarnir komnir aftur

Nú hef ég fregnað að hrafnar hafi sést hér á Selfossi. Það var á föstudagsmorguninn síðasta 25. júlí sem tveir hrafnar sáust leika sér í uppstreyminu yfir nýja  sjúkrahúsinu á Selfossi.  Þetta eru fyrstu hrafnafréttir sem ég fæ í nokkurn tíma en eins og bloggvinum mínum er kunnugt um þá virtust þeir hafa horfið af svæðinu eftir jarðskjálftana.

Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar er brýnt

í nýlegum niðurskurðaráætlunum RÚV sést glöggt að RÚV er í kjarnann það sem það hefur alltaf verið og heitið: Útvarp Reykjavík. Ekki er nóg með að nú sé skorið niður á svæðisstöðvunum fyrir vestan, norðan og austan. Hér fyrir sunnan er engin stöð til að loka eða skera niður hjá. Ríkisútvarpið hefur af skiljanlegum ástæðum sinnt nágrenni sínu mest og best í menningarlegu tilliti. Þetta þarf að breytast og það getur breyst því forsendur ljósvakamiðla eru allar aðrar  en þær voru árið 1930 en í grunninn er hugmyndafræðin á bakvið RÚV enn sú sama og þá. Menningarlegt sjálfstæði landsbyggðarinnar mun ekki nást nema landsbyggðin eignist sína eigin fjölmiðla og menningarlegt sjálfstæði er forsenda fyrir öðru sjálfstæði. Þeir sem styðja áframhaldandi stjórnlausan vöxt borgarinnar á suðvesturhorninu geta haldið áfram að styðja RÚV. Þeir sem eru á annarri skoðun ættu að fara fram á það að þeir peningar sem núna renna til RÚV renni til fjölmiðla sem staðsettir eru í þeirra eigin nágrenni.


Styrkir til fleiri aðila en RÚV stuðla að fjölbreytni og jafnræði í menningarmálum

Ráðleggingar OECD til íslensku ríkisstjórnarinnar um að hún eigi að draga úr ríkisumsvifum ættu að geta verið ríkisstjórninni kærkomið tækifæri og rökstuðningur fyrir því að dreifa áherslum sínum í menningarmálum. Til dæmis gæti hún skorið á náin tengsl sín við RÚV og dreift þeim styrk sem þessi eina stóra stofnun hlýtur til allra ljósvakamiðlanna í réttu hlutfalli við framboð þeirra af innlendu efni. Slíkt fyrirkomulag myndi tryggja bæði fjölbreytni og jafnræði og engin sérlög þyrfti að smíða fyrir RÚV.

Yfirlit yfir pistla mína um RÚV

Á síðastliðnum mánuðum hef ég tekið saman nokkra pistla sem varða málefni Ríkisútvarpsins. Þeir eru sem hér segir í tímaröð, nýjasti fyrst og sá elsti síðast:

Pistlarnir  Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf á óvart og Óviðunandi frammistaða RÚV í óveðrinu á Austurlandi koma inn á öryggishlutverk RÚV í þeim tilgangi að rökstyðja það að öryggi er betur tryggt með fleiri og fjölbreyttari ljósvakamiðlum frekar en fáum og einhæfum.

Pistillinn Enn birtast vankantar á fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins ohf fjallar um erfiða stöðu RÚV í kjölfar nýju ohf laganna en með þeim flýtur stofnunin í tómarúmi milli hins opinbera og einkageirans.

Hlúa þarf betur að hljóðrituðum menningararfi og Stofnun ljósvakasafns er löngu tímabær fjalla um nauðsyn þess að ríkið tryggi hljóðritasafn RÚV með öðrum hætti en að varðveita hann hjá stofnuninni. Það myndi skjóta öruggari fótum undir menningararfinn auk þess að tryggja jafnan aðgang að honum.

RÚV - og hin rausnarlegi styrkur Björgólfs fjallar einnig um erfiða stöðu RÚV eftir ohf-væðinguna.

RÚV - Menningarleg Maginotlína fjallar um það að menningarleg markmið RÚV eru ekki að nást því hugmyndafræðin að baki stofnuninni þarfnast endurskoðunar. Komið er með tillögur til úrbóta.

Tæknin breytir stöðunni varðandi ljósvakamiðlun til dreifðra byggða fjallar um það hvernig tæknin breytir stöðunni hvað varðar miðlun efnis til dreifðari byggða og dregur þannig úr mikilvægi þess að einn mjög öflugur aðili sjái bæði um framleiðslu og dreifingu efnis.

Framtíðarmöguleikar RÚV fjallar um gallað fyrirkomulag RÚV m.v. nýju ohf lögin og nauðsyn þess að rjúfa tengsl stofnunarinnar við valdstjórnina, en nýju ohf lögin staðfesta þessi tengsl.

Aðalbjörg Sigurðardóttir um RÚV árið 1944 er yfirlit yfir gagnrýni merkrar kvenréttindakonu og óháðrar menntakonu Aðalbjargar Sigurðardóttir á RÚV sem hún flutti í útvarpinu árið 1944. Í rauninni er gagnrýni hennar ennþá gild því lítið hefur breyst síðustu 64 árin.

Amy Goodman - orð í tíma töluð í og fyrir RÚV fjallar um athugasemdir bandarísku fréttakonunnar Amy Goodman um fjölmiðla og nauðsyn þess að þeir séu óháðir og kalli valdamenn til ábyrgðar.

Jóra í Jórukleif slær í borðið - ástæðan var léleg dagskrá RÚV sjónvarpsins var pistill sem ég skrifaði í tilefni af jarðskjálfta sem varð nálægt Selfossi í október 2007 en frásögn af honum rataði ekki inn í kvöldfréttir RÚV Sjónvarps.

Fordómar í fjölmiðlum - hvar stendur RÚV? er pistill sem skrifaður var í tilefni af síendurteknum fréttum RÚV af furðumennum á Filippseyjum, fréttum sem voru valdar í erlent fréttayfirlit á föstudaginn langa ár eftir ár.

 


Hvar eru hrafnarnir á Selfossi?

Mér var nýlega bent á af manni* sem hefur gaman af að fylgjast með hröfnum að hann hefði ekki séð neina hrafna á Selfossi eftir jarðskjálftana. Eru einhverjir Selfyssingar sem lesa þessar línur sem hafa séð hrafna á Selfossi eftir 29. maí síðastliðinn? Eins og menn vita þá hefur hingað til verið talsvert af hröfnum á Selfossi. Þeir halda trúlega til í fjallinu og fljúga niður í byggðina í leit að æti. Oft eru þeir á sveimi yfir háum húsum á svæðinu svo sem Selfosskirkju, húsi Fjölbrautaskólans og Hótelinu en núna er eins og himininn hafi gleypt þá.

 --

* Hann heitir Brynjólfur Guðmundsson og var áður bóndi á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband