Laugardagur, 28.12.2024
Langbylgjan þagnar
Um nokkurra daga skeið hefur ekki heyrst nein sending frá langbylgjusendinum að Gufuskálum sem hefur sent út á 189 khz tíðni. Engin frétt þess efnis finnst á vef Rúv, þar eru allar fréttir um langbylgju ársgamlar eða eldri. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur byggt á þessari tækni frá upphafi.
Við öryggishlutverkinu eiga að taka um 230 FM sendar dreifðir víðs vegar um landið. Það fyrirkomulag hefur samt þá annmarka að ná ekki sömu dreifingu útvarpsmerkisins um okkar fjöllótta land.
Nú hefur verið rætt um að bæta meiri fjármunum í öryggismál en gert hefur verið vegna ýmissa ógna. Í þessu tilliti er ekki hægt að horfa framhjá því að langbylgjan er án hliðstæðu þegar kemur að því að dreifa öryggisboðum. Langdrægni hennar verður ekki mætt á neinn sambærilegan hátt, hvorki með FM sendum né kerfum sem byggja á netsambandi. Raunar er ofurtrú nútímans á netsambandi byggð á sandi því það sýnir sig æ ofan í æ að á meðal þess fyrsta sem fer þegar vá ber að dyrum er einmitt netsamband með öllum sínum þægilegheitum, hvort sem þau heita 4G, 5G eða GSM.
Sú leið hefur því miður ekki verið farin að uppfæra langbylgjumerkið í stafrænar útsendingar, sem eru með þeim hætti að hægt er að nýta gömlu sendana áfram en með minni orkuþörf. Sérstaklega er þetta miður því í dag er fáanlegt sérhannað kerfi fyrir langdrægni og neyðarboð á langbylgju eða miðbylgju svokallað DRM.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Ríkisútvarpið | Facebook
Athugasemdir
Mér var bent á að tilkynning um þessa lokun er að finna á öðrum stað á vef RÚV, nánar tiltekið hér:
https://www.ruv.is/um-ruv/i-umraedunni/2024-10-17-tilkynning-um-lokun-langbylgju-424925
Þar kemur eftirfarandi fram:
-----
Tilkynning um lokun langbylgju
Langbylgjuútsending RÚV á Gufuskálum á Snæfellsnesi hefur verið lögð niður. Þar með lýkur útvarpsútsendingum á langbylgju á Íslandi. Langbylgjuútsendingar frá Eiðum voru lagðar af 27. febrúar 2023.
17. október 2024 kl. 15:37, uppfært kl. 15:44
Öllum útvarpsútsendingum RÚV á langbylgju hefur verið hætt.
Öryggisútsendingar RÚV í útvarpi fara framvegis um FM-dreifikerfið.
Búið er að þétta FM-dreifikerfið mjög mikið á undanförnum árum.
Langbylgjumastrið á Gufuskálum, sem er hæsta mannvirki á Íslandi, hefur verið tekið úr notkun.
Dreifikerfi RÚV er mikilvægur hlekkur í almannavörnum landsins. Hlutverk öryggisútsendinga í útvarpi er að tryggja samband um allt land og á næstu miðum. Útvarpsútsending Rásar 2 á FM hefur tekið við öryggisútvarpsútsendingu RÚV.
Á undanförnum árum hefur FM-dreifikerfið verið byggt upp og fjölda sendistaða verið bætt við til þess að þétta kerfið. Varaaflsstöðvar hafa verið settar upp við alla stóra FM-senda og varaaflsþörf er leyst til skemmri tíma með rafhlöðum eða færanlegum rafstöðvum á þeim minni. Sendum hefur verið komið fyrir á hálendinu auk stórra senda á lykilstöðum fyrir sjófarendur. Á þeim stöðum sem FM-dreifikerfið nær ekki til þarf að nota aðrar leiðir til að ná sambandi, t.d. um gervihnattakerfi á borð við Starlink.
Öryggisútsendingar í útvarpi hafa verið á langbylgjunni í áratugi. Á þeim tíma hefur margt breyst í tæknilegu umhverfi. Stærsta breytingin er sú að fæstir landsmenn eiga nú útvarp sem tekur við langbylgjusendingum. Þá er almennt ekki langbylgjumóttaka í ökutækjum og hefur ekki verið um langt skeið. Útsendingarkerfi langbylgjunnar, ekki síst mastrið á Gufuskálum, er komið á aldur og mikill kostnaður fylgir endurbyggingu og öðrum tæknilegum uppfærslum á þessu kerfi.
Langbylgjumastrið á Gufuskálum er hæsta mannvirki á Íslandi, 412 metrar. Það var reist 1963 fyrir LORAN-C staðsetningarkerfi Breta og Bandaríkjamanna og
tekið undir langbylgjusendi RÚV árið 1997.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 28.12.2024 kl. 20:37
Kannski þykir einhverjum sem mat mitt á áreiðanleika netsambands á hættutímum vera full lítið. En fyrir þessu má leggja fram eftirfarandi röksemdir:
1. Netsamband er sjálfstætt kerfi sem liggur ofan á og reiðir sig alfarið á annað kerfi sem liggur undir en það er raforkukerfið. Netkerfið er algjörlega háð raforkukerfinu, sem þýðir að uppitími netkerfisins er skilyrtur af uppitíma raforkukerfisins. Ef raforkukerfið fellur út, þá fellur netkerfið út líka, óháð eigin áreiðanleika strax og varaafl þrýtur. Þetta krefst margföldun líkinda vegna þess að við þurfum að skoða líkur á því að báðir þættir séu virkir samtímis (bæði raforkukerfi og netkerfi í uppitíma). Jafnvel þó uppitími beggja kerfa sé metinn 99.9% þá verður uppitími netkerfisins ekki nema 99,8% því margfalda þarf líkurnar saman:
Uppitími netkerfisins=0.999×0.999=0.998001=~99,8%
Sökum flækjustigs beggja kerfa verða þau í heild sinni fremur óstöðug við fremur litlar truflanir. Dæmi: IP pakki sem er grunn-byggingareining samskipta á Internetinu sendur frá Selfoss til Reykjavíkur þarf að fara í gegnum 5-10 leiðabeina (rútera) sem allir þurfa rafmagn til að geta virkað. Jafnvel þó uppitími hvers rúters fyrir sig sé mjög hár þá eru líkurnar á því að pakkinn komist frá Selfossi til Reykjavíkur margfeldi sem minnkar uppitímann á sama hátt og sýnt var hér að framan.
2. Betur og betur kemur í ljós að fjölþáttaógnir nútímans ganga einmitt út á að eyðileggja og taka út raforkukerfin, sem auk annars hefur þau áhrif að taka út netsamband á því svæði sem raforku skortir, strax og varafl þrýtur.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 29.12.2024 kl. 08:53
Á sama hátt má finna líkurnar á því að allir 230 FM sendar Rúv séu virkir á einhverjum tímapunkti. Gefum okkur að uppitíminn sé mjög hár eða 99.9%. Við reiknum líkurnar á því að allir 230 FM-sendar séu virkir á sama tíma með því að taka tillit til þess að:
Hver sendir hefur eigin uppitíma:
P sendir =99.9%=0.999
Hver sendir er einnig háður raforkukerfinu með uppitíma en gefum okkur að uppitíminn sé mjög hár eða 99.9% því sendarnir eru búnir góðu varafli:
P rafmagn =99.9%=0.999
Heildaruppitími hvers sendis er fundinn með margföldun líkinda:
P sendir × P rafmagn er eins og áður 99.8% eða 0.998001.
Líkurnar á að allir 230 sendar séu virkir á sama tíma er þá veldisreikningur yfir líkurnar á einum sendi í gangi, því við gerum ráð fyrir að sendarnir séu sjálfstæðir með tilliti til bilana, en allir háðir rafmagni:
Skref-fyrir-skref útreikningur fyrir alla 230 sendana
P allir sendar virkir =(0.998001) í veldi 230
sem er um það bil 63.1%
Þetta sýnir að jafnvel með mjög háum uppitíma hvers sendis (99.9%) og raforkukerfisins (99.9%), þá lækka líkurnar á að allir séu virkir vegna fjölda senda og því hve háðir þeir eru rafmagni.
Ragnar Geir Brynjólfsson, 29.12.2024 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.