Framburður gervigreindar og íslenskan: Tækifæri til breytinga?

Nú þegar framburður gervigreindar stefnir óðfluga í að verða svo góður að litið verði til hans sem fyrirmyndar, er ekki úr vegi að staldra við. Það er vert að skoða þá möguleika sem þetta býður upp á, til dæmis að einfalda og leiðrétta atriði sem samkomulag gæti náðst um að laga. Dæmi um það er "kv"-hljóðbreyting þar sem skrifað er "hv". Með "kv"-hljóðbreytingunni verður ekki bara "hvar" og "hvenær" að "kvar" og "kvenær" heldur verða "hvalir" að "kvalir", "hveiti" að "kveiti" og "hvalaskoðun" að "kvalaskoðun"! Fyrir utan það að valda misskilningi í samskiptum geta svona hljóðbreytingar mjög líklega valdið erfiðleikum hjá fólki sem er að læra íslensku. 

Sú hugmynd að búa til staðlaðan framburð þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar, bæði í Danmörku og í Bretlandi, þar sem "Received Pronunciation" (RP) er formlegasta útgáfa af ensku og gjarnan kölluð "The Queen´s English" eða "BBC English". Hún hefur verið notuð sem staðall í mörgum kerfum sem byggja á samræmdum framburði. Í Danmörku er til ákveðin samsvörun við Received Pronunciation (RP), sem kallast oft "Standard Danish" eða á dönsku rigsdansk ("ríkisdanska"). Rigsdansk vísar til málfars sem almennt er talið hlutlausasta eða formlegasta afbrigði danskrar tungu og er gjarnan notað í opinberum tilgangi, fjölmiðlum og kennslu. 

Á íslandi hefur ekki verið innleiddur neinn einn staðall, og framburður hefur alltaf leyft ákveðna fjölbreytni. Þrátt fyrir það hafa ýmsir haft þá tilfinningu að til sé „ríkismál“ eða „útvarpsmál“ sem tengist fréttaþulum og opinberum ræðum. Íslenskan hefur þó almennt verið opnari fyrir fjölbreyttum framburði en mörg önnur tungumál, líklega vegna þess hve lítill munur er á framburði eftir landsvæðum.

Þó staðan sé þessi í dag, þá hefur verið reynt að koma á samræmdum íslenskum framburði. Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á útvarpsþátt þar sem sagt var frá verkefni sem fólst í því að fjármagna för nokkurra leikara til London, þar sem þeir lásu samræmdan framburð inn á hljómplötur. Þetta var líklega á 6. áratugnum. Þetta framtak fjaraði þó út að mestu, þó áhrifa þess hafi mögulega gætt innan leikarastéttarinnar. Ekki þarf annað en hlusta á hljómplötuna Dýrin í Hálsaskógi sem tekin er upp árið 1967 til að sannfærast um það. Á henni má heyra úrvalsframburð leikaranna Árna Tryggvasonar, Bessa Bjarnasonar, Baldvins Halldórssonar, Nínu Sveinsdóttur, Jóns Sigurbjörnssonar, Emilíönu Jónasdóttur, Ævars Kvaran, Gísla Alfreðssonar, Klemensar Jónssonar, Lárusar Ingólfssonar, Önnu Guðmundsdóttur og Margrétar Guðmundsdóttur. Athyglisvert er að enginn þeirra notar "kv"-framburð. Allir viðhalda góðum "hv"-framburði, þó heyrist hjá einhverjum að þessi framburður sé þeim ekki eðlislægur, sem gæti bent til að hann hafi verið tileinkaður með æfingu fremur en lærður frá barnæsku. 

Ástæður þess að þetta átak fjaraði út er að líkindum að finna í hinu pólitíska landslagi en töluverðan styrk og samstöðu þarf til að koma á einhverju í líkingu við þetta. Á síðari hluta 20. aldar varð áhersla á þjóðlega þætti að pólitísku feimnismáli að líkindum vegna áhrifa frá Seinni heimsstyrjöld. Það hefur líka verið viðkvæmt mál að skilgreina einhvern einn landshlutaframburð þannig að hann stæði framar öðrum og höfuðborgin var enn það ung að þar hafði ekki myndast sterkt málsvæði eins og hafði gerst í borgum erlendis. 

En þegar um er að ræða rödd vélræns talgervis þá er í raun ekki verið að mismuna neinum ef forsendurnar sem lagðar til grundvallar eru að skýra málið og lagfæra atriði sem bæði geta torveldað nám í íslensku og geta þar að auki valdið misskilningi milli þeirra sem færir eru í tungumálinu. 

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband