Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Ellimörkin?

Glæsikona lítur glaðlega til mín 

en gullfallegur og gljáandi pallbíll með nýrri tveggja hesta kerru í eftirdragi

sem rétt í þessu brunar líka hjá fangar samt athyglina.

Í búðunum litríkur matur, í baðherberginu vigtin

og á stöðinni einkaþjálfarinn sem glaðbeittur kemur mér í kjörþyngd.

Sykurlaust ávaxtamauk og dietkóla. 

Og á laugardagskvöldinu er það letistóllinn og

gömlu myndbandsspólurnar sem ekkert toppar.

Ég set vínýlinn á fóninn og nýt þess að hlusta á

Johnny Cash syngja 'Peace in the valley' og

hljómatöfrar heilla rispum blandaðir

eða kvæðamannafélagið Iðunn kveða nokkrar

góðar stemmur.  Gamall? - Nei - ekki ég.

 

 


Jóra í Jórukleif slær í borðið - ástæðan var léleg dagskrá RÚV sjónvarpsins

Í hádeginu í gær, nánar tiltekið kl. 12.06 varð all snarpur jarðskjálftakippur undir Ingólfsfjalli. Á vef Veðurstofunnar stendur að skjálftinn hafi verið um 3 stig en ef jarðskjálftagraf sömu stofnunar er skoðað sýnist skjálftinn vera nær 3,5 stigum. Á vefnum stendur ennfremur að skjálfti hafi fundist á Selfossi og er það nú ekki ofsagt því þegar þetta gerðist var ég staddur í kjallara Fjölbrautaskólans og áhrif skjálftans voru ótvíræð þar. Það var eins og mikið högg hefði verið rekið undir húsið og það nötraði merkjanlega.  Í grunnskóla hér á svæðinu frétti ég af því að stálpuð börn hafi orðið hrædd og þurfti hafi að róa þau.  

Í þessum jarðskjálfta sýndi metnaður RÚV - sjónvarps gagnvart Sunnlendingum sig enn og aftur því eftir því sem ég best veit var ekki minnst á hann einu orði í fréttunum klukkan 7 og þó grunar mig að marga hér á Selfossi a.m.k. hafi þyrst í nánari upplýsingar af því sem gerðist. Nei, útsendingin byrjaði á fregnum af skógareldum í Kaliforníu, ekki ómerku fréttaefni en aftur er það RÚV - ið sem bregst okkur Sunnlendingum fyrst þegar jarðskjálftar ríða yfir. Þetta kemur á tíma þegar við erum enn að jafna okkur á því að starfsstöð RÚV hafi verið lokað hér á Selfossi.

En það þýðir lítið að hafa skoðanir á RÚV - inu. Þetta er stöðin sem þjóðin er ánægðust með og treystir best þrátt fyrir því að hafa staðið sig slælega svo vægt sé til orða tekið á ýmsum sviðum. Því veldur trúlega mikið magn ímyndarauglýsinga sem dynja yfir landslýðinn með reglulegu millibili og kostaðar eru með rekstrarfé stofnunarinnar. Við látum þá segja okkur að þeir séu langbesta stöðin og síðan senda þeir okkur reikninginn fyrir kostnaðinum við "uppfræðsluna". Og það er reikningur sem allir verða nauðugir viljugir að hafa inni á kostnaðaráætlun sinni hvað sem þeim finnst um dagskrá og metnað báknsins.

Ég er samt viss um að ég er ekki einn um þessa skoðun því í gær eignaðist ég öflugan bandamann. Það er Jóra í Jórukleif og skessan sú arna bæði stappaði í hellisgólfið og barði í borðið sitt til að sýna vanþóknun. Á meðan hún hefur ekki tjáð sig neitt frekar um efnið geri ég því skóna að ástæðan hafi verið óánægja hennar með framandi dagskrárefni á engilsaxnesku máli og lítill metnaður RÚV - sjónvarpsins gagnvart hugðarefnum og lífi okkar Sunnlendinga.

 

 


Þannig verða fordómarnir til

Fyrir nokkrum mánuðum fórum við hjónin í matvöruverslun, sem alla jafna er ekki í frásögur færandi en í þetta skiptið gerðist atvik sem hefur orðið mér minnisstætt. En til að skilja það þarf nokkra forsögu.  Þannig er að konan mín er fædd á Filippseyjum en hún kom hingað til lands fyrir 15 árum. Við kynntumst síðan hér á landi og giftum okkur fyrir 13 árum. Skiljanlega er filippseyskur matur í uppáhaldi hjá henni en eins og kunnugir vita er brauðmeti ekki hátt hlutfall af fæðu filippseyskra. Ég aftur á móti borða töluvert brauð og um þetta leyti þá  bakaði ég töluvert í brauðvél.

Í sömu andrá og við gengum inn í búðina benti konan mín spyrjandi á brauðhleif og leit til mín. Ég skildi hana undir eins án þess að hún segði nokkuð. Hún var að spyrja hvort ég vildi kaupa brauð og þá auðvitað um leið hvort ég ætlaði að baka sjálfur. Ég hristi höfuðið og svaraði með snöggu "Nei" - því ég þekkti brauðbirgðir heimilisins betur en hún og var með fyrirætlun um að baka. Hún skildi mig auðvitað strax og fleiri orð fóru ekki á milli okkar eins og oft er hjá hjónum. En í því sem ég sagði þetta gekk hvatskeytlega framhjá okkur ljóshærð ung kona sem varð vitni að öllu sem á milli okkar fór. Skemmst er frá því að segja að hún leit til mín með svo eiturstingandi augnaráði að hjartað missti úr slag. Ég hef með sjálfum mér skemmt mér við þá tilhugsun að ef ég hefði verið fluga þá hefði ég steindrepist. Það sem hún sá var íslenskur karlmaður úti að versla með asískri konu. Konan benti spyrjandi á brauðið og karlinn hreytti út úr sér Nei-i. Því miður sá ég að við hjónin höfðum óafvitandi styrkt verulega þá ímynd í huga þessarar konu að eiginmenn asískra kvenna væru samansaumaðar og fyrirlitlegar karlrembur sem halda fast um pyngjuna og þverskallast við að kaupa brauð handa konum sínum.

Hvað getur fólk gert til að koma í veg fyrir svona atvik. Ég held því miður ekki neitt. Ef til staðar eru neikvæðar staðalmyndir af fólki  þá geta jafnvel smæstu atvik orðið til að styrkja þær í hugum þeirra sem ekki leggja stund á gagnrýna hugsun og horfa aðeins á yfirborðið.


Fordómar í fjölmiðlum - hvar stendur RÚV?

Grein Joanna Dominiczak í Mbl. föstud. 10. okt. 2007 er athyglisverð en hún segir að neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum um útlendinga hafi í för með sér afleiðingar fyrir saklaust fólk sem vilji lifa venjulega lífi. Í þessu sambandi er vert að rifja upp að á föstudaginn langa árið 2005 og nú síðast árið 2007 hefur því verið haldið fram í RÚV - Sjónvarpi að hápunktur páskahátíðarinnar á Filippseyjum felist í blóðugum krossfestingum. Orðrétt var sagt 6. apríl síðastliðinn:

„Þúsundir Filippseyinga og erlendra ferðamanna fylgdust með því þegar sjálfboðaliðar létu negla sig á kross í þorpinu San Petro Cudud á Filippseyjum í dag. Krossfestingin er hápunktur páskahátíðarinnar í þessu eina kaþólska ríki Asíu.“[Leturbr. RGB]

Nánari umfjöllun um þessar fréttir má sjá á á eftirfarandi tengli og í athugasemdum þar á eftir: [1] Í meginmálinu sem á eftir var lesið kom fram að kaþólska kirkjan á Filippseyjum fordæmdi þessar athafnir. Jafnvel þó þannig hafi verið reynt að gæta hlutleysis verður að segjast að með engu móti er hægt að líta svo á að feitletraða setningin geti skoðast sem raunsannur fréttaflutningur af trúarlífi á Filippseyjum. Þó það sé greinilega margbreytilegt þá er það samt svo að flestir Filippseyingar minnast krossfestingar Krists á föstudaginn langa rétt eins og aðrar kristnar og kaþólskar þjóðir, en ekki með því að horfa á krossfestingu eða að láta krossfesta sig. Það að ríkissjónvarpið stendur á þennan hátt að fréttinni núna þriðja árið í röð (og líklega eru árin enn fleiri) hlýtur að vekja furðu. Er áhuginn á trúarlífi þessarar þjóðar ekki meiri en svo að þessi frétt ein er talin nægja af því á árinu? Þetta orðalag fréttarinnar gefur líka tilefni til að óttast að þessi vanhugsaði fréttaflutningur hafi sett Filippseyinga í neikvætt ljós hér á landi og sér í lagi þá Filippseyinga sem aðhyllast kaþólska trú.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að skylduaðild landsmanna að einum fjölmiðli er úrelt og einnig sú hugmynd að ríkið styrki aðeins einn fjölmiðil. Þessi menningarstyrkur á að renna til útvarps- og sjónvarpsstöðva í réttu hlutfalli við hlutfall efnis sem flutt er á íslensku og það ætti að vera neytendum í sjálfsvald sett hvert þeir vilja að sinn styrkur renni.  Eins og staðan er í dag er RÚV algerlega án beins aðhalds neytenda, þar mæta áhrifamiklir stjórnmálamenn og auðmenn á 'drottningarpallinn' og útkoman er farin að verða næsta pínleg, ekki bara fyrir RÚV heldur fyrir okkur landsmenn í heild. Óskandi er að þessu ástandi linni sem allra fyrst.


Hversu mikinn þunga ber Ölfusárbrúin við Selfoss?

Nýlega sat ég í samkvæmi þar sem voru reyndir vörubílstjórar og talið barst að Ölfursárbrúnni. Í því spjalli sem þar fór fram komu fram vangaveltur um burðargetu Ölfusárbrúarinnar við Selfoss vegna aðstæðna sem þar skapast iðulega. Eins og flestum er kunnugt er hringtorg rétt við enda brúarinnar og þar mætast þrjár þjóðleiðir, ein niður á strönd til Eyrarbakka og Stokkseyrar önnur er leiðin til Hvergerðis og hin þriðja þjóðleiðin austur á bóginn. Þegar umferð er mikil myndast fljótt umferðartappi við hringtorgið og bílalestirnar teygja sig í allar áttir, niður Eyraveginn á Selfossi, upp að Fossnesi eða jafnvel enn lengra og svo líka austur. Við þessar aðstæður gerist það vitaskuld að fjöldi bíla getur teppst á brúnni, bíla sem komast hvorki áfram né afturábak og bíða þess að það losni um umferðina.

Þar sem Ölfusárbrúin við Selfoss er nokkuð stór þá gætu trúlega vel komist fyrir á henni allt að 3-4 dráttarbílar með tengivögnum ef tafir eru á umferðinni í báðar áttir, þ.e. bæði uppúr og niðurúr. Einn svona dráttarbíll gæti hæglega vegið um 50 tonn með farminum og þá vaknar spurningin: Getur Ölfusárbrúin borið 200 tonn fyrir utan eigin þyngd? eða 250 tonn? Fyrir stuttu hrundi brú í Bandaríkjunum og í kjölfar þess létu Bretar fara fram úttekt á brúm í Bretlandi. Hefur verið ráðist í slíkar aðgerðir hérlendis nýlega og hvað er vitað um burðargetu íslenskra brúa utan burðarþolsútreikniknga sem fram fóru þegar mannvirkin voru byggð?


Nauðsynlegt að lækka hámarkshraða á Suðurlandsvegi frá Hveragerði til Selfoss

Nú er ljóst orðið að pólitískur stuðningur er fyrir því að tvöfalda Suðurlandsveg og umtalsverðar vegabætur hafa þegar verið gerðar á honum frá Litlu kaffistofunni og upp að Hveradölum á síðustu árum en tíminn líður, dagarnir verða að mánuðum og alltaf fjölgar slysunum á þessari leið.

Einn hættulegasti kafli leiðarinnar er að mínu mati vegurinn milli Hveragerðis og Selfoss.  Ástæða þess að ég segi þetta eru aðallega þrjár.  Sú fyrsta er að vegurinn er bugðóttur alla leiðina. Í öðru lagi skiptast á aflíðandi hæðir og lægðir og í þriðja lagi er þarna fjöldi afleggjara sem allir koma þvert inn á aðalbrautina án nokkurrar lækkunar á hámarkshraða eða umferðareyja.  Samlegðaráhrif þessara þriggja þátta gera að verkum að leiðin þarna um er vægt til orða tekið stórhættuleg.

Svæðið þarna er þekkt slysasvæði og því er mér fyrirmunað að skilja af hverju þarna er enn 90 kílómetra hámarkshraði. Ef svæðið er borið saman við Reykjanesbrautina t.d. hjá Vogum þá eru þar umferðareyjur og hámarkshraðinn lækkaður kringum vegamótin. Af hverju er þetta ekki gert í Ölfusinu? Þetta er ekki nema um 15 km. leið og tímatapið á þessum vegarspotta af því að færa hámarkshraðann niður í 80 allan kaflann eða í 70 nálægt afleggjurunum er því ekki mikið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband